Morgunblaðið - 30.07.2006, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 30.07.2006, Blaðsíða 10
10 SUNNUDAGUR 30. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ Þrátt fyrir að einn farþega tali um„smágutl“, „sumarbrælu“ og „kaldas-kít“, þá liggja tveir farþegar hálfir útfyrir borðstokkinn þegar siglt er fyr-ir Straumnes, Kögur og Hælavík- urbjarg. Inni eru farþegar hálfgulir í framan og reka margir nefið ofan í plastpoka þegar öldu- gangurinn í iðrunum verður of mikill. Kögur er nyrsti oddi landsins og það getur orðið afar straumþungt á þessari siglingaleið. Það heyrist vísa um borð: Komumst við í krappan sjó kaldaskít og sumarbrælu; göngufólkið grét og hló með glæra poka fulla af ælu. Um borð er fjórtán manna gönguhópur sem hafði ætlað sér að gista í Hælavík um nóttina en af því getur ekki orðið, því ekki er lending- arfært. Þess vegna eru farþegar ferjaðir í gúmmíbát í fjöruna við bæinn Höfn innst í Hornvík og hópurinn gerir út þaðan næstu daga. Á Höfn bjó síðast Sumarliði Betúelsson en bærinn fór í eyði árið 1946. Þarna er gott tjald- svæði, kamrar og neyðarskýli, auk þess sem landvörðurinn á Hornströndum hefur þarna að- setur yfir háannatímann á sumrin. Um borð er einnig þýskt par, maðurinn í grænum regnstakki og hefur tekið á sig sama lit í sjóganginum. Þau gista í Hornvík um nóttina í slagveðri og taka bátinn tilbaka morguninn eft- ir, dauðskelkuð eftir skamma dvöl í íslenskum óbyggðum. Enda eru Hornstrandir staður öfganna. Veðr- ið er gjörsamlega óútreiknanlegt, enda stóðust veðurspár aldrei þessa daga sem gönguhóp- urinn hélt til í Hornvík. Það gat verið glampa- sólskin og logn, en líka rigning eða snjókoma með hífandi roki og kulda. Náttúran skiptir um ham þegar illa viðrar og er þeim óblíð sem eru illa búnir. Það er við öllu að búast. Fyrir rúmum áratug vaknaði fólk við 25 sm jafnfallinn snjó yf- ir öllu um miðjan júlí. 1. dagur Fyrsta daginn er votviðrasamt og þoku- slæðingur. Dagurinn er því nýttur í göngu í átt að Hælavíkurbjargi, en ekki er jafn auðvelt að komast að því og Hornbjargi. En það er sama hvert gengið er í Hornvík; alls staðar verður fyrir stórbrotin náttúra. Á gönguleiðinni að Hælavíkurbjargi má meðal annars sjá tvo stórbrotna predikunarstóla út í hafið, Tröllakamb og Langakamb. Gengið er út á Hafnarnes og inn í Rekavík sem stendur undir nafni. Eftir að hafa þrætt trjádrumba yfir læk sem rennur um Rekavík liggja tröppur upp á hæð með leifum af húsi sem átti að rísa þar. Það fauk og eftir stendur nokkurs konar útsýn- ispallur. Þegar förinni er haldið áfram er þrætt ein- stigi inn í Hvannadal, sem ekki er fyrir loft- hrædda, að minnsta kosti ekki í lélegu skyggni og bleytu. Þó að fyglingurinn Arnór Stígsson segi kankvíslega að sú leið hafi aldrei þótt vara- söm, þá treysta sér ekki allir alla leið. Fyrir nokkrum árum varð belgískt par inn- lyksa í Hvannadal í ágúst, matarlaust í átta daga. Þau treystu sér ekki til baka, höfðu hrasað á leiðinni, og voru búin að skrifa kveðju á miða, sem fannst í tjaldinu. En þegar bátur sigldi inn Hornvíkina synti maðurinn út að bátnum og tókst bátverjum að bjarga honum um borð. 2. dagur Það hefur rofað til á öðrum degi og til- valið að nota tækifærið að ganga að Hornbjargi. Gönguleiðin er stórskemmtileg, vaðið yfir Hafn- arósinn, hægt að baða sig í fossinum Drífanda og ekki spillir fyrir að við stíginn er