Morgunblaðið - 10.02.2006, Side 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. FEBRÚAR 2006 37
MINNINGAR
var einstakur. Hún var einstaklega
ljúf og næm og hafði alltaf nægan
tíma fyrir okkur barnabörnin og
fylgdist náið með því sem við tókum
okkur fyrir hendur og var mjög um-
hugað um velferð okkar. Þó að ég viti
að hún sé komin á betri stað og laus
við sársaukann og kvölina er erfitt til
þess að hugsa að ég muni ekki fá að
njóta fleiri stunda með henni. Þá er
gott að geta yljað sér við ótal góðar
og ljúfar minningar um hana, þær
verða aldrei teknar frá mér.
Amma var mögnuð kona. Ég bið
henni Guðs blessunar og megi hún
hvíla í friði.
Ásdís Halla.
Hún Ásdís amma var duglegasta
kona sem við höfum kynnst. Hún
vann alla ævi mikið en var ekki fyrir
að kveinka sér. Amma var falleg og
glæsileg kona án þess að þurfa að
hafa mikið fyrir því. Hún vildi öllum
vel og hafði fjölskylduna alltaf í fyrsta
sæti. Amma og afi voru heppin að
eiga stóra fjölskyldu, mörg börn og
barnabörn. Þrátt fyrir stóran barna-
hóp náðu þau alltaf að halda vel utan
um alla og fylgdust með af áhuga
hvað hver og einn var að gera.
Sunnubrautin var griðastaður allra
í fjölskyldunni og þar leið öllum vel.
Það var rosalega gaman að vera barn
sem tilheyrði Sunnubrautarfjölskyld-
unni. Það var svo mikið af spennandi
og framandi hlutum og amma gaf
börnunum frjálsar hendur. Amma
var alltaf til í að leyfa okkur að gista
og fannst það ekki mikið mál, þó svo
að við höfum oft verið ansi fyrirferð-
armiklar. Þá fékk maður að gista í
holunni, þ.e. á milli ömmu og afa, og
kveikt var á rás 1 allar nætur.
Sumarbústaðurinn var ofarlega í
hugum ömmu og afa. Bústaðurinn
var sannkallað ævintýraland og þar
eyddu amma og afi stórum hluta
sumars. Amma plantaði og hlúði að
lúnum gróðri á meðan afi sá um
grenitrén. Oft fengum við frænkurn-
ar að fljóta með í bústaðinn og það
þótti okkur gaman. Þá eyddum við
öllum deginum í að hamast og leika
okkur, busla í læknum og stundum
hjálpuðum við ömmu með gróðurinn.
Farið var í Minni-Borg sem var mikið
gleðiefni enda fengum við yfirleitt
eitthvað góðgæti. Á kvöldin fórum við
svo inn í bústað, þreyttar, sælar og
skítugar og oftar en ekki var tekið í
spil. Amma sagði okkur ýmsar sögur
frá því þegar hún var lítil, á meðan
logaði á olíulömpunum. Til dæmis
sagði amma okkur frá því að hún æfði
sund þegar hún var lítil stelpa og átti
ullarsundbol. Okkur er sérstaklega
minnisstætt þegar við tvær fórum
ásamt Ásdísi Höllu og ömmu í nokkra
daga í bústaðinn. Þá vorum við önn-
um kafnar allan daginn og amma
gróðursetti. Þegar kvölda tók hafði
Ásdís Halla alltaf eldað kvöldmat á
gaseldavélinni, sem kom sér ansi vel
eftir amstur dagsins. Þessar bústað-
arferðir með ömmu og afa eru
ógleymanlegar og yndislegar í alla
staði.
Öll boðin sem amma hélt á Sunnu-
brautinni voru einstök og ekki má
gleyma sunnudagsmatnum. Þá var
amma með mat fyrir fjölda manns
sem hún sá yfirleitt um ein og af mikl-
um myndarskap. Þó sá afi um læri og
sósu. Samverustundirnar með fjöl-
skyldunni hefðu trúlega ekki orðið
eins margar ef ekki hefði verið fyrir
ömmu og afa.
