Morgunblaðið - 09.06.2006, Síða 48

Morgunblaðið - 09.06.2006, Síða 48
48 FÖSTUDAGUR 9. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Unnur Agnars-dóttir fæddist á Akureyri 10. júní 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 3. júní síð- astliðinn. Foreldrar hennar voru Sigrún Pétursdóttir, f. 28. ágúst 1911, d. 27. mars 1998, og Agn- ar Guðlaugsson, f. 9. október 1903, d. 25. desember 1939. Unnur giftist 3. maí 1958 Óskari H. Gunnarssyni, fyrrverandi for- stjóra Osta- og smjörsölunnar, f. í Stykkishólmi 31. október 1932. Foreldrar hans voru hjónin Hild- ur Vigfúsdóttir Hjaltalín, f. 20. maí 1898, d. 22. desember 1985, og Gunnar Jónatansson, f. 12. júlí 1901, d. 19. apríl 1980. Börn Unn- ar og Óskars eru: 1) Gunnhildur, lektor við Kennaraháskóla Ís- lands, f. 25. október 1959, gift dr. Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðingi, f. 7. nóvember 1958, og eiga þau þrjú börn, Óskar Örn, f. 9. mars 1982, Ragn- hildi Ernu, f. 23. ágúst 1986, og Snorra Má, f. 10. mars 1993. 2) Agn- ar, forstöðumaður hjá VÍS, f. 12. maí 1963, kvæntur Mar- gréti Ásgeirsdóttur kennara, f. 15. nóv- ember 1966, og eiga þau þrjú börn, Gunnar Smára, f. 29. júlí 1992, Eirík Orra, f. 1. júní 1996, og Unni Maríu, f. 18. júlí 2001. Unnur vann lengst af í Seðla- banka Íslands. Síðustu æviárin dvaldist hún á Hjúkrunarheim- ilinu Sóltúni þar sem hún lést. Útför Unnar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Mín elskulega tengdamóðir er látin. Hún hefði orðið 71 árs á morgun en sjúkdómurinn varð þess valdandi að ævi hennar varð ekki lengri. Sjúkdómur sem hún varð aldrei sátt við. Hún náði aldr- ei að komast í það ástand að gleyma stund og stað. Þess í stað varð þessi tími henni afar erfiður sem okkur aðstandendum hennar þótti óskaplega erfitt að horfa upp á. Þegar ég kynntist Agnari syni hennar tók hún mér opnum örmum og náðum við Unnur fljótt vel sam- an. Við hófum okkar sambúð í kjallaranum í Birkigrundinni og bjuggum við í skjóli tengdafor- eldra minna í ein tíu ár. Á þessu tímabili giftum við okkur og eign- uðumst strákana okkar tvo. Þeim þótti mjög notalegt að geta leitað til ömmu og afa og oft var það að þeir læddust upp og voru þá yf- irleitt komnir með eitthvað gott í höndina frá ömmu þegar þeir fund- ust. Unnur var mikil áhugamann- eskja um handbolta og ef landsliðið var að keppa mátti finna hana fyrir framan sjónvarpið að hvetja sína menn. Spenningurinn var slíkur að hún þurfti að setja á sig hanska til að klára ekki neglurnar upp í kviku. Leikmennirnir hefðu orðið stoltir að heyra fagnaðarópin sem ómuðu í Birkigrundinni á slíkum stundum. Annað sem einkenndi Unni var garðurinn. Hún lagði mikla rækt við beðin sín og gat nefnt allar plöntur með nafni. Þarna var einn- ig að finna jarðarberjabeð, rabar- bara og rifs sem öllum barnabörn- unum þótti gott að seilast í. Unnur eyddi öllum stundum í garðinum ef veður leyfði og átti allar mögu- legar græjur til starfans. Hún reyndi mikið að vekja í mér græna genið en allt kom fyrir ekki. Hún varð að sætta sig við að áhugasvið tengdadótturinnar lá annars stað- ar. Henni þótti gaman að fallegri tónlist og var Hamrahlíðarkórinn í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Það