greni og yrðlingar á vappi. Það er mikið um refi á Horn- ströndum, einn heldur til á tjaldstæðinu í Horn- vík og er sérlega gæfur. Kveðjurnar eru vinalegar hjá fjölskyldunni á Horni, sem dvelur þar yfir sumartímann. Og þegar komið er efst í Hornbjargið leggst fólk niður, gægist fram af eins og það treystir sér til og gleymir sér alveg í fuglaiðunni. Því næst gengur hópurinn upp á Miðfell, sem er svo hvasst að sagt er að uppi á því megi hafa annan fótinn í Ystadal og hinn í Miðdal. Fátt ku vera fallegra en að horfa á sólina setjast frá Hornbjargi og fylgjast með henni koma upp frá Miðfelli. Það treysta sér allir í gönguna upp á Miðfell, sem er langt í frá eins háskaleg og hún lítur út fyrir að vera, og einnig upp á Kálfatinda í 534 m hæð, sem taka síðan við. Þar gefst stór- brotið útsýni yfir Hornvíkina, Hælavík- urbjargið og einnig firðina í suðaustur, allt þar til sést glitta í Drangaskörðin í Strandasýslunni. 3. dagur Þriðja daginn vaknar gönguhópurinn í beljandi slagveðri og er farið að flæða vatn inn í eitt tjaldið. Þrátt fyrir volkið er ákveðið að ganga að Hornbjargsvita, enda ókræsilegt að híma í kulda og bleytu í tjöldunum yfir daginn. Tveggja tíma ganga er yfir Kýrskarð að Horn- bjargsvita og notaleg tilhugsunin um heitt súkkulaði og með því á leiðarenda. Það hefur aukist vatnið í Hafnarósnum og er allur gangur á því hvernig menn vaða yfir, sumir eru ber- leggja, aðrir í laxapokum eða jafnvel stjörnu- poppspokum og strigaskóm. Efst í Kýrskarðinu gerir snjóhret. En útsýnið er ekki síður magn- Öfgar á Hornströndum Veðrið getur verið óútreiknanlegt, en vaskir göngumenn kippa sér ekki upp við það, enda er náttúrufegurðin gríðarleg hvert sem litið er. Það eru miklar öfgar í veðri og nátt- úru á Hornströndum og fólk þarf að vera undir allt búið. En það upp- sker ríkulega í ósnortinni og stór- brotinni náttúru. Pétur Blöndal gekk um Hornstrandir og talaði við fólk sem tengist sögu staðarins. Sterklegar hendur og sverir fingur ArnórsStígssonar kreista hendur blaðamannseins og klettanybbu í Hornbjargi á heim- ili Arnórs á Ísafirði. Arnór þekkir björgin á Hornströndum betur en flestir aðrir, enda fyglingur í áratugi. Hann er kominn yfir átt- rætt en engu að síður enn í fullu starfi sem tré- smiður og hefur nóg að gera. Arnór fæddist árið 1922 og bjó með for- eldrum sínum Stíg Haraldssyni og Jónu Jó- hannesdóttur á Horni í Hornvík til ársins 1946. „Það stóð ekki til að hætta búsetu á Horni en ég var búinn að ráða mig á Ísafjörð og for- eldrar mínir voru einir eftir. Þegar faðir minn veiktist og lagðist á sjúkrahús, þá vildi hann hætta búskap. Hann var orðinn fullorðinn maður og ekki heilsuhraustur.“ Alinn upp í torfbæ Arnór var alinn upp í torfbænum á Horni fram að fermingu. „Það var miklu betra en timburskálinn sem tók þá við,“ segir hann. „Í torfbænum kvörtuðum við aldrei undan kulda, en vorum að drepast í timburskálanum. Enda var ekki upphitun í hverju rými fyrsta vet- urinn eftir að við fluttum.“ Það bjuggu fjórar fjölskyldur í torfbænum, sem klæddur var með timbri. „Gamla bað- stofan var byggð af Stíg Stígssyni gamla og var átján álna löng. Henni var skipt í tvennt og þar bjuggu tvær fjölskyldur. Við bjuggum uppi í risinu og hin á jarðhæð. Þriðja fjölskyldan bjó í norðurálmunni sem sneri upp að hlíðinni og föðurbróðir minn bjó á dyraloftinu, rishæð yfir innganginum í bæinn.