Morgunblaðið - 05.01.2006, Blaðsíða 40
40 FIMMTUDAGUR 5. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
enda var enginn skortur á þeirri til-
finningu hjá Huldu. Hún var
óvenjuleg manneskja og naut þess
og það leiddist engum í návist henn-
ar.
Hún bar þess mörg merki að vera
yngsta barn. Hún hafði t.a.m. mikla
þörf fyrir að sanna sig, fyrir sjálfri
sér og öðrum, og tók hvað eftir ann-
að erfiðar ákvarðanir, bæði í starfi
sínu og einkalífi, sem báru kjarki
hennar og staðfestu vitni. Ég kynnt-
ist henni best þegar við unnum svo-
lítið saman fyrir átta árum og eftir
það var samband okkar nánara en
áður. Við vorum ekki trúnaðarvinir,
en ég held að við höfum skilið hvor
aðra á sérstakan hátt, þar sem orða
var ekki alltaf þörf.
Í vor stofnuðum við mamma félag
um kaup á Marbakka. Afsalið dróst
um nokkrar vikur og þegar að því
kom, var ég á leið til útlanda. Við
mættum þrjár til fasteignasalans og
skrifuðum undir og svo fór ég mína
leið. Seinna um daginn hringdi
Hulda í mömmu. Hún hafði áttað sig
á því að það var 10. maí, dagurinn
sem amma Hulda og afi Rútur
fluttu alfarið í litla sumarbústaðinn
sinn, fyrir réttum 65 árum.
Hulda frænka bjó lengst systkina
sinna á Marbakka og mótaði hann í
þá mynd sem hann er nú, með þá-
verandi manni sínum. Hún sagði
mér að sér hefði alltaf liðið vel hér.
Ég votta frændsystkinum mínum
og fjölskyldum þeirra dýpstu samúð
mína. Einnig móður minni og móð-
ursystrum og þeim fjölmörgu sem
áttu ást og vináttu Huldu og eiga
um sárt að binda vegna fráfalls
hennar.
Hún var mér fyrirmynd í mörgu.
Ég þakka henni fyrir kraftinn og
kjarkinn sem hún sýndi í öllu því
sem hún tók sér fyrir hendur.
Hanna
Styrmisdóttir.
Ég var hrædd við Huldu móð-
ursystur mína þegar ég var lítil.
Ekki af því að hún væri vond við
mig, heldur af því að stundum var
ákveðnin og krafturinn svo mikill að
það beinlínis gustaði af henni og þá
fór um litla frænku. Mér fannst
samt alltaf gaman að heita sama
nafni og hún og amma og ég hef
alltaf verið stolt af því að vera ein af
„Huldunum á Marbakka“.
Það var alltaf gaman að fara í
heimsókn á litla Marbakka og
seinna inn í Vallhólma og þar var ég
síðar eitt sumar í nokkrar vikur í
vist hjá Huldu frænku. Það var mik-
ilvægt fyrir mig að vera treyst fyrir
því ábyrgðarmikla verkefni og ég
hafði mjög gaman af. Hulda átti líka
frumkvæðið að öðru starfi sem ég
sinnti í þrjú sumur og lærði mikið af
en það var sem aðstoðarmaður í
skólagörðunum í Kópavogi. Og það
var Hulda frænka sem að bjargaði
fermingardeginum mínum – ég kom
útgrátin og ósátt heim úr hár-
greiðslu, en hún sem var lagin með
rúllur og krullujárn tók sig til og
gerði mig flotta um hárið svo að ég
fór aftur að brosa. Ég er líka nokk-
uð viss um að það var Hulda frænka
sem lagði grunninn að gifturíkri
brjóstagjöf minni þegar ég loks
eignaðist mín börn – svo sterk er
minningin um ljósmynd sem var
uppi á vegg í Vallhólma af Hrafn-
hildi Huld nýfæddri og skælbros-
andi við brjóst móður sinnar.
Hulda og Smári og frændsystkini
mín þrjú eru órjúfanlegur hluti af
æskuárum mínum. Ég er þakklát
fyrir þær stundir og fyrir góðu
stundirnar sem við Haraldur áttum
hjá þeim í Lyon sumarið 1990. Þau
tóku höfðinglega á móti okkur,
leyfðu okkur að njóta frábærrar
matargerðar og leiddu okkur inn í
leyndardóma lítilla vínræktenda í
Beaujolais. Ég hef oft síðan eldað
andabringu með appelsínusósu a la
Hulda frænka, síðast núna um ára-
mótin.
