Morgunblaðið - 16.03.2007, Page 12
12 FÖSTUDAGUR 16. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
STARFSFÓLK vantar í 35 stöðu-
gildi hjá leikskólum í Reykjavík,
samkvæmt könnun sem gerð var 1.
mars sl. fyrir leikskólaráð. Þar af
er óráðið í rúm 30 stöðugildi leik-
skólakennara. Hjá leikskólum í
Reykjavík eru um 1.800 stöðugildi.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir,
formaður leikskólaráðs, sagði
skort á leikskólakennurum í störf
vissulega áhyggjuefni en faghópur
ynni nú að aðgerðum í bráð og
lengd til að fjölga fagfólki í leik-
skólunum. Hún sagði fagfólk nú
vera 35–40% starfsfólks í leik-
skólum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það vantar fagmenntaða kennara
á markaðinn,“ sagði Þorbjörg
Helga. „Það þarf að vinna að því í
samvinnu við ríkið og Kennarahá-
skóla Íslands og það erum við að
gera.“
Nú eru 48 leikskólar af 78 full-
mannaðir, en þegar staðan í ráðn-
ingarmálum var könnuð 1. febrúar
sl. voru 50 leikskólar fullmannaðir.
Best er staðan í leikskólum í
Árbæ, Grafarholti og Vesturbæ, en
í Laugardal og Háaleitishverfi er
óráðið í 11 stöðugildi.
Á sama tíma í fyrra var óráðið í
um 17 stöðugildi hjá leikskólunum.
Morgunblaðið/Júlíus
Skólastarf Leikskólabörn í lögreglufylgd við upphaf vetrarhátíðar.
Enn er nokkur skortur á
leikskólakennurum í borginni
RANNSÓKNAMIÐSTÖÐ um sam-
félags- og efnahagsmál hefur gefið
út ritgerðasafnið Þjóðareign – þýð-
ing og áhrif stjórnarskrárákvæðis
um þjóðareign á auðlindum sjávar.
Höfundar eru fimm, þau Davíð Þor-
láksson, Guðrún Gauksdóttir, Ragn-
ar Árnason, Sigurður Líndal og Sig-
urgeir Brynjar Kristgeirsson.
Í ritgerðasafninu er leitazt við að
svara spurningum um eignarrétt-
arlega stöðu auðlinda sjávar. Enn-
fremur er fjallað um tillögur sem
fram hafa komið um slíkt stjórn-
arskrárákvæði og áhrif þeirra á rétt-
arframkvæmd og atvinnu- og efna-
hagslíf. Spurt er hvort aflaheimildir
séu eign í skilningi stjórnarskrár-
innar og njóti verndar hennar eins
og aðrar eignir landsmanna. Varpað
er ljósi á mikilvægi eignarréttarins
og hvaða áhrif skerðing á eign-
arrétti hefur á efnahagslega hag-
sæld. Loks er staða íslenzkra sjávar-
útvegsfyrirtækja metin og hvort
ákvæði um þjóðareign á auðlindum
sjávar leiði til verri rekstrarskilyrða
og afkomu fyrirtækjanna.
Morgunblaðið/G.Rúnar
Bækur Þrír af höfundum ritsins,
Sigurgeir B. Kristgeirsson, Ragnar
Árnason og Sigurður Líndal.
Safn ritgerða
um þjóðareign
RÁÐSTEFNA um þátttöku og móttöku innflytjenda í
dreifbýli verður haldin í Hömrum á Ísafirði dagana 26.–
28. mars nk. Fjölmenningarsetrið og Háskólasetur Vest-
fjarða efna til ráðstefnunnar þar sem margir helstu
fræðimenn í málefnum innflytjenda og byggðaþróunar
flytja erindi og velta ýmsum flötum upp.
Meðal þeirra sem flytja erindi eru breski sendiherr-
ann, Alp Mehmet, og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs-
ráðherra. Philomena de Lima greinir frá stöðu far-
andverkafólks í dreifbýli á Bretlandi. David Bruce mun
kynna verkefni í Kanada þar sem markvisst var unnið að
því að laða innflytjendur til þeirra sveitarfélaga þar sem
fólksfækkun var mikil. Norska fræðakonan Marit Anne Aure segir frá
rannsókn sinni á aðstæðum farandverkafólks í norðurhluta Noregs. Á vef
Háskólaseturs Vestfjarða, http://www.hsvest.is, má fá nánari upplýsingar
um erindin.
Innflytjendur í dreifbýli
Frá Neðsta-
kaupstað á Ísafirði.
RAGNAR Ómarsson landsliðs-
kokkur er lagður af stað til Jóhann-
esborgar í Suður-Afríku. Þar mun
Ragnar taka þátt í þekktri mat-
reiðslukeppni sem heitir One
World. Keppnin hefst í dag, föstu-
dag. Tveir matreiðslunemar fóru
með utan, Ragnari til aðstoðar.