“ Búskapur var hefðbundinn á Horni, að sögn Arnórs, þó að fjárbúskapur hafi ekki verið mikill. „Það var ein kýr á mann, en sumir höfðu tvær fyrstu árin. Síðan var útræði; það var allt- af róið til fiskjar. Á sumrin var aflað heyja upp um allt, slegið fram á bjargbrún og allt nýtt sem hægt var og reitt heim á hestum.“ Hornbjarg var stór þáttur í afkomunni og mikil tekjulind. „Ísfirðingar keyptu megnið af því sem við fengum þaðan. Við byrjuðum upp úr miðjum maí, en nú hefur því seinkað mikið og minna orðið um fugl. Enda var þarna rán- yrkja eftir að við fluttum burt. Festarnar voru tvær og tvö gengi í bjarginu; menn hlupu þræðingana í kapphlaupi um að vera á undan. Fuglinn lagðist því eðlilega frá. Svo kom tófan og hún kemst mikið. Það er eins og hún læri af manninum, nema hún þarf ekki band.“ Arnór segir að menn sígi ekki í björg lengur, heldur klórist upp úr fjörunni. „Það þarf meiri mannskap til að síga. Ég byrjaði sem fyglingur [að síga í björgin] 14 ára og seig á hverju ári í áratug. Svo fór ég í egg fyrstu árin eftir að við fluttum, síðast árið 1960. Það var eðlilegt að ég legði þetta fyrir mig. Ég hafði verið hangandi fram af þegar ég var að smala og horft á fyglinga síga og var löngu búinn að gleyma allri lofthræðslu. Ég hafði alltaf ánægju af því að síga í bjargið. Það kom fullt af fólki til að vinna við sigið, mest frá Grunnavíkurhreppi og Sléttuhreppum. Þegar flest var í júní voru þetta 60 til 70 manns, en svo fór að draga úr því aftur.“ Arnór var nokkrum sinnum hætt kominn við bjargsig. „Einu sinni vorum við að síga til að snara fugl. Ég hallaði mér fram á bandið með fuglastöngina til að snara til hliðar við mig, þá missir maðurinn bandið sem hélt í það. Um leið og ég áttaði mig á því að bandið gaf eftir stökk ég fram af, náði fram fyrir bergnagga og féll tíu metra niður í fláanda, skriðu og aur, og gat stoppað mig þar.“ Hrunið var hættulegt En mesta hættan í bjargsiginu fólst í grjót- kastinu. „Oft féll grjót nálægt og maður gat forðað sér frá því. Það var daglegt brauð að félli steinn í þessu starfi. Það var mesta hætt- an. Mér fannst ekki hættulegt að ganga mjóa þræðinga, þá stjórnaði maður sjálfur hvað maður treysti sér. En hrunið var hættan. Það var ekki alltaf hægt að varast það.“ Arnór missti góðan vin í bjargsigi á Horni, Guðmund Óla Guðjónsson, en þeir unnu saman á verkstæði. „Við gátum ekki farið á sama tíma, því annar varð að vera á verkstæðinu, og hann fór á undan. Þetta var árið 1954. Hann var þrælvanur og góður fyglingur. En það féll skriða úr bjarginu og ekki varð við neitt ráðið.“ Og það hafa orðið fleiri banaslys. Það lést maður í Hælavíkurbjargi í lok sjöunda áratug- arins og var Arnór fenginn ásamt fleirum til að sækja líkið í björgin. „Hann hét Sigurður og var alvanur. Einu sinni fór hann úr hillu upp á brún lóðrétt handvað upp eftir kaðlinum eina hundrað metra. Ég var fenginn til að fara norður með þyrlu til að sækja líkið. Það voru kaðlar og festi, því þeir höfðu verið þarna við bjargsig. Eins og alltaf varð að hlaupa yfir gilin, því þar var alltaf grjótkast og enginn tími til að bera neitt. Síðan var strengdur vír milli nefja og líkið dregið, eins og við fluttum egg.“ Morgunblaðið/Pétur Blöndal Arnór Stígsson og Málfríður Halldórsdóttir við heimili sitt á Ísafirði. Oft féll grjót nálægt

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.