Ég fylgdist agndofa og af stolti
með Huldu þegar hún setti upp
kaffihús í Hamraborg í Kópavogi
eftir komuna frá Frakklandi. Nú
eru kaffihús á hverju strái en þarna
voru þau aðeins örfá og hún var
sannkallaður frumkvöðull. Mar-
bakki var tekinn í gegn og gerður
upp af sama eldmóði og natni stuttu
síðar. Ég fylgdist líka með þegar
hún gerði miklar breytingar á lífi
sínu og það gladdi hjarta mitt að sjá
hamingju hennar með Pétri seinna.
Mikil og góð vinátta skapaðist með
þeim Huldu og Pétri og foreldrum
mínum á þeim tíma sem þau bjuggu
hlið við hlið á Marbakka og þær
voru ófáar stundirnar sem þau áttu
yfir kaffi og góðum mat.
Það var sárt að horfa á sorgina
knýja dyra í fyrra og það hvernig
hún lék þessa sterku konu. Hún
gafst samt aldrei upp og það var
með mikilli gleði sem ég horfði á
Huldu þegar við borðuðum saman
skötu núna á Þorláksmessu ásamt
foreldrum mínum að Marbakka sið.
Hún leit svo vel út og var svo glöð.
Árið hafði enda verið henni líka
gott: Þrjú heilbrigð barnabörn með
stuttu millibili. Sex gullfalleg barna-
börn samtals. Hún var aftur að ná
kraftinum sínum. Ég gleymdi Bítla-
bollanum sem ég hafði keypt handa
henni á Bítlasafninu í Liverpool en
sagðist myndu koma honum til
hennar á milli jóla og nýárs. Ég veit
ekki alveg hvað ég á að gera við
hann núna.
Það er vont þegar einhver sem
manni þykir vænt um hverfur svo
skyndilega á braut. En það er
bjargföst trú mín að Hulda frænka
sé glöð og líði vel og að hún og ást-
vinir hennar muni hittast síðar. Ég
þakka henni fyrir að vera hlý og
umhyggjusöm móðursystir og bið
blessunar til handa henni og ástvin-
um hennar á þessari stundu og um
alla framtíð.
Hulda Dóra
Styrmisdóttir.
Það er eiginlega ekki hægt að
hugsa sér meiri Kópavogsbúa en
Huldu Finnbogadóttur, fædda hér
og upp alda á höfuðbólinu Mar-
bakka, dóttur forystufólksins sem
byggði Kópavog. Hulda heftur trú-
lega vanist því snemma að standa
fyrir sínu og vera óhrædd við að
hafa skoðanir. Þegar fram liðu
stundir tók hún mikinn þátt í bæj-
arlífi og tók sæti í bæjarstjórn fyrir
Alþýðuflokkinn 1986. Hulda átti
ekki minnstan þátt í þeim glæsilega
kosningasigri sem flokkurinn vann í
þeim kosningum. Hún lét af starfi
bæjarfulltrúa 1988 þegar fjölskyld-
an fluttist til Frakklands.
Heim komin opnaði hún skemmti-
legt kaffihús í miðbænum og notaði
það til að kenna bæjarbúum að
meta almennilegt kaffi. Þetta kaffi-
hús hefur fyrir löngu unnið sér fast-
an sess í bæjarlífinu, þar var gott að
koma, fá einn sterkan expressó í
amstri dagsins og oft fékk maður
veganesti frá vertinum um málatil-
búnað í bæjarstjórn nú eða bara al-
menn heilræði. Hún var alveg
óhrædd við að segja manni það sem
henni fannst að betur mætti fara í
málafylgju eða starfi. Slíkir félagar
eru mikils verðir.
Loksins vorum við Hulda svo
saman í flokki þegar Samfylkingin
varð til og þar var hún virkur þátt-
takandi í kosningaundirbúningi og
öðru starfi. Hún vann til að mynda á
kosningaskrifstofunni hér í Kópa-
voginum í síðustu alþingiskosning-
um, svo aðeins eitt sé nefnt. Síðast
var hún með okkur á vettvangi í
haust í „kvennakaffi“, sem haldið
var á kvennafrídaginn. Alltaf ráða-
góð, alltaf með ígrundaðar skoðanir.
Á 50 ára afmæli Kópavogskaup-
staðar síðastliðið sumar létum við
bæjarfulltrúar jafnaðar- og fé-
lagshyggju í gegnum tíðina taka af
okkur hópmynd, og höfðum við mál-
verk af heiðursborgurunum Finn-
boga Rúti og Huldu Jakobs í bak-
grunni. Hulda hafði þá á orði við
mig að henni fyndist nú ekki verra
að hafa foreldra sína með í þessum
föngulega hópi. Nú dvelur hún með
þeim og öðrum ástvinum sínum.
