Morgunblaðið - 09.08.2007, Qupperneq 31

Morgunblaðið - 09.08.2007, Qupperneq 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. ÁGÚST 2007 31 ✝ Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð, vináttu og hlýhug við andlát og útför ástkærrar móður, tengdamóður, ömmu, langömmu og langalangömmu, SIGRÍÐAR ÁLFSDÓTTUR. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki Sunnuhlíðar fyrir einstaka umhyggju og hlýtt viðmót. Fyrir hönd aðstandenda, Eygló Jónasdóttir, Kristján Gunnarsson, Álfheiður Jónasdóttir, Absalon Poulsen, Guðmundur Jónasson, Magnús Jónasson, Rannveig Einarsdóttir. ✝ Hjartans þakkir til allra þeirra er sýndu stuðning og vinarþel við andlát okkar ástkæru, ÁSTU EINARSDÓTTUR, Vogatungu 111, Kópavogi. Sérstakar þakkir sendum við starfsfólki í Víðinesi og til annarra er önnuðust hana. Jarðarför hefur farið fram. Ágústa Guðmundsdóttir, Ólafur Gunnarsson Egill Guðmundsson, Böðvar Guðmundsson, Hólmfríður Zophoníasdóttir, Einar Guðmundsson Björg Anna Björgvinsdóttir og fjölskyldur, Ólafur Gunnarsson. ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, EINAR JÓNSSON fyrrv. verslunarmaður, Njálsgötu, Reykjavík, andaðist á líknardeild Landspítalans í Landakoti aðfaranótt sunnudagsins 5. ágúst. Útförin fer fram í Fossvogskapellu, föstudaginn 10. ágúst kl 13:00. Börn, tengdabörn og barnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, lang- amma og langalangamma, RAGNHEIÐUR GUÐBRANDSDÓTTIR GUÐJOHNSEN, áður til heimilis í Hvassaleiti 58, Reykjavík, verður jarðsungin frá Dómkirkjunni, föstudaginn 10. ágúst kl. 13.00. Stefán Guðjohnsen, Árný J. Guðjohnsen, Eiður Guðjohnsen, Arnrún Sigfúsdóttir, Guðbrandur Þór Guðjohnsen, barnabörnin og fjölskyldur þeirra. Fallegir legsteinar á góðu verði Englasteinar Helluhrauni 10 Sími 565 2566 - www.englasteinar.is Sendum myndalista Af því að amma bjó á Hornafirði hitti ég hana ekki alveg jafn mikið og ég hefði kosið. Ég reyndi samt að heimsækja hana einu sinni á ári og var það alltaf jafn gaman. Eftir að veikindin byrjuðu var hún meira og meira hjá okkur og er ég afskaplega þakklát fyrir þann aukna samveru- tíma sem ég fékk með henni síðasta árið. Ég á endalausan stafla af yndisleg- um minningum til að velja úr þegar ég hugsa um ömmu mína, minningar sem gera það auðveldara að kveðja hana í síðasta skipti. Tschüs, amma. Heiða. Amma Margot og ég vorum alltaf góðar vinkonur. Þegar ég fæddist hætti amma að vinna svo það væri einhver til að passa mig þegar mamma og pabbi voru að vinna. Amma kom til okkar á Hrísbrautina og var hér alla daga. Hún bjó til margar dúkkur og tuskudýr handa mér og prjónaði og heklaði alls konar föt fyrir mig og dúkkurnar mínar. Þegar ég stækkaði gerðum við margt saman. Við föndruðum, hún las með mér bækur, sagði mér sögur og kenndi mér vísur bæði á íslensku og þýsku. Hún talaði stundum við mig þýsku, til dæmis þegar við vorum að spila á spil. Ég fékk oft að gista hjá ömmu inni í Borgum og það var alltaf gott og gaman. Oft breiddi ég teppi yfir hana þegar hún sofnaði í sófanum í stof- unni. Stundum hjálpaði ég henni að búa til kaffi og taka til í eldhúsinu. Skemmtilegast fannst mér þó þegar amma leyfði mér að sitja með sér þegar hún var að mála. Stundum fékk ég að búa til myndir og mála þær með silkilitunum hennar. Þegar ég byrjaði í skóla fór ég oft til ömmu í Ekruna. Ég lærði hjá henni og hún hlustaði á mig spila á flautuna. Hún sagði mér hvort tón- arnir væru góðir eða ekki. Í haust ætla ég að fara að læra á þverflautu og amma ætlaði að hjálpa mér með nóturnar. Nú verður hún bara að fylgjast með mér af himninum og ég verð að reyna að vanda mig. En ég