Morgunblaðið - 30.07.2006, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 30.07.2006, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 30. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ Það er notaleg stemmning á pallinum viðannað húsið á Horni þar sem afkom-endur Stígs Haraldssonar njóta veð- urblíðunnar. Andrea Harðardóttir býður blaðamanni upp á kaffi og með því, enda hef- ur margur ferðalangur sótt góðan viðgjörn- ing á Horn. „Við komum hingað minnst einu sinni á ári og teljum okkur heppin ef við komumst oftar,“ segir hún. „En fjölskyldan er orðin stór og húsið þéttsetið, þannig að það eru margir um hituna.“ Andrea segist ekki fara að Horni á vet- urna. „Þá er ekki siglt hingað á smábátum. En frændur mínir hafa stundum farið á vél- sleðum. Það hefur hins vegar ekki verið nógu mikill snjór undanfarin ár. Hornstrandir eru heldur ekki eins hlýlegar á veturna. Einu sinni gaf ég því undir fótinn að koma hingað á þeim árstíma. Þá hnussaði í móður minni og hún sagði: Þú myndir ekki vilja vera þarna að vetrarlagi! Enda hefur það ekki verið fyrir veiklundaða. Bæring Jónsson á Sæbóli í Aðalvík lýsti því að þegar víkina hefði lagt, þá hefði mönnum staðið stuggur af marrinu í ísnum í algjörri stillu.“ Með eldhúsriffla á ísbjarnarveiðum Og ógn stafaði ekki einungis af veðri og vindum. „Síðast var drepinn ísbjörn í fjörunni árið 1963,“ segir Andrea. „Stígur Stígsson, móðurbróðir minn, var með í þeirri för. Þetta voru ungir menn og veiðigleðin greip þá. Þeir voru á báti fyrir utan með eldhúsriffla, sem væru víst varla notaðir á ísbjarnarveiðum í dag. Þeir skutu allir fjórir á ísbjörninn og Kjartan Sigmundsson frá Hælavík átti bana- skotið. Síðan höfðu þeir heyrt að menn yrðu hraustir af því að éta ísbjarnarhjarta, svo þeir skáru það úr og suðu í potti hér í eldhús- inu. En sama hvað þeir suðu það, þá var það svo ólseigt að þeir gátu ekki étið það,“ segir hún, hlær og bætir við með væntumþykju í röddinni: „Þeir voru ungir þá.“ – Og myndu gera nákvæmlega það sama í dag! – Já, þeim væri trúandi til þess, svarar hún og hlær. Ímyndir byggða norðan djúps Andrea er kennari við grunnskólann á Ísa- firði og vinnur að rannsóknarverkefni um ímyndir byggða norðan djúps, sem er liður í samstarfsverkefni um Vestfirði á miðöldum, en að því koma meðal annars Fornleifa- stofnun, Hugvísindastofnun, Háskólasetur Vestfjarða og aðrar stofnanir á Vestfjörðum. „Ég er að rannsaka viðhorf til þessara ein- angruðu byggða, hvaða augum aðrir lands- menn litu þær frá landnámi og til aldamóta 1900. Þarna bjuggu galdramenn og fólk sem var í tengslum við ýmsar vættir, sem þótti ekki alltaf fylgja þeim hefðbundnu háttum og siðum og tíðkuðust annars staðar á landinu.“ Andrea er komin af Stíg Stígssyni á Horni, sem kallaður er Gamli Stígur til aðgreiningar frá öllum hinum Stígunum sem á eftir komu. Stígur flytur að Horni frá Sútarabúðum í Grunnavík 22 ára gamall og gerist ráðsmaður hjá ekkjunni Elínu Ebenesersdóttur, sem þar bjó. „Hún var ekkja eftir Einar Sigurðsson, sem kallaður var ríki, af því að hann átti langan vað og komst neðar í bjargið en aðr- ir,“ segir Andrea. „Það þýddi að vera ríkur,“ skýtur Gígja, systir Andreu, inn í. Flókin fjölskyldubönd „Elín var seinni kona Einars,“ heldur Andrea áfram. „En það vill svo undarlega til að við erum komin út af fyrri konu Einars og vinnukonu Stígs, Rebekku Hjálmarsdóttur. Elín er því ekki formóðir okkar. Stígur kvæntist þessari ekkju, sem var 23 árum eldri og hefði vel getað verið móðir hans. Líklega gerði hann það vegna þess að hann sá mikla möguleika á staðnum, var listasmið- ur og maður framkvæmda. Hlunnindin voru mikil, bjargið, rekinn og sjósóknin. Hann gerði meðal annars út hákarlaskip og byggði reisulegan burstabæ sem hýsti fjórar fjöl- skyldur um tíma.