Huldu þekkti ég ekki einungis í
gegnum sameiginlegan áhuga okkar
á stjórnmálum. Hún fylgdi mér eig-
inlega allt lífið, ég er alinn upp við
heimreiðina niður á Marbakka, for-
eldrar mínar fengu byggingarlóð
hjá foreldrum hennar, svo fátt sé
nefnt.
Ég sendi fjölskyldu Huldu hlýjar
kveðjur frá fjölskyldunni á Kárs-
nesbraut 30, um leið og ég flyt fjöl-
skyldu hennar þakkir fyrir hönd
jafnaðarmanna hér í Kópavogi fyrir
allt hennar starf í okkar þágu og
Kópavogsbúa allra.
Fjölskyldu hennar og vinum votta
ég okkar dýpstu samúð.
Flosi Eiríksson, oddviti Sam-
fylkingarinnar í Kópavogi.
Það er dimmasti tími ársins, elsku
Hulda vinkona mín er látin. Hún
kom fyrir stuttu á „Harley Dav-
idson“ – stolt og glöð, hafði hjólað
ein á milli nesja frá Seltjarnarnesi
til mín í Helguvík á Álftanesi. Við
Siggi vorum glöð að sjá að Hulda
virtist vera að ná sér eftir veikindi
og þungar sorgir eftir að hafa misst
seinni mann sinn Pétur.
Hulda vílaði fátt fyrir sér – ekki
nám erlendis, stofnun og rekstur
veitingahúss, pungapróf og sjóferð-
ir, mótorhjólaakstur eða það að
hýsa fólk ef vantaði skjól. Fram-
takssemin og frumkvæðið ein-
kenndu hana. Hún var sjálfstæð og
hafði ákveðnar skoðanir. Hún var
félagshyggjukona og virk í sam-
félaginu. Ég man þegar við stöll-
urnar, ungar mæður, þrömmuðum
hús úr húsi í austurbæ Kópavogs og
leituðum eftir stuðningi íbúa. Það
vantaði gæsluvöll í nýja hverfið okk-
ar og völlurinn varð að veruleika –
þannig var Hulda. Hún átti frum-
kvæðið, eins og í svo mörgu öðru.
Við Hulda kynntumst er ég flutti í
Vallhólmann en þar bjó Hulda með
Smára og börnunum. Þarna hófst
vinskapur sem hefur enst æ síðan.
Ég á Huldu margt að þakka. Það
var hún sem kom og sagði: „Ég ætla
taka stúdentspróf, drífurðu þig ekki
bara líka?“ Oftar en ekki keyrði hún
okkur í skólann þegar ég var bíl-
laus. „Svona, engan aumingjaskap,
við Gunna sækjum þig.“ Við þrjár
„snillingarnir,“ ég, Guðrún Einars-
dóttir og Hulda, áttum skemmtilega
en oft erfiða tíma í öldungadeildinni.
Það var svo Hulda sem talaði fyrir
hönd stúdenta á útskriftardaginn.
Það er erfitt að sætta sig við að
hitta Huldu ekki framar. Við töl-
uðum síðast saman á kvennafrídag-
inn undir turni Hallgrímskirkju,
Hulda einlæg og hlý eins og venju-
lega og trygg í jafnréttisbaráttunni.
Nú tekur daginn að lengja og
birtir á ný en minningin um þig,
elsku Hulda mín, mun alltaf vera
umvafin birtu í mínum huga. Ég
kveð þig með söknuði og þakklæti.
Elsku Ella, Gunni og Hrafnhild-
ur, ykkar missir er mestur. Ég og
fjölskylda mín samhryggjumst ykk-
ur innilega og sendum fjölskyldum
ykkar samúðarkveðjur.
Agnes Agnarsdóttir.
Hetjan okkar, hún Hulda, er lát-
in.
Huldu kynntumst við vel í gegn-
um sameiginleg áhugamál eigin-
manna okkar sem eru mótorhjól.
Hulda og Pétur höfðu gríðarlegan
áhuga á að aka um á mótorhjólum
og höfðu meðal annars farið tvær
Evrópuferðir og fóru víða um landið
okkar. Gaman er að minnast er þau
fóru á hjólinu um Vestfirði snemma
vors árið 2003 í aðeins tveggja stiga
hita og var Huldu oft um og ó sök-
um lofthræðslu og kulda og hótaði
hún einu sinni að taka næstu flugvél
heim, en ást hennar á Pétri varð
hræðslunni og kuldanum yfirsterk-
ari. Það var henni þungt áfall þegar
Pétur féll frá fyrir rúmu ári, þau þá
enn í tilhugalífinu.