veit að nú líður ömmu vel og hefur loksins hitt afa Skírni aftur. Hafdís Lára. Við vorum á leiðinni á slóðir ís- lenskra landnema í Vesturheimi þeg- ar okkur barst fregnin um andlát okkar kæru Margotar Gamm. Það má eiginlega segja að Margot hafi verið landnemi heima á Horna- firði þegar hún kom þangað 17 ára gömul til að leita skjóls fyrir þeim miklu hörmungum sem landið henn- ar hafði orðið fyrir í heimsstyrjöld- inni síðari. Hún var komin til þess- arar afskekktu eyju og ákvað að hér skyldi hún eiga sitt framtíðarland og hún lagði sig fram um að verða góður Íslendingur. Fljótlega eftir komuna hingað kynntist hún Skírni Hákonar- syni sem bjó á föðurleifð sinni, í Borg- um í Nesjum, ásamt systrum sínum. Þau Margot og Skírnir giftu sig og eignuðust 5 mannvænleg börn, sem ólust upp við ástríki í Borgum. Mar- got féll vel inn í það gestrisna and- rúmsloft sem var á Borgarheimilinu og þar bar oft gesti að garði á meðan enn tíðkaðist að fólk kæmi óboðið í heimsóknir og oft var glatt á hjalla, enda Skírnir glaðsinna og orðhepp- inn og hafði gaman af að koma fólki til að hlæja og Margot hló líka að „vit- leysunni í honum“ eins og hún sagði gjarnan. Margot hafði mikla og fal- lega sópranrödd og var byrjuð að læra söng sem ung stúlka í Þýska- landi. Bjarni Bjarnason, hinn aldni organisti og stjórnandi kirkjukórsins, tók henni fagnandi ásamt félögum í kirkjukór Bjarnaneskirkju og var hún burðarás þar í mörg ár. Hún lét sér annt um málefni kirkjunnar og starfaði um árabil í sóknarnefnd, m.a. var hún formaður sóknarnefndar þegar Bjarnaneskirkja var vígð 1976 og verður hennar minnst fyrir þessi óeigingjörnu störf í þágu okkar litla samfélags. Margot söng stundum einsöng á skemmtunum áður fyrr og síðustu árin söng hún með Gleðigjöf- um, kór aldraðra á Höfn. Margot var mjög listhneigð. Ýmiskonar málun og hannyrðir voru hennar áhugamál ásamt söngnum og sjást víða eftir hana myndir og kort unnin á silki. Hún leitaði sér oft viðbótarmenntun- ar á því sviði. Hún kenndi handa- vinnu í mörg ár, fyrst eingöngu í Nesjaskóla og síðan einnig í skólun- um á Höfn. Við hjónin áttum samleið með Margot í öllum störfum hennar fyrir samfélagið í Nesjum. Fyrir það viljum við þakka og biðjum góðan Guð at varðveita hana og styrkja ást- vini hennar í sorg þeirra. Hreinn Eiríksson og Kristín Gísladóttir, stödd í Winnipeg. Að leiðarlokum minnumst við vin- konu og nágranna. Margot setti svip á mannlífið í Nesjum. Hún kom með sína menningararfleið inn í þetta litla samfélag en varð um leið ein af okkur í sveitinni og gaf ríkulega af hæfileik- um sínum og lífsreynslu. Heimili Margotar og Skírnis í Borgum var menningarheimili sem við minnumst með hlýju og þakklæti. Í Borgum var bæjarbragurinn gleðiríkur og þar var alúð og natni í hvívetna. Þú varst langt að kominn með arfinn í höndum þínum og tungu – arfinn sem gerir mannsbarnið að manni – og blómið sem þú sáðir til og viðurinn sem þú hlúðir að og fuglinn sem þú gafst korn í nef – allt heldur nú vörð yfir lífi þínu – og blessar það í krónum sínum og söng. (Jóhannes úr Kötlum) Ásta Karlsdóttir og systkinin á Sunnuhvoli. Það hlýtur að hafa verið mikil breyting fyrir unga stúlku frá stríðs- hrjáðu landi að flytjast inn á rótgróið íslenskt sveitaheimili um miðja síð- ustu öld. Það varð hlutskipti Margot- ar Gamm. Hamborgarstúlkan unga fann hamingjuna í Nesjum í Horna- firði þegar hún giftist bóndanum í Borgum, Skírni Hákonarsyni. Þar fann hún líka kyrrðina, sem var henni alla tíð svo mikilvæg eftir að hafa sem barn upplifað hörmungar stríðs, þar fann hún frelsið og fegurð náttúrunn- ar, með einstökum fjallahring: Öræfajökull