Morgunblaðið - 17.03.2007, Blaðsíða 50
„ÉG leik strák sem var einn af þeim strákum
sem lentu í Breiðavíkurmálinu,“ segir Baltasar
Breki um nýja kvikmynd, Veðramót, sem
Guðný Halldórsdóttir leikstýrir. Baltasar er í
fjórða bekk í MR og fer nú öðru sinni með aðal-
hlutverkið í leiksýningu Herranætur, leik-
félags MR. „Þetta er mjög einfaldur sveita-
strákur, munaðarlaus og umkomulaus. Hann
var eitthvað að brjótast inn og var því sendur í
Breiðavík.“
„Ég leik strák sem heitir Otti,“ útskýrir
Arnmundur. „Hann er fatlaður, er með spelku
á öðrum fæti og er svona staurfótur. Hann
lendir ekki í manninum sem beitti strákana of-
beldi, hann kom inn eftir það. En hann er veik-
burða strákur og ég hafði áhyggjur af því að ég
yrði ekki nógu sannfærandi sem fatlaður
strákur. Þetta er allt byggt á strákum sem
voru þarna og einn var með svona spelku. Ég
er reyndar byggður á tveimur strákum, hinn
var svona hljóðlátur, veikburða og fölur – það
kom síðar í ljós að hann var með dúndrandi
njálg greyið.“
Foreldrarnir fyrirmynd
Það hefur þótt loða við lærða leikara að börn
þeirra feti í fótspor foreldranna. Mýmörg
dæmi eru um slíkt; Unnur Ösp, Ólafur Egils,
Helga Braga og Steinunn Ólína svo fáeinir
toppleikarar séu nefndir, og þeir Baltasar
Breki og Arnmundur ganga stoltir inn í þann
félagsskap. Arnmundur er sonur Eddu Heið-
rúnar Backman, leikkonu og leikstjóra, og
Björns Inga Hilmarssonar leikara.
„Alveg tvímælalaust,“ segir hann án þess að
hugsa sig tvisvar um, spurður hvort hann taki
foreldra sína sér til fyrirmyndar. „Ég reyni að
fylgjast svolítið með þeim, og svo er líka alltaf
verið að segja við mig að ég sé alveg fáránlega
líkur þeim báðum. En ég er mjög stoltur af for-
eldrum mínum, þau eru baráttufólk, pabbi er
búinn að berjast mikið fyrir bættum launum
leikara og hefur einnig verið í V-deginum. Og
svo er mamma náttúrlega að glíma við þennan
sjúkdóm en er samt að leikstýra ennþá.“
Og Baltasar Breki, sonur Baltasars Kor-
máks leikara og leikstjóra og Ástrósar Gunn-
arsdóttur dansara, segist vissulega vera að feta
í fótspor föður síns þótt hann vilji líka fara sín-
ar eigin leiðir, eins og aðrir ungir menn á hans
aldri. „Auðvitað er hann fyrirmynd að mörgu
leyti, og að mörgu leyti er það líka hvatning
fyrir mig hversu langt hann hefur náð. En ég
er ekkert að bera mig saman við hann eða hans
gjörðir og verk. Það fer frekar mikið í taug-
arnar á mér þegar fólk er að bera okkur saman
því við erum auðvitað hvor sinn maðurinn, hvor
með sína eiginleika, þótt við séum blóðskyldir.
En auðvitað er ég undir miklum áhrifum frá
honum, hann er jú pabbi minn.“
En hefur ykkur alltaf langað til að verða
leikarar?
„Nei ekki alltaf,“ svarar Baltasar. „Ég er
heldur ekki búinn að ákveða það ennþá, þótt
allt stefni í þá áttina núna.“
„Það hefur alltaf komið og farið hjá mér. Ég
byrjaði mjög ungur í þessu og þetta er eig-
inlega búin að vera mín vinna með skóla frá sex
ára aldri. En ég er mjög ánægður með hvað
skólinn hefur tekið vel í þetta. Okkur Breka
var til dæmis gefin undanþága frá mætingum á
meðan við vorum í myndinni. Það er frábært ef
skólar eru farnir að taka meira tillit til ungra
listamanna.“
Svart og hvítt
Þeir Baltasar og Arnmundur kynntust í
Hagaskóla í Vesturbænum og þrátt fyrir að
þeir hafi ekki verið „neitt frábærir vinir“, eins
og Baltasar Breki orðar það, tengdust þeir
miklum vináttuböndum í gegnum leiklistina.
„Hann er fyndin týpa,“ segir Arnmundur um
vin sinn. „Hann er furðulega líkur pabba sín-
um, dálítið kærulaus en annars alveg frábær
gæi. Ég er einmitt rosalega ánægður með að
hafa verið með honum í þessari bíómynd, við
áttum mörg gullin augnablik saman. Það er
mikið talent þarna á ferð, hann er rosalega
flottur.“
Baltasar launar vini sínum greiðann og þá
verður ljóst að þeir vega hvor annan upp þar
sem á vantar:
„Arnmundur er maður mikillar reglu. Hann
er sparsamur og skynsamur strákur. Hann er
líka mjög góður leikari og skemmtilegur í alla
staði. En hann er samt óttalegur nöldrari.“
En hafið þið einhvern tíma fyrir skólann?