Um páskana 2003 drifum við und-
irritaðar okkur, ásamt Huldu, á bif-
hjólanámskeið með tilheyrandi bylt-
um og rykkjum en stóðumst allar
prófin með glans. Það var henni
mikið í mun að halda áfram í mót-
orhjólaklúbbnum okkar og þrátt
fyrir að vera orðin ein þá hélt það
ekki aftur af henni að kaupa sér sitt
eigið mótorhjól og var kvenna dug-
legust að fara ein út að hjóla. Í
ágúst síðast liðnum var farin hóp-
ferð til Siglufjarðar og þreytti hún
þá frumraun sína í langkeyrslu á 30
km hraða út úr Reykjavík og til
baka í bæinn á 90 km hraða. Eftir
þessa ferð fékk hún viðurnefnið
„hetjan“.
Hulda var smekkmanneskja,
hafði gaman af góðri tónlist, fór
mikið í leikhús var vel lesin. En
skemmtilegast þótti henni að skella
sér í leðurgallann og þeysast um á
Harleyinum sínum. Og þannig vilj-
um við minnast hennar.
Elsku Hulda, það er okkur hugg-
un að vita að nú hvílir þú í örmum
Péturs á ný. Börnum, tengdabörn-
um og barnabörnum vottum við
okkar dýpstu samúð.
Ása, Hildur og Kristín.
Okkur langar í nokkrum orðum
að minnast góðrar vinkonu og
bekkjarsystur. Fréttin um skyndi-
legt og ótímabært andlát hennar
kom eins og reiðarslag. Við sáum
hana síðast um miðjan desember
þar sem hún lék á als oddi og lífið
virtist brosa við henni.
Leiðir okkar lágu saman í námi í
Háskóla Íslands í verkefnastjórnun
og leiðtogaþjálfun þar sem við unn-
um náið saman.
Það var afar ánægjulegt að vinna
með Huldu og kom strax í ljós að
þar var einstök kona á ferð. Hún
var fylgin sér í því sem hún tók sér
fyrir hendur, viljasterk og þrautseig
og hafði ávallt skoðanir á mönnum
og málefnum og talaði hreint út.
Hún var ákaflega gestrisin kona
og vörðum við ófáum stundum á
heimili hennar á Marbakka sem allt-
af var opið og allir velkomnir.
Það er því með mikinn söknuð og
harm í hjarta sem við kveðjum okk-
ar kæru vinkonu og erum þakklát
fyrir allar þær góðu stundir sem
gáfust.
Við vottum börnum og barna-
börnum og öðrum aðstandendum
hennar okkar innilegustu samúð.
Minning um góða vinkonu lifir.
Anna Karolína, Elísabet,
Júlíana, Jóhannes og Þórunn.
Það er svo óútreiknanlegt þetta
líf, ekkert víst – við getum bara
áætlað en það er annar sem ræður.
Ég átti mér náinn vin, Pétur
Þórsson. Hann gekk lífsbrautina
með sínum hætti, sem sumir skildu
ekki, þar sem innsæið brást þeim er
á horfðu. Í gegnum hann kynntist
ég Huldu.
Einu sinni hitti ég Pétur og vissi
að bragði, að mikil tíðindi höfðu orð-
ið í lífi hans. Ég innti hann eftir því
hverju það sætti – svona til hliðar og
á ská, því þannig voru okkar samtöl
stundum. Hann brást öðruvísi við en
vanalega og vildi ólmur kynna mig
fyrir konu, sem hann hafði hitt. Aug-
un ljómuðu og allt fas var léttara.
Þannig bar kynni okkar Huldu að.
Ég hafði svo sem ekki rætt lengi
við hana þegar ég sannfærðist um,
að þarna var máti Péturs á svo
marga vegu, greind, tilgerðarlaus,
íhugul og svo afskaplega björt í fasi.
Hulda reyndist vini sínum sem
áburður gróandanum, allt það besta
í honum blómstraði og gaman var að
fylgjast með sambandi þeirra. Allt
gert af ljúfmennsku og ekki gat farið
fram hjá neinum, sjáandi eða blind-
um, að þau pössuðu saman og þar á
bæ ríkti hamingja og samheldni. Svo
veiktist Pétur og greindist með
krabbamein á háu stigi. Hulda tók á
því öllu án tilgerðar og með ákveðni,
æsingalaust og af nærgætni við Pét-
ur og ástvini hans. Hulda unni hon-
um heitt og líknaði honum sem best
var unnt. Þau gengu að eiga hvort
annað á dánarbeði hans því þau
voru bara svoleiðis.