í fjarska, skriðjöklar Vatnajökuls skríða fram í norðri, Ketillaugarfjall, Meðalfell og Bergár- dalsheiði rísa í austri. Og ljúfur niður Laxár rétt við bæjardyrnar. Frá fyrsta degi undi Margot sér best hér. Og allt til hinstu stundar vildi hún helst hvergi annars staðar vera. Í Borgum ól hún upp 5 mannvænleg börn, og við systurbörn Skírnis áttum þar öruggt skjól. Allt það góða sem Margot kenndi mér sem barni og unglingi hefur reynst mér ómetan- legt á lífsleiðinni. Frá 6 ára aldri dvaldi ég í Borgum öll sumur og í minningunni var þetta hreinn sælu- tími. En vissulega var lífsbaráttan hörð, nútíma lífsgæði að mestu óþekkt, ekkert rafmagn, þar af leið- andi engin rafmagnstæki, þvottur þveginn í höndum og skolaður í Lax- ánni. Allt þetta leysti unga konan á sinn einstaka hátt. Þegar börnin stálpuðust voru Borgarhjónin sam- hent við að styðja og hvetja þau til mennta. Og systkinin hafa öll launað stuðning foreldra sinna ríkulega, svo glæsilega að fátítt er. Mestu ánægju- stundir hjónanna í Borgum voru þeg- ar gestir voru í bænum, þeir nutu þar ætíð höfðinglegra móttaka, Margot sá um góðgjörðir en Skírnir ræddi við gesti, sagði sögur og gamanmál, orð- heppni hans og kímni var einstök og brást ekki. Söngur var þeim hjónum einnig sameiginlegt áhugamál, þau voru þátttakendur í kórastarfi í Hornafirði í áratugi. Ég á margar góðar minningar um Margot mína. Ég gleymi t.d. aldrei fögru sumar- kvöldi 1958. Foreldrar mínir og syst- ur höfðu verið í heimsókn í Borgum. Þótt drengurinn, á áttunda ári, væri mjög ánægður með dvölina í Borgum fór ekki hjá því að hann yrði leiður við brottför sinna nánustu. Margot tók strax eftir tári á vanga, tók í höndina á mér og leiddi heim í bæ, sagði að nú skyldum við fara upp í norðurher- bergi. Hún kom með skál af volgu vatni, umslög með frímerkjum og sagði að hún ætlaði að gefa mér frí- merki og kenna mér að leysa þau af pappírnum. Síðan yrðu þau orðin þurr morguninn eftir og þá gæti ég raðað þeim inn í bók. Þetta fannst mér spennandi og skemmtilegt og í stað þess að fara leiður að sofa sofn- aði ég fullur tilhlökkunar að sjá frí- merkin mín morguninn eftir. Svona var Margot, svo glögg að átta sig á hlutunum og finna jákvæðar lausnir. Í vor greindist Margot með krabba- mein í nýra. Von um bata brást, og nú er þessi góða kona búin að fá hvíldina. Hún var sú síðasta af kynslóðinni sem tóku við merki frumkvöðulsins og hugsjónamannsins Hákonar Finnssonar í Borgum. Nú er það okk- ar sem erum af næstu kynslóð að halda merkjum þessa góða fólks á lofti. Ég þakka Margot minni fyrir allt og allt og bið Guð að geyma hana. Hákon Hansson. Margot er látin, eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Fram í hugann streyma minningar um elskulega konu með brosmild augu. Konu sem sat aldrei auðum höndum. Ýmist að bera fram kræs- ingar í eldhúsinu eða með handa- vinnu, að prjóna eða sauma, eða mála því Margot var mikil listakona. Og það eru ófá verkin eftir hana sem við höfum notið á liðnum árum. Myndir sem prýða heimili okkar og aðrir fal- legir hlutir sem hún hefur málað, saumað, heklað og prjónað og fært okkur með hlýhug við ýmis tækifæri í lífi okkar og barnanna okkar. Margot hafði sterkan persónuleika, hún var í senn ákveðin og afar hlý manneskja og okkur leið alltaf vel í návist henn- ar. Fyrir rúmum 25 árum vorum við systurnar svo lánsamar að kynnast fjölskyldunni í Borgum og þeirri ein- stöku hlýju og gestrisni sem einkenn- ir þessa fjölskyldu. Þarna kynntumst við, fæddar og uppaldar í Reykjavík, fyrst lífinu í sveitinni. Þær eru ófáar minningarnar sem við eigum um gleðirík sumur, úti á túni og inni í