kom nú til af því að bæði Gunn- hildur og Agnar voru í kórnum sem og bæði tengdabörnin, við Addi. Síðan hafa tvö elstu barna- börnin, Óskar og Ragnhildur, fetað í okkar fótspor og er Ragnhildur enn að syngja. Unnur var mjög falleg kona og myndarleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það tengd- ist mat, hannyrðum, garði eða börnum. Hún var afar stolt af börnunum þeirra tveimur og ennþá stoltari af barnabörnunum sex. Yngsta barnabarnið er dóttir okk- ar sem fékk nafnið Unnur María og var amma mjög montin með al- nöfnu sína. Það létti yfir ömmu Unni þegar Unnur María kom í heimsókn í Sóltún þar sem hún bjó undir það síðasta. Þá brosti hún og hló með litlu nöfnu sinni þar sem hún söng og dansaði fyrir ömmu sína. Þetta voru góðar stundir sem lifa í minningunni um yndislega konu. Við hugsum til Unnar með mikl- um söknuði en við huggum okkur við að núna hefur hún öðlast þann frið sem hún þurfti svo mikið á að halda. Elsku Óskar, Gunnhildur og Agnar, sorgin er mikil en ég veit að hún horfir til okkar með gleði- bros á vör. Blessuð sé minning hennar. Kær kveðja, Margrét. Mig langar að minnast tengda- móður minnar sem nú hefur fengið hvíld eftir erfiða baráttu við hinn óvinnandi og illvíga sjúkdóm alz- heimer. Það er með söknuði að ég kveð þessa góðu konu, góðu móður, góðu ömmu og góðu tengdamóður. Þetta orð góð kemur einmitt fyrst upp í hugann þegar hann hvarflar til Unnar því góðmennska, glað- værð og jafnaðargeð einkenndi hana. Alveg frá fyrstu stundu þeg- ar ég var að stíga í vænginn við dóttur hennar þá tók hún mér opn- um örmum og bauð mig velkominn í fjölskylduna. Þessi umhyggja Unnar fylgdi okkur Gunnhildi svo eftir að við fórum að búa, stofna fjölskyldu, fórum út í nám og heim aftur. Unnur og Óskar heimsóttu okkur oft til Skotlands og það voru gleðistundir sem þau áttu með okkur þar, það var stjanað við okk- ur og ekki síst við barnabörnin sem voru umvafin ást hennar og umhyggju. Við eigum þeim Unni og Óskari einnig mikið að þakka fyrir allan þann stuðning og hvatn- ingu sem við höfum ávallt notið. Unnur var mikil garðyrkjukona og barn vorsins og sumarsins. Hún elskaði að krjúpa við beðin þar sem hún hlúði að blómunum og upprætti illgresið og hún átti svo sannarlega skilið verðlaunin fyrir fegursta garðinn í Kópavogi. Aðra paradís áttu þau hjón í Grímsnes- inu þar sem þau eyddu mörgum góðum stundum saman. En garð- urinn í Birkigrund og gróðurvinin í Grímsnesinu voru ekki einu garð- arnir sem Unnur hlúði að af um- hyggju, kærasti garðurinn og sá sem hún hlúði best að var fjöl- skyldan. Þegar horft er um öxl á lífshlaup Unnar þá er ekki laust við að manni þyki lífið oft hræðilega ósanngjarnt. Að þessi góða kona sem gaf svo margt af sér skyldi ekki fá að njóta þess lengur en raun bar vitni.Hún var rétt að byrja að njóta ávaxtanna af ævinni þegar þessi hræðilegi sjúkdómur náði á henni tökunum. Hún hefði átt að eiga svo mörg góð ár með barnabörnunum sínum sem hún elskaði svo. Hún hefði átt að fá að njóta fleiri stunda í bústaðnum sín- um þar sem hún undi sér svo vel umvafin ástvinum. Og loksins þeg- ar þau Óskar voru að ljúka ævi- störfunum og við blasti tími til að ferðast, skoða heiminn og njóta alls sem þau áttu svo