Hulda var föst fyrir í skoðunum
og lífssýn hennar var skýr og mót-
uð. Þar áttum við skemmtilegar
snerrur, allt í góðu og með ívafi af
kímni, sem henni var eiginleg. Miss-
ir er að slíkum huga héðan en henni
líður örugglega vel með honum
Pétri sínum.
Ástvinum ber ég óskir um að láta
minningu um gegnheila konu lýsa
fram á veginn, í gegnum móðu sorg-
ar og eftirsjár. Rifjið upp með af-
komendum hennar, hve gersamlega
menning okkar Íslendinga náði fág-
un í henni.
Bjarni
Kjartansson.
Í ársbyrjun 2004 kom Hulda
Finnbogadóttir til starfa í sjúkra-
tryggingadeild Tryggingastofnunar
ríkisins. Hún hafði áður unnið í fjór-
tán ár hjá Brunabótafélagi Íslands,
fyrst sem skrifstofumaður en síðan
sem umboðsmaður BÍ í Kópavogi.
Þá rak hún um árabil kaffihús í
Hamraborg í Kópavogi.
Hulda var sérstaklega góður
vinnufélagi. Hún var víðsýn, for-
dómalaus og vel að sér um hin ýmsu
málefni. Hún hafði lifandi áhuga á
samfélagsmálum. Hún hafði sterkar
skoðanir á hinum ýmsu málum en
aldrei heyrðist hún þó hallmæla
nokkurri manneskju þó skoðanir
færu ekki saman.
Hulda sýndi okkur samstarfs-
félögunum hvern mann hún hafði að
geyma þegar hún varð fyrir því
mikla áfalli að missa mann sinn,
hann Pétur. Þegar ljóst var hvert
stefndi var hún eins og klettur, hélt
fund með sínu samstarfsfólki og
sagði frá stöðu mála. Þessi mikli
dugnaður og kraftur var einkenn-
andi fyrir Huldu, hún lifði lífinu lif-
andi og erfiðleikarnir voru til þess
að takast á við þá.
Þessi kraftur Huldu endurspegl-
aðist líka í áhugamálunum, sem
kannski voru ekki öll dæmigerð fyr-
ir konu á hennar aldri, en hún
keyrði mótorhjól og stundaði sigl-
ingar. Það lýsir henni ef til vill betur
en mörg orð að hún átti sér þann
draum að sigla á skútu yfir Atlants-
hafið. Einnig hafði hún mikla
ánægju af því að sækja leikhús og
kvikmyndahús, var dugleg að fara í
gönguferðir og sund.
Hulda var sífellt að bæta við
menntun sína með því að sækja
námskeið á ýmsum sviðum, ekki síst
varðandi upplýsingatækni, stjórnun
og markaðsmál. Nú síðast stundaði
hún nám í verkefnastjórnun og leið-
togaþjálfun við Endurmenntunar-
stofnun Háskóla Íslands en loka-
verkefni hennar og nokkurra
samnemenda var hreyfing sem nýtt
meðferðarform til að vinna bug á til-
teknum sjúkdómum.
Þó að Hulda talaði ekki mikið um
sína einkahagi fór það ekki á milli
mála hve mikla umhyggju hún bar
fyrir börnum sínum og barnabörn-
um og hver hin raunverulegu verð-
mæti voru í hennar lífi. Hún eign-
aðist þrjá myndarlega ömmustráka
á síðastliðnu ári og var afskaplega
glöð og stolt yfir þessum litlu sólar-
geislum í lífinu.
Hulda var mjög vel liðin af sam-
starfsfólki, var sérstaklega hlýleg í
allri framkomu og átti auðvelt með
að umgangast alla. Hún gat alltaf
slegið á létta strengi og lyft okkur
samstarfsfólkinu aðeins upp í hvers-
dagsleikanum, reyndar einnig í bók-
staflegri merkingu því hún minnti
okkur reglulega á að standa aðeins
upp og hreyfa okkur.
Það er mikill missir að Huldu á
vinnustaðnum og hennar er sárt
saknað.
Við sendum börnum Huldu,
tengdabörnum og barnabörnum
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Samstarfsfólk hjá
Tryggingastofnun.
HULDA
FINNBOGADÓTTIR