Elsku amma Ásdís, við erum svo
þakklátar fyrir að þú hafir verið
amma okkar. Það er gaman að rifja
upp allar frábæru stundirnar sem við
áttum með þér. Við munum alltaf
sakna þín og þú munt eiga sérstakan
stað í hjörtum okkar um alla framtíð.
Þínar
Ásdís Ólafsdóttir og
Salvör Gyða Lúðvíksdóttir.
Elsku amma. Ég þakka þér fyrir
allar stundirnar sem við áttum sam-
an, og allar skemmtilegu ferðirnar í
sumarbústaðinn sem við fórum í sam-
an og skemmti ég mér konunglega.
Þegar ég var lítil var ég oft hjá þér og
afa og fannst mér það svo skemmti-
legt. Ég mun alltaf geyma allar góðu
minningarnar sem við áttum saman í
hjarta mínu.
Vort traust er allt á einum þér,
vor ástarfaðir mildi. Þín náð og miskunn eilíf er,
það alla hugga skyldi.
(Páll Jónsson.)
Ég sakna þín sárt.
Þín
Iðunn Lúðvíksdóttir.
Ég sá hana fyrst sumarbjart kvöld
1955, er Þorvaldur, bróðir minn, kom
með hana á heimili okkar Ólafs. Hún
var ekki margmál en bar með sér
sterkan persónuleika, sem einkenndi
hana alla tíð. Ásdís var þá nýútskrif-
uð hjúkrunarkona og varð það ævi-
starf hennar ásamt því að sjá um
heimili og fimm börn, svo geta má
nærri að oft hefur hún örþreytt lagst
út af á koddann. Ásdís var glæsileg
kona, há og grönn með dökkt, fallegt
hár og vakti athygli hvar sem hún fór.
Ásdís og Þorvaldur bjuggu lengst af í
stóru einbýli í Kópavoginum, fluttu
þangað 1970. Heimili þeirra stóð ætíð
opið fyrir fjölskyldum beggja og var
þar því oft mannmargt. Eftir að börn-
in komust upp og stofnuðu sín eigin
heimili var gamla heimilið þeirra hjá
pabba og mömmu þeim mjög kært og
voru þau oft mætt í sunnudagsmatinn
ásamt mökum og börnum, sem sífellt
fjölgaði, og eiga Ásdís og Þorvaldur
nú 18 barnabörn og eitt langömmu-
barn. Árið 2000 seldu þau einbýlið í
Kópavogi, eftir 30 ára búsetu, og
keyptu íbúð í Bólstaðarhlíð 15. Þá var
heilsan farin að bila hjá báðum, en
þau nutu þess að ferðast til útlanda
og ekki síður að sækja leikhús. Ásdís
var mikil hannyrðakona, eins og móð-
ir hennar, og liggja eftir hana margir
fallegir munir, sem prýða heimili
þeirra. Nú á bróðir minn um sárt að
binda, þar sem hann liggur mikið
sjúkur á Landakotsspítala. Það var
gæfa þeirra beggja hvað börnin hafa
reynst þeim vel, ekki síst núna í
þeirra miklu veikindum. Þau eiga nú
öll um sárt að binda og bið ég algóðan
Guð að styrkja Þorvald minn og alla
afkomendur þeirra Ásdísar. Guð veri
með henni í nýjum heimkynnum.
Anna S. Lúðvíksdóttir.
Ég var á ellefta aldursári þegar
Ásdís og Þorvaldur móðurbróðir
minn gengu í hjónaband. Hann var þá
27 ára og ég orðin áhyggjufull, fannst
að hann ætti að vera búinn að festa
ráð sitt fyrir löngu og óttaðist að
hann væri að missa af lestinni. Ásdís
var því í mínum huga kærkomin við-
bót við fjölskylduna. Ég kynntist Ás-
dísi þó ekki að ráði fyrr en um ári síð-
ar, þegar fyrsta barn þeirra Þorvalds
fæddist og ég tók að venja komur
mínar á heimili þeirra í þeirri full-
vissu að ég væri ómissandi við
umönnun og uppeldi barnsins. Í
fyrstu var ekki laust við að ég væri
feimin við þessa hávöxnu, ungu konu.