fjárhúsi, að ógleymdum stundum við borðið í eldhúsinu þar sem margt var skrafað og hlegið yfir kaffibolla og ljúffengum heimabakstri. Þessar dýrmætu minningar varðveitum við í huganum um ókomna tíð. Margotar er sárt saknað. En kær minning um góða konu mun lifa með okkur áfram. Kæra fjölskylda, Hjödda, Einar, Hafdís Lára, Hákon, Kalli, Rósa, Inga, Krister, Sigurgeir, Ingibjörg og börn og aðrir aðstand- endur, við vottum ykkur innilega samúð og biðjum Guð að veita ykkur styrk í sorg ykkar. Elín og Sigrún Ragna og fjölskyldur. Margot Anna Clara Gamm hét hún fullu nafni, en notaði alltaf það fyrsta. Ættarnafninu hélt hún alla ævi. Lífs- ferill hennar var einstaklega fjöl- breytilegur, en fyrst og fremst mót- aði hún hann sjálf með sínum sterka vilja, útsjónarsemi og aðlögunarhæfi- leika. Hún átti í reynd þrjú líf, og naut hins fjórða er hún lést. Hún fæddist og ólst upp í Þýska- landi. Sumarið 1943 bjó hún í Ham- borg þegar tugir þúsunda borgarbúa biðu bana í loftárásum sem stóðu yfir í marga daga. ,,Af hverju liggja allar þessar dúkkur á götunni?" spurði ell- efu ára barnið móður sína, er þau flúðu í loftvarnabyrgi. Hún vildi ann- ars lítið ræða þessar hörmungar, og virtist lítið hugnast vopnabrak og styrjaldir. Þegar hún var sautján ára sá hún auglýsingu í blaði þess efnis að óskað væri eftir fólki til starfa við íslensk sveitaheimili. Þar með hófst annað lífshlaup hennar. Hún fékk ráðningu. Hún fór ein. Engin vinkona fór með henni. Viljafesta hennar kom þarna skýrt í ljós, því lítt var hún uppörvuð til farar, og kannske að vonum. Til- viljun ein réð því að Margot barst til Hornafjarðar. Á Borgum bjó þá fjall- myndarlegur bóndi, Skírnir Há- konarson, sem ekki hafði verið að flýta sér í hjónabandið, en breytti um skoðun við komu Margotar í ná- grennið. Og þau giftust og hún flutti að Borgum. Þeim búnaðist vel, og hún lét sitt ekki eftir liggja. Þessu fylgdi mikið líkamlegt erfiði, því enn var ekki mikið vélvætt. Þau voru mjög samhent og virtu vel hvort ann- að þó bæði væru skaprík. Margot varð ekkja innan við fimm- tugt, eftir langvinnt banastríð Skírn- is, sem tók mjög á hana og börn þeirra fimm. Spurð að því löngu síðar hvaða lag væri henni öðrum hug- stæðara, svaraði hún að bragði: ,,Stand by your man“. Þá hófst hið þriðja lífshlaup henn- ar. Hún fór að starfa utan heimilisins, lærði á bíl þótt erfitt væri á hennar aldri, en léttist mjög þegar hún komst á sjálfskiptan bíl. Á honum ók hún til vinnu til Hafnar, og þó að aðrir efuðust um leikni hennar og hefðu af áhyggjur, þá komst hún sína leið nema í verstu aftökum þegar hún fékk aðstoð ættingja eða yfirvalda. Hún fékkst við kennslu sem smám saman jókst, þannig að að lokum fannst henni að nóg væri komið og hætti að bæta á sig kennslu, þó að um væri beðið. Hún kenndi handmennt og þýsku við grunnskólann. Henni líkaði kennslan vel, en erfiðleika nem- enda sinna átti hún til að taka inn á sig, og reyndi stundum úr að bæta, þótt ekki færi það hátt. Að starfslokum tók við hinn fjórði hluti lífshlaups hennar. Þá naut hún sín við handverk og silkimálun. Í slíku starfi fann hún ró og lífsfyllingu. Margot varð Íslandi happafengur. Hún varð Íslendingur án þess að gleyma uppruna sínum. Hún talaði lýtalausa íslensku. Hún var fé- lagslynd og tónelsk og starfaði löngum í kirkjukór síns safnaðar. Gengin er frábær mannkostakona, sannarlega vammlaus kona og víta. Ég og fjölskylda mín minnumst með þakklæti tryggðar og vináttu Margotar og barna hennar, sem við höfum lengi notið, og vottum ástvin- um hennar okkar dýpstu samúð. Ámundi H. Ólafsson.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.