„Já og nei. En mér hefur gengið ágætlega og
ég hef ekki fallið í neinu,“ segir hinn reglusami
Arnmundur. „Fjölbrautakerfið er svo þægi-
legt.“
Og svipuð svör er að hafa upp úr Baltasar
Breka: „Ég er búinn að vera að reyna að koma
skólanum að. Þetta var svolítið tæpt á meðan
myndin var í gangi en það bjargast allt. Þau
voru voða almennileg í MR, gáfu leyfi og svona
þótt ótrúlegt sé fyrir þennan skóla mikilla
hefða.“
En fá ungir leikarar meiri athygli frá hinu
kyninu en aðrir?
„Ég veit ekki, jú kannski,“ svarar Arnmund-
ur fyrst. „Það er náttúrlega gaman að geta ját-
að þegar fólk spyr „varst þetta ekki þú þarna
í …“ en ég er svo mikill vitleysingur í þessum
málum. Ég hef ekki átt kærustu heillengi og á
ekki í dag, og ég veit ekki hvort ég stefni að því
eða hvort það er eitthvað fyrir mig.“
Baltasar Breki segir þessa athygli af skorn-
um skammti. „Það er þá aðallega frá ein-
hverjum busastelpum. Það hefur verið eitthvað
smá þótt maður sé ekkert að láta það stíga sér
til höfuðs, það væri tóm vitleysa. Maður veit
náttúrlega ekkert hvernig þetta er, en eru það
ekki tónlistarmennirnir sem fá allar stelp-
urnar?“ segir Baltasar, sem er einnig laus og
liðugur en stundar vel að merkja gítarnám.
Vér morðingjar
Aftur að verkefnum framtíðarinnar og nýju
myndinni sem verður frumsýnd í sumar. Báðir
segja þeir að það hafi verið stórskemmtilegt að
leika þarna fyrir vestan. „Það er svo fallegt
þarna,“ útskýrir Arnmundur. „Myndin var tek-
in í kringum Arnarstapa þar sem við vorum
með gistiaðstöðu,“ og Baltasar Breki heldur
áfram: „Já, þetta var mjög skemmtilegt, það
var svo skemmtilegt fólk sem vann að þessu.
Þetta var líka mikil reynsla því ég hef aldrei
leikið svona stórt hlutverk í bíómynd áður.“ En
þar hættir hvorki samvinnan né samanburð-
urinn því að í sumar munu þeir félagar leika
saman í leikritinu Vér morðingjar eftir Guð-
mund Kamban sem leikfélagið Jelena setur
upp í Borgarleikhúsinu. Þungt stofudrama frá
öðrum áratug síðustu aldar sem ætlunin er að
yngja upp.
En sjá þeir félagar sig sem atvinnuleikara
eftir tíu ár?
„Já, sem leikara og kannski eitthvað annað
líka,“ svarar Arnmundur.
„Ég veit það ekki,“ svarar efasemdamað-
urinn Baltasar Breki. „Ég vona bara að ég
verði ekki fastur í einhverju hér heima. Mig
langar að fara eitthvað út, á einhvern annan
markað, hvort sem það verður í bíómyndum
eða leikhúsi.“
ÞRÁTT FYRIR AÐ ÞEIR SÉU AÐEINS 17 ÁRA GAMLIR LEIKUR ENGINN
VAFI Á ÞVÍ AÐ ÞEIR ARNMUNDUR ERNST BJÖRNSSON OG BALTASAR
BREKI BALTASARSSON ERU EINHVERJIR EFNILEGUSTU LEIKARAR
LANDSINS. Á STUTTUM FERLI HAFA ÞEIR LEIKIÐ FJÖLMÖRG HLUT-
VERK, ERU NÝBÚNIR AÐ LEIKA Í KVIKMYND OG MUNU SVO LEIKA
SAMAN Í BORGARLEIKHÚSINU Í SUMAR. ÞEIR ERU SYNIR ÞEKKTRA
LEIKARA OG AÐ AUKI GÓÐIR VINIR. JÓHANN BJARNI KOLBEINSSON
RÆDDI VIÐ ÞESSAR FRAMTÍÐARSTJÖRNUR ÍSLANDS.
Morgunblaðið/Sverrir
»Hann er sparsamur ogskynsamur strákur.
Hann er líka mjög góður
leikari og skemmtilegur í
alla staði. En hann er samt
óttalegur nöldrari.
ARNMUNDUR ERNST
BALTASAR BREKI
»Hann er furðulegalíkur pabba sínum,
dálítið kærulaus en ann-
ars alveg frábær gæi.
jbk@mbl.is
BALTASAR BREKI UM ARNMUND
ARNMUNDUR UM BALTASAR BREKA
Við leikum klassíska
tónlist en þeir rokk. En
þetta fer furðu vel saman … 56
»
reykjavíkreykjavík