Feimnin rann þó fljótlega af mér,
þegar ég kynntist Ásdísi betur. Frá
fyrsta degi tók hún mér eins og jafn-
ingja og ræddi við mig eins og ég
væri fullorðin manneskja. En hún
gerði líka kröfur til mín í samræmi
við það og sýndi mér fullt traust í
mikilvægu uppeldisstarfi mínu.
Næstu fjögur árin bættust þrjú börn
við fjölskylduna og jukust heimsóknir
mínar í réttu hlutfalli við fjölgunina.
En það var ekki bara ég ein sem
vandi komur mínar á heimili þeirra,
heldur stóð það opið okkur öllum,
systrabörnum Þorvalds, hvenær sem
var.
Börnin fjögur eltust og þroskuðust
og uppeldismóðurinn rann af mér, en
áfram hélt ég heimsóknum mínum til
þeirra. Hlýlegt viðmót Ásdísar og
Þorvalds, notalegt heimili og and-
rúmsloft laðaði að.
Ásdís var glæsileg kona, há og
beinvaxin og bar sig vel. Hún var dul í
skapi en hreinskiptin og laus við fals
og fagurgala. Hún var hjúkrunar-
fræðingur að mennt, eða hjúkrunar-
kona, eins og það var kallað í þá daga
og vann við það starf stærstan hluta
starfsævinnar, ásamt því að annast
stórt heimilið og lífleg börnin. Þegar
Ásdís var á fertugasta aldursári
bættist fimmta barnið í hópinn. Þótt
vinnudagurinn væri oft langur og efa-
lítið erfiður gaf hún sér tíma til að
sauma föt á börnin og sinna öðrum
hannyrðum en henni var ýmislegt til
lista lagt.
Fyrir um sex árum seldu Ásdís og
Þorvaldur heimili sitt til þrjátíu ára,
enda börnin öll löngu flogin úr hreiðr-
inu, og fluttu í notalega íbúð í Ból-
staðarhlíð, í sömu götu og þau höfðu
hafið sín hjúskaparár. Þarna hugðust
þau njóta ævikvöldsins. En það fer
ekki allt eins og maður ætlar. Fyrir
ári fékk Þorvaldur alvarlegt áfall og
hefur legið lamaður á sjúkrahúsi síð-
an. Ásdís hafði um árabil verið kvalin
af verkjum, án þess að skýring feng-
ist á þeim, þrátt fyrir ótal rannsóknir
sérfræðinga. Það var ekki fyrr en síð-
astliðið sumar að hún greindist með
krabbamein í lungum. Þótt meinið
væri fjarlægt með skurðaðgerð fór
heilsu hennar hratt hrakandi og það
var ekki fyrr en tæpum tveimur vik-
um fyrir andlát hennar sem hún
greindist loks með útbreitt krabba-
mein, m.a. í beinum, sem varð henni
að aldurtila.
Við kveðjum nú stórbrotna konu,
sem alltaf kom til dyranna eins og
hún var klædd. Missir Þorvalds
frænda míns og barna þeirra og ann-
arra afkomenda er mikill. Við hjónin
vottum þeim öllum einlæga samúð
okkar og biðjum Ásdísi Guðs bless-
unar á nýjum slóðum. Megi hún hvíla
í friði.
Sigríður Ólafsdóttir.
Ásdísi Ólafsdóttur, sem kvödd er í
dag, hef ég þekkt frá barnsaldri, eða í
því sem næst hálfa öld. Á æsku- og
unglingsárum mínum var meiri sam-
gangur, ekki síst okkar Björns bróð-
ur míns, við Þorvald móðurbróður,
Ásdísi og börnin, en jafnvel gerist og
gengur. Margt kemur í hugann þegar
horft er til þess tíma. Við tókum þátt í
margvíslegum ferðalögum um landið
og gekk á ýmsu. Ferðast var í gamla
Bensanum með tvö tjöld, 7 svefnpoka
og birgðir af mat og fatnaði í skotti og
á grind og troðfullum bíl af fólki, þótt
ekki væru allir í fullri stærð. Frænd-
systkini mín voru ekkert þægari en
önnur börn og töluverður fyrirgang-
ur og fjör í bílnum, sem hlýtur að hafa
verið vel byggt eintak. – En Ásdís og
Þorvaldur voru afburða fararstjórar í
þessum óvissuferðum sem munu
lengi verða gleðigjafi í minningunni.