sannarlega skilið þá sviptir þessi óvinnandi sjúkdómur hana þessu. Það er erf- itt að horfa á ástvin sinn verða honum að bráð og sjá vanlíðanina sem hann olli með því að svipta þessa góðu konu gleðinni. Og erf- iðast hefur það verið fyrir Óskar sem hefur reynst Unni aðdáunar- lega vel í veikindum hennar. En gleðin er þó sterk og alltaf var stutt í brosið og gleðiglampann ef maður minntist á eitthvað sem henni var kært svo sem barna- börnin eða Svarfaðardalinn þar sem hún átti góðar minningar úr æsku. Vor mitt, það er blæösp, og það var á sínum stað veturinn langa, þar sem fönnin settist að, ósýnilegt, unz í allri sinni dýrð aftur það birtist sem hríslan, geislum skírð (Þorsteinn Valdimarsson) Ég minnist nú Unnar eins og hún var á sínum bestu stundum, glaðvær í sumrinu eins og blæösp geislum skírð og ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst henni og vona að ég hafi borið gæfu til að læra af henni að vera góður. Arnór. Þegar ég var lítill bjuggum við fjölskyldan í Skotlandi en komum stundum heim í frí um sumar eða jól. Þá bjuggum við alltaf hjá ömmu og afa í Birkigrundinni og nutum þar ómældrar ástar og um- hyggju. Það var fastur liður þegar ég kom heim til ömmu og afa að snúa bakinu að veggnum við hlið- ina á dyrakarminum inni í eldhúsi, eins beinn í baki og mögulegt var, og dró amma strik með blýanti þar sem höfuðið bar við vegginn. Und- antekningarlaust hafði ég vaxið um nokkra sentimetra. Það þurfti ekki meira til að gleðja ungan mann en að gera honum ljóst að hann væri ögn stærri í dag en hann var í gær. Það er langt síðan ég hef verið mældur, og þó er ég ennþá alltaf að koma heim frá útlöndum. Ég held að það sé þó ekki síst vegna þess að ég hef lítið hækkað hin síð- ari ár. Ég mun minnast ömmu Unnar sem glaðværrar konu sem var hlý og góð og sinnti barnabörnunum sínum af mikilli ást. Amma Unnur naut sín vel í garðinum þeirra stóra í Birkigrundinni. Í gegnum tíðina vörðum við líklega mestum tíma saman í garðinum í Birki- grundinni. Þar reyttum við illgresi, plöntuðum blómum, tíndum jarð- arber og tókum upp kartöflur, en afi sló grasið. Þessi garður virtist einhvern veginn, svipað og ég sjálfur, verða stærri og stærri með hverju árinu sem leið. Þó minnir mig að garðurinn hafi alltaf verið fallegasti garðurinn í götunni, allt fram að þeim degi sem amma og afi fluttu úr Birkigrundinni. Ég veit ekki hvernig hann lítur út í dag, enda óviðeigandi að vera að hnýsast inn í annarra manna garða. Það skiptir þó litlu máli því að garðurinn lifir góðu lífi í minning- unni um Unni Agnarsdóttur, kon- una góðu sem ræktaði hann. Óskar Örn Arnórsson. Ég man að þegar ég var lítil þá fannst mér amma Unnur svo fín frú. Hún var alltaf svo falleg og fín, með nýlagt hár og svo fallegt skart. Þegar ég kom í heimsókn til afa og ömmu í Birkigrundina fannst mér svo gaman að fara inn í her- bergið hennar ömmu og skoða skartgripina hennar með henni og fá að máta þá. Ætli ég hafi það ekki frá henni hversu gaman mér finnst að punta mig. Ég man að amma sat oft inni í eldhúsinu í Birkigrundinni og var að leggja kapal og oft spilaði hún við okkur krakkana þegar við kom- um í heimsókn og hún elskaði að dekra við okkur barnabörnin sín. Amma naut þess að