Utan til keppni
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir,
formaður Samfylkingarinnar, verð-
ur heiðursgestur á landsfundi
sænska jafnaðarflokksins sem hald-
inn verður í Stokkhólmi á laug-
ardag.
Þar verður lýst kjöri Monu Sa-
hlin í embætti formanns flokksins,
en hún tekur við af Göran Persson,
fyrrum forsætisráðherra. Kjör
Monu markar söguleg tímamót, því
þar með eru konur í fyrsta sinn í
meirihluta formanna norrænu jafn-
aðarflokkanna.
Heiðursgestur
á landsfundi
í Svíþjóð
VEGNA inflúensu
verður Magnús Stef-
ánsson félagsmála-
ráðherra í veik-
indaleyfi fram í
næstu viku. Læknar
hafa ráðlagt félags-
málaráðherra að
taka sér hvíld uns
honum er batnað af inflúensunni en
talið er að samspil hennar og lang-
varandi álags hafi komið niður á
heilsu ráðherra. Líðan hans er að
öðru leyti góð, segir í frétt frá ráðu-
neytinu.
Flensa og álag
Magnús
Stefánsson
MJAÐARGERÐ og víngerð úr ís-
lenskum berjum hefur lengi verið
áhugamál Hannesar Lárussonar
myndlistarmanns. Á yngri árum
gróf hann upp heimildir um bruggun
mjaðar að hætti fornmanna og þreif-
aði sig áfram þar til hann var sáttur
við mjöðinn. Síðan eru um þrír ára-
tugir og hefur hann gert vín úr ís-
lenskum berjum og jurtum og mjöð
á nær hverju ári til eigin nota.
„Ég byrjaði á þessu í mennta-
skóla. Upphafið var að ég hafði
áhuga á að búa til mjöð, sem lík-
astan þeim sem drukkinn var hér á
miðöldum,“ sagði Hannes. „Ég gerði
ýmsar tilraunir með bragð og styrk-
leika. Best er að hafa mjöðinn í
kringum 7%. Ég prófaði alls konar
hunang og jurtir og komst að því að
best er að nota lífrænt hunang og
mjaðjurtina til bragðbætis.“
Hannes sagði mjöðinn bestan
tveggja til þriggja mánaða gamlan.
Þá sé komið æskilegt jafnvægi milli
bragðs mjaðjurtarinnar og hunangs-
ins. Hann segir allt önnur og mýkri
áhrif af miði en bæði víni og bjór.
„Mjöður fer vel í fólk, það verður ró-
legt og ákveðin höfgi sem kemur yf-
ir menn við mjaðardrykkju. Ef mað-
ur drekkur eitthvað að ráði finnur
maður minna fyrir eftirköstum, eða
timburmönnum, en af öðru áfengi.“
Bragðgóð berjavín
Hannes gerir vín á hverju ári úr
íslenskum krækiberjum og bláberj-
um, einnig hefur hann gert vín úr
sólberjum, rifsberjum, blómum tún-
fífla og mjaðjurt. Hann fer til berja
á hverju hausti ásamt Kristínu
Magnúsdóttur konu sinni að afla
hráefnis til víngerðarinnar. Hannes
segir fjarri því að víngerðin krefjist
mikils nosturs.
„Maður er kominn með ákveðnar
aðferðir við þetta, mjög fljótlegar.
Ég þvæ t.d. ekki berin og tíni ekkert
úr þeim heldur hef lauf og kvisti
bara með. Set þetta allt í blandara
og hakka áður en ég set það í kútinn.
Ég hugsa að það taki ekki nema
hálftíma til klukkutíma að leggja í
25 lítra kút. Aðalvinnan er að hella á
flöskurnar. Yfirleitt losa ég vínkút-
ana á haustin og helli þá á flöskur og
set nýja lögun á kútana. Þetta er
eins og að búa til sultu eða saft, rút-
ína sem maður hugsar lítið um.“
Hannes notar aldrei uppskriftir
og segir framleiðsluna verða mis-
munandi frá ári til árs. Berjamagnið
getur verið mismikið í hverri lögun
og stundum fljóta með rúsínur, aprí-
kósur og jafnvel þrúgusafi sem fylli-
efni. Bláberjavínið vill verða sætt og
þungt, hálfgert desertvín. Kræki-
berjavínið verður ferskt og gott
borðvín, mjög gott með lambakjöti
og jafnvel fiski. „Maður tekur þetta
fram yfir annað vín og yfirleitt
drekkur maður lítið annað vín en
þetta. Yfirleitt þykir mér heima-
gerða vínið betra en annað vín og
örugglega betra en öll ódýrari vín,
það er ekki spurning. Þetta er gæða-
vara á sinn hátt.“
Hannes safnar flöskum héðan og
þaðan til að hafa undir vínið. Hann
segist ekki leggja mikið upp úr
miðagerð en merkja gjarnan flösk-
urnar með litum eftir víngerð og
skrifar þá stundum ártalið. Stund-
um kemur fyrir að merkingarnar
ruglist, en það gerir lítið til. Það er
helst ef gefa á flösku að Hannes gef-
ur sér tíma til að nostra við mið-
agerð.