En þegar hugsað er til Ásdísar,
þarf ekki að koma á óvart þótt fjöl-
skyldan öll komi í hugann. Því þótt
hún stundaði hjúkrunarstörf sín af
afli og þolgæði, stundum jafnvel veik
sjálf, og réðist ekki á þann garð, þar
sem hann er lægstur, þá var fjöl-
skyldan og velferð hennar engu að
síður í fyrirrúmi. Voru þau hjónin
mjög samtaka í þeim efnum. Og lánið
lék við þau. Börnin fimm döfnuðu vel,
myndarleg og ágæt í hvívetna og hafa
ekki dregið af sér við að stækka fjöl-
skylduna. Og Ásdís og Þorvaldur í
öndvegi hafa fagnað mjög í hvert sinn
við fjölgun í fjölskyldunni og fylgst
nákvæmlega með vexti og viðgangi
hvers og eins. Samkomur hennar,
formlegar og óformlegar, voru ávallt
tilhlökkunarefni, sem stofnað var til
hvenær sem færi gafst. Auðvitað
reyndi þá mjög á húsmóðurina, en
hún skilaði sínu verki óaðfinnanlega.
Ásdís hafði marga kosti sem dugðu
henni vel í báðum hlutverkum henn-
ar. Hún var greind og örugg. Staðföst
var hún og gekk fumlaust að hverju
verki, trygg og holl sínum.
Síðustu misseri hafa verið erfið
þeim Ásdísi og Þorvaldi vegna heilsu-
brests, en barnahópurinn hefur stað-
ið eins og klettur við hlið þeirra og
þar hafa þau uppskorið eins og sáð
var til.
Ég hugsa á kveðjustund til langra
og góðra kynna af Ásdísi Ólafsdóttur
og við Ástríður þökkum hlýju og vin-
áttu alla tíð.
Davíð Oddsson.
Í huga mínum er eins og það hafi
gerst í gær þegar við mættumst í
fyrsta skipti í dagstofu Hjúkrunar-
skóla Íslands sem þá hafði aðstöðu á
Landspítalanum í Reykjavík. Stór-
glæsilegur stúlknahópur, staðráðinn í
að læra hjúkrun, hvað sem það nú
var. Ég minnist þess að hafa hugsað
með mér, „hvað ert þú nú að gera hér,
góða mín?“, ekki grunlaus um að
flestar hafi hugsað eitthvað þessu
líkt. Daginn eftir vorum við mættar í
skólann, blánemar. Þrjú ár að læra
um mannslíkamann innan og utan,
um sál og tilfinningar okkar og ann-
arra. Ganga virðulega um gangana
máttum ekki hlaupa og vinna okkar
margvíslegu störf. Við vorum svo
sendar til vinnu á sjúkrahúsum um
landið í sex mánuði af námstímanum
ásamt því að vinna þrjá mánuði á Víf-
ilsstöðum og aðra þrjá á Kleppsspít-
ala. Þetta voru ævintýralega
skemmtilegir tímar. Rokkið kom,
rellurnar á Borginni og KK-sextett.
Við höfðum ströng útivistarleyfi en
vorum stundum klókar. Svo kom
stóra stundin með útskriftarveislu í
borðstofu og lögðum á hilluna blá-
hvítan nemabúninginn, stífaðar blæj-
ur og svuntubrjóst. Eftir útskrift fóru
sumar af landi brott og aðrar út á
land. Við giftumst, eignuðumst heim-
ili og börn en héldum ávallt sambandi
og ævilangri vináttu. Ég held að síð-
an séum við búnar að læra fjórum
sinnum hjúkrun.
Nú eru horfnar úr hópnum þær
Hrefna Jóhannsdóttir, Jóhanna
Kjartansdóttir, Áslaug Sigurbjörns-
dóttir, Sigríður Bílddal, Vaka Sigur-
jónsdóttir og nú Ásdís Ólafsdóttir.