“ Stígur eignaðist engin börn með Elínu en þrjú með Rebekku vinnukonu. „Stígur og El- ín keyptu Hornsjörðina af Hrafnseyrarkirkju og bjuggu hér ásamt Rebekku,“ segir Andr- ea. „Þegar Rebekka varð ófrísk fer tvennum sögum af því hver blandaði sér í málið, hreppsyfirvöld eða fjölskylda hennar. Það varð úr að Rebekka fór héðan, en Elín lét sækja hana aftur og sagði enga manneskju þarfari á Horni en Rebekku.“ Haraldur, elsti sonur Rebekku og Stígs, var sá eini af börnum þeirra sem komst til fullorðinsára, að sögn Andreu. „Þau misstu dóttur úr taugaveiki og sonur þeirra fórst af slysförum um tvítugt. Haraldur gerðist bóndi á Horni og dó á svipuðum tíma og Stígur gamli um aldamótin 1900. Eiginkona Har- aldar hét Elín og var frá Dynjanda í Grunna- vík eins og Elín eiginkona Stígs, enda var pabbi hennar bróðursonur Elínar eldri.“ Andrea brosir til blaðamanns og bætir við: „Við segjum oft um lífið á Hornströndum að þar hafi verið mjög flókin fjölskyldutengsl en hvergi náin blóðtengsl.“ Haraldur og Elín eignuðust þrjá syni, Stíg, Frímann og Hilarius. „Þeir bjuggu hér í burstabænum Stígur og Frímann og bjó Frí- mann á dyraloftinu. Þegar mest var bjuggu þar fjórar fjölskyldur. Þegar Haraldur lést giftist Elín ekkja hans Guðmundi, sem var bjargsigsmaður, og hann varð þá fóstri Stígs afa míns. Þegar Elín féll frá fékk hann hlut í jörðinni. Hann giftist aftur og stofnaði fjöl- skyldu. Auk þess bjó í húsinu Kristinn Grímsson, sem var afkomandi Elíasar, sonar Einars ríka og Elínar. Þessar fjórar fjöl- skyldur byggðu sér síðan hús á Horni, þannig að hér stóðu fjögur hús síðustu árin. Afi flutti síðast úr burstabænum í lok fjórða áratug- arins. Og hann var líka síðastur til að flytja frá Horni, en það var í september árið 1946. Þá veiktist hann og treysti sér ekki til að búa þar lengur. Frímann varð vitavörður í Látra- vík og lést þar.“ Hér liggja ræturnar Þetta er fallegur dagur á Horni, heiðskírt og niðri í fjörunni eru krakkarnir að safna rekavið í brennu. Rétt fyrir ofan bæinn er greni með yrðlingum, en systurnar Andrea og Gígja segja að refurinn hafi orðið styggari síðustu árin. „Sumum finnst refnum hafa fækkað, jafnvel of mikið,“ segir Gígja. „Aðrir segja of mikið um ref, ágangur hans í bjarg- inu sé of mikill og að þess vegna hafi fugli fækkað. Þannig að það takast á andstæð sjónarmið, hvort náttúran eigi að hafa sinn gang eða hvort refurinn eigi alltaf að vera réttdræpur.“ Þó að það hafi verið harðbýlt og ekkert gósenlíf að búa á Horni, þá hafa systurnar eftir Sigrúnu Stígsdóttur móður sinni, sem lést árið 1994, að það hafi verið hægt að kom- ast vel af ef fólk hafi verið tilbúið að leggja hart að sér. „Hér var fólk ekki svangt,“ segir Gígja. „Við veiddum okkur til dæmis fugl til matar í gær. Snöruðum langvíu með þriggja til fjögurra metra bambusstöng.“ Og þær bera taugar til staðarins – finna til skyldleikans. „Já, við finnum þetta sterkt,“ segir Andrea. „Við kæmum ekki hingað á hverju ári nema eitthvað togaði í mann, að þramma sömu slóðina aftur og aftur, ár eftir ár. Það er svo gott að eiga bakland, sögu og tilheyra einhverju. Hér liggja ræturnar, upp- hafið að okkur. Héðan er fólkið okkar og hér erum við.“ Hér var fólk ekki svangt Krakkarnir Ingibjörg Pétursdóttir og Gylfi Karl Heiðarsson voru að safna í brennu í fjörunni. Gígja Harðardóttir segir ferðamönnum frá sögu fjölskyldunnar að Horni. Konurnar að Horni. Andrea Harðardóttir, Hildur Gylfadóttir og Gígja Harðardóttir. Morgunblaðið/Pétur Blöndal Horft heim að bænum Horni, þar sem mörgum afkomendum Stígs Haraldssonar finnst gott að dvelja á sumrin. Stígur Stígsson á Horni var kallaður Gamli Stígur til aðgreiningar frá öllum hinum Stígunum sem á eftir komu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.