ferðast og ferðaðist um allan heim með afa og keypti alltaf einhverja fallega minjagripi handa okkur. Hún átti líka stórt safn af litlum dúkkum sem hún keypti í hverju landi og raðaði upp inni í sjónvarpsher- bergi. Hún elskaði sólina og notaði hverja lausa stund í garðinum fal- lega í Birkigrundinni þar sem hún undi sér best hvort sem var í sól- baði eða að hlúa að plöntunum í garðinum sem var stoltið hennar. Hún var dugleg að virkja okkur Óskar í að hjálpa sér og afa við að raka grasið og að gera beðin fín en hún og afi voru þekkt fyrir fal- legan og vel hirtan garð þar sem mikið var ræktað. Amma Unnur var söngelsk og eftir að hún veiktist af Alzheim- ersjúkdómnum kunni hún samt enn lögin og textana sem hún hafði lært þegar hún var ung. Núna á síðustu mánuðunum fannst henni ekkert skemmtilegra en þegar við sungum eða spiluðum fyrir hana einhver lög sem hún þekkti. Þá birti yfir henni og hún virtist njóta stundarinnar. Nú hefur elskulega amma mín fengið frið og ég kveð hana þakklát fyrir allar góðu stundirnar. Ragnhildur Erna Arnórsdóttir. Fyrstu kynnin af Unni voru af móður unglingsstúlku sem var að taka flugið út í lífið. Okkur til happs lenti stúlkan í fjölskyldu okkar og hefur verið mágkona okk- ar og svilkona síðan. Gæfan vindur sér oft að okkur án þess að við höf- um nokkuð til hennar unnið og ein- mitt þannig hafa kynnin af Unni og hennar fjölskyldu verið til margra ára. Einkenni Unnar voru að setja ávallt aðra en sjálfa sig í öndvegi. Hún var ljúf og glöð kona og glæsileg á góðri stundu. Henni fylgdi góð nærvera og vildi hún öll- um gott. Myndir sem renna í gegn- um hugann eru af Unni með fal- legu barnabörnin sín, Unni að vinna í fallega garðinum sínum, Unni að bera umhyggju fyrir ætt- ingjunum og Unni með Óskari að njóta líðandi stundar. Margir urðu ríkari af kynnum sínum við Unni og í þeim hópi er svo sannarlega fjölskyldan okkar sem þakkar henni af alhug fyrir samfylgdina í gegnum árin. Innilegar samúðar- kveðjur til Óskars, Gunnhildar, Agnars, tengdabarna og barna- barna. Elín og Oddur. Fetaðu slóð regnbogans, slóð söngvanna, þar sem fegurðin býr. Út úr öllu þokumistri er leið eftir slóð regnbogans. (Úr söng Navajo-indíána.) Ég hefði svo gjarnan viljað vera með ykkur í dag – en hugurinn mun hvarfla til ykkar úr fjarlægð- inni og fylgja Unni eftir slóð regn- bogans, þangað sem fegurðin býr í eilífðinni. Ég hef þekkt Unni síðan ég man eftir mér. Hún kom með fjölskyldu sína í heimsókn til Akureyrar á hverju sumri á meðan Sigrún móð- ir hennar bjó þar og ég var barn og unglingur. Ég man eftir því hvað hún var alltaf glöð að sjá mig og faðmaði mig að sér þegar ég kom upp stigann í Helgamagra- stræti 5. Í minningunni er sólskin, fjölskylduboð, umræður um stang- veiðar hjá körlunum og um börn og buru hjá mömmu og Unni. Á meðan lékum við krakkarnir okkur úti eða við Gunnhildur löbbuðum í bæinn og litum inn í Amaró og Kaupfélagið. Þegar haustaði var stundum farið í berjamó, legið á milli þúfna, tínt af kappi og rætt um berjasprettu og hve margir lítrar komu í föturnar. Á unglingsárum var gaman að bregða sér til Reykjavíkur og í þeim ferðum átti ég vísan sama- stað í Stóragerðinu hjá Unni og Óskari. Alltaf byrjaði hún á því að