Ef ég ætti að lýsa Ásdísi kæmist ég
í vanda. Fyrir áratug eða svo fórum
við að vinna saman á Hrafnistu í
Reykjavík og höfðum ekki unnið
saman fyrr. Það var gaman að kynn-
ast Ásdísi svona upp á nýtt. Húm-
orinn kaldhæðinn, ótrúlega dugleg,
traust og ósérhlífin. Þá átti hún til
þessa sjaldgæfu meðfæddu blíðu.
Fallegt orð, blíða, og hæfði henni svo
vel. Í fyrravetur vorum við duglegar
og fórum í sundleikfimi tvisvar í viku
og á eftir í slugsið, sem var að fara á
veitingastað eða kíkja í búðir. Góðir
dagar það. Svo einn daginn var allt
breytt. Þorvaldur, maður Ásdísar,
veiktist alvarlega og hefur ekki náð
sér síðan. Ásdís gekk ekki heil til
skógar heldur. Þetta var erfitt tíma-
bil fyrir alla fjölskyldu þeirra. Börnin
voru móður sinni afskaplega góð til
hinstu stundar.
Hervör og Hrafnhildur, þó ég
þekki ykkur ekki í sjón, aðeins í gegn
um símann þessar síðustu vikur, þá
vil ég segja ykkur að þið eruð líkar
henni mömmu ykkar og það er góður
arfur.
Við skólasysturnar hittumst dag-
inn eftir lát Ásdísar. Við biðjum góð-
an Guð um að styrkja ykkur í sorg
ykkar.
Erla Jóhannsdóttir.
Elsku amma.
Við þökkum þér hvað þú
varst góð við okkur og alla.
Manni leið alltaf svo vel með
þér.
Það var svo gaman í sum-
arbústaðnum með þér og afa.
Takk fyrir skemmtilegu
bréfin sem þú sendir okkur.
Við skulum passa afa og vera
dugleg að heimsækja hann.
Takk fyrir allt. Við vonum
að þér líði vel hjá Guði.
Ástarkveðjur,
Signý, Guðrún Ásta
og Einar Lúðvík.
HINSTA KVEÐJA
Hugheilar þakkir til þeirra er sýndu okkur samúð
og hlýhug við andlát og útför
ARNAR ÞÓR
hæstaréttarlögmanns.
Læknum og hjúkrunarfólki á Landspítalanum við
Hringbraut, sem önnuðust Örn, eru færðar innilegar
þakkir.
Hrund Hansdóttir,
Hanna Rún Þór, Anna Þór Auðunsdóttir,
Hans Ragnar Þór, Margrét Björk,
Hrund Hanna, Ísak Rafn og Arna Sigríður,
Borghildur Fenger og Hjördís Ólöf Þór.
Elskulegur bróðir okkar, mágur og frændi,
SIGURGEIR M. JÓNSSON
frá Efri-Engidal,
sem lést á Sjúkrahúsi Ísafjarðar sunnudaginn
5. febrúar, verður jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju
laugardaginn 11. febrúar kl. 14.00.
Jón Jóhann Jónsson, Ásta Dóra Egilsdóttir,
Halldór Jónsson, Guðný Indriðadóttir,
Magnúsína Kristín Jónsdóttir,
Magdalena Jónsdóttir, Ögmundur Einarsson
og frændsystkin.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýju
vegna andláts og útfarar ástkærrar eiginkonu
minnar, móður, dóttur, systur og tengdadóttur,
SIGRÚNAR PÉTURSDÓTTUR,
Kristnibraut 83,
Reykjavík.
Sérstakar þakkir til Sigurðar Björnssonar krabba-
meinslæknis og starfsfólks krabbameinsdeildar
Landspítalans við Hringbraut.
Guð blessi ykkur öll.
Bogi Magnússon,
Magnús Bogason,
Guðríður Stella Bogadóttir,
Þorgerður Jóhannesdóttir, Guðmundur Friðvinsson,
Björg Guðmundsdóttir, Haraldur Gíslason,
Hjalti J. Guðmundsson, Sigurbjörg Sigurjónsdóttir,
Þorvaldur S. Guðmundsson, Halldóra Lárusdóttir,
Friðvin Guðmundsson, Hafdís Hilmarsdóttir,
Guðríður Jónasdóttir,
Pétur Eyfeld,
Pétur F. Eyfeld, Guðbjörg Karlsdóttir,
Þórdís Eyfeld.