Alþingi hefur nú til meðferðar
frumvarp þess efnis að leyfa beri
gerð áfengra drykkja, með minna en
15% áfengismagni, til einkanota.
Hannes telur að víngerð til eigin
neyslu hafi lengi verið stunduð hér á
landi. En er grundvöllur fyrir skipu-
legri framleiðslu mjaðar og ís-
lenskra berjavína?
„Ef vandað er til verka þá er
ábyggilega markaður fyrir þetta,“
sagði Hannes. „Ég er viss um að það
mætti þróa vandaðan drykk úr
mjaðjurt, t.d. mjöð eða jafnvel
snafsa eða líkjöra. Það þarf bara að
vanda sig við þetta og gæta smekk-
vísi, en ekki ryðja einhverju drasli á
markaðinn.“
Eigin vín og mjöður
Hannes Lárusson myndlistarmaður gerir mjöð úr mjaðjurt
að fornmannasið og bruggar vín úr íslenskum berjum
Morgunblaðið/Sverrir
Kjörið í vínið Hannes segir íslensk ber og jurtir henta vel til vín- og mjað-
argerðar. Hann notar aðeins gæðahráefni og afurðirnar verða eftir því.
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
„GJÖLDIN á okkur sem rekstrar-
aðila á kerfinu hafa tífaldast, þetta
voru 50.000 krónur en verða 500.000
krónur,“ segir Benedikt Magnússon,
formaður ferðaklúbbsins 4x4, um
gjaldskrárbreytingu á notkun tal-
stöðva sem gekk í gildi um áramótin.
„Við greiðum ákveðna fjárhæð fyrir
beinu rásirnar, beint á milli manna í
talstöð, og svo greiðum við ákveðna
fjárhæð fyrir þær tíðnir sem eru
kallaðar í gegnum endurvarpa.“
Á sjötta þúsund manns eru í
klúbbnum og útilokar Benedikt ekki
að endurvarpskerfinu verði lokað.
„Fyrir beinu rásirnar minnir mig
að þetta hafi verið 50.000 til 60.000
krónur sem við greiddum en fyrir
endurvarpana […] 120.000 kr. Við
höfum haldið úti þessu endurvarpa-
kerfi á landinu og náð með því til
langstærsts hluta hálendisins, þann-
ig að allir sem hafa talstöð í bílnum
hafa getað kallað í gegnum endur-
varpa um langar vegalengdir og náð
sambandi við aðra.
Kostnaðurinn við þetta kerfi er
um ein og hálf milljón á ári, bara við
að halda því gangandi, svo bætist
núna við hálf milljón. Við fengum í
fyrra í fyrsta skipti styrk frá sam-
gönguráðuneytinu upp á 800.000 kr.
til að halda þessu gangandi. Við sótt-
um um hann aftur en ég veit ekki
hvort hann fæst. Að halda úti kerfi,
eina kerfinu á hálendinu sem nær til
alls landsins, og borga fyrir það tvær
milljónir, jafnvel tvær og hálfa, það
er bara of mikið fyrir áhugamanna-
félag, eins og ferðaklúbbinn 4x4.“
Átti fund með forstjóranum
Alls rekur klúbburinn 16 endur-
varpa á hálendinu og þarf á hverju
ári að sinna viðhaldi, s.s. brotnum
loftnetum. Spurður um þau ummæli
Hrafnkels V. Gíslasonar, forstjóra
Póst- og fjarskiptastofnunar, að
gjaldskrárbreytingin fæli í sumum
tilvikum í sér verðlækkun sagðist
Benedikt hafa átt fund með honum
fyrir tveimur mánuðum. Þar hafi
hann tjáð honum að þau hjá klúbbn-
um „hefðu í sjálfu sér fáa valkosti
aðra“ en að draga úr sínum umsvif-
um og „hreinlega loka þessu kerfi“.
Hann segir meðlimi klúbbsins
hafa greitt 2.200 króna árgjald sem
hafi verið fellt niður um áramótin.
„Í staðinn taka þeir upp þessi
tíðnigjöld og senda reikninginn á 4x4
klúbbinn sem er handhafi tíðnanna
sem eru á okkar beinu rásum og end-
urvörpum.“
Af þessum sökum vill Benedikt
láta kanna hvort jeppamenn geti
fengið aðgang að tetra-kerfi björg-
unarsveitanna, nauðsyn krefji ef
endurvarpskerfinu verði lokað. Þá sé
NMT-kerfið að gefa sig, sem sé
slæmt fyrir öryggi fjallamanna.
Talstöðvagjöldin fyrir
4x4 klúbbinn tífaldast
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á fjöllum Jeppamenn telja brýnt að
samband utan alfaraleiðar sé gott.
Formaðurinn vill fá
aðgang að tetra-kerfi
björgunarsveitanna