spyrja hvernig öllum liði fyrir norðan. Hún fylgdist bæði með okkur systrunum og frændsystk- inum okkar og lagði sig fram um að halda tengslum við fjölskyldur okkar og uppruna sinn fyrir norð- an. Þegar ég hóf nám í Reykjavík eftir stúdentspróf hitti ég Unni jafnvel á hverjum degi, enda leigði ég hjá Sigrúnu móður hennar sem þá var flutt suður. Varla leið sá dagur að Unnur kæmi ekki við hjá gömlu konunni á leið heim úr vinnu. Oft sátum við saman við eld- húsborðið og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Unnur hafði gaman af fallegum fötum og skóm og ef eitthvað nýtt hafði verið keypt var mátað og dáðst að nýrri flík. Þegar Unnur og Óskar höfðu heimsótt fjarlæga staði sagði hún okkur frá því sem á dagana hafði drifið og alltaf var auðheyrt að hún hafði notið ferðarinnar og alls þess nýja sem hún sá og upplifði. Hún hugsaði líka alltaf um þá sem heima voru og kom færandi hendi til baka. Um helgar fórum við Sigrún oft í mat í Birkigrundina. Vorum fyrst sóttar og síðan keyrðar heim, saddar og sælar – oft eftir eitt sherrystaup eftir matinn. Þetta eru ljúfar minningar um góða, hlýja og glaða konu sem var alltaf tilbúin til að hlúa að fjöl- skyldu sinni og öðrum sem voru nálægt henni. Við nutum öll góðs af. Við þökkum samfylgd á lífsins leið þar lýsandi stjörnur skína og birtan himneska björt og heið hún boðar náðina sína en Alfaðir blessar hvert ævinnar skeið og að eilífu minningu þína. (Vigdís Einarsdóttir.) Kæri Óskar, Gunnhildur, Agnar og fjölskyldur. Innilegar samúðar- kveðjur til ykkar allra. Helga Hauksdóttir. Kær vinkona er fallin frá eftir erfið veikindi. Við viljum kveðja hana með þessum ljóðlínum eftir Davíð Stefánsson og þakka henni fyrir samfylgdina í meira en hálfa öld. Nú sefur jörðin sumargræn. Nú sér hún rætast hverja bæn og dregur andann djúpt og rótt um draumabláa júlínótt. Nú sefur allt svo vel og vært, sem var í dagsins stríði sært, og jafnvel blóm með brunasár þau brosa í svefni gegnum tár. Ástvinum hennar vottum við innilega samúð okkar. Vinkonurnar í saumaklúbbnum. Kær vinkona mín og samstarfs- maður er látin eftir erfið veikindi. Við Unnur kynntumst fyrir þrjá- tíu árum þegar við byrjuðum að vinna saman í fjárhirslum Seðla- banka Íslands. Mér er efst í huga þakklæti fyrir góða vináttu og við- kynningu sem auðgaði hverja sam- verustund. Sem samstarfsmaður Unnar í hart nær þrjátíu ár kynntist ég henni mjög vel, þar fór hógvær og skemmtileg kona með marga mannkosti, hún var dugleg, ósér- hlífin og traust. Á deildum þar sem ekki er um umferð utanaðkomandi að ræða, eins og þeirri deild sem við Unnur unnum saman á, mynd- ast oft sérstakt andrúmsloft. Ná- lægðin við annað starfsfólk er mik- il og hjá okkur var mjög oft glatt á hjalla, ekki síst fyrir kímnigáfu Unnar, og er smitandi hlátur henn- ar minnisstæður. Unnur lauk störfum í Seðlabank- anum 1. júní árið 2000, með sökn- uði en einnig gleði í brjósti yfir auknum tíma með fjölskyldu sinni. Fyrir þau ár sem við þekktumst og fyrir góða vináttu, langar mig að þakka Unni af heilum hug, og votta Óskari, Gunnhildi, Agnari og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Auður Gísladóttir. UNNUR AGNARSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.