Morgunblaðið - 22.05.2008, Page 29
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. MAÍ 2008 29
ari, áhugamaður um tónlist og bók-
menntir og vel að sér um flesta hluti.
Við félagarnir héldum áfram að hitt-
ast reglulega, ræða um hugðarefni
okkar og hlusta saman á tónlist. Hóp-
urinn hét áfram sínu gamla nafni
„Menningin“ og þar var löngum glatt
á hjalla. Það er því þyngra en tárum
taki að upp úr sextugu fór heilsu
Björns að hraka og seinustu árin var
þessi glæsilegi maður vart svipur hjá
sjón. Þó brá stöku sinnum allt til hins
síðasta fyrir gömlu leiftri í augum
hans. Þau hjón urðu fyrir þeirri
miklu sorg að missa fyrir fáum árum
einkason sinn, Sigurð, mikinn öðling
sem lést eftir áratuga erfið veikindi.
Bekkjarsystir okkar og vinkona,
Svanhildur, annaðist bónda sinn með
dæmafárri alúð og umhyggju í veik-
indum hans. Naut hún aðstoðar sinna
nánustu og einnig var dýrmætt að
eiga bakhjarl í Þorraseli og á Landa-
koti.
Við kveðjum nú Björn vin okkar og
félaga og trúum að hann hafi í nýjum
heimkynnum hitt fyrir vin okkar
Þórð Þorbjarnarson og í fyllingu tím-
ans munum við allir hittast aftur og
finna lausn lífsgátunnar sem við
glímdum við að leysa í menntaskóla
forðum daga. Innilegar samúðar-
kveðjur sendir vinahópurinn Svan-
hildi, dóttur þeirra Ingibjörgu Elsu,
tengdabörnum og öðrum vanda-
mönnum. Blessuð sé minning Björns
Björnssonar.
Guðmundur Kr. Guðmundsson,
Ólafur B. Thors,
Tryggvi Ásmundsson.
Það var mikið dregið af Birni, vini
okkar, þegar við heimsóttum hann á
Landakotsspítala tveimur dögum
fyrir andlát hans. Hann átti erfitt
með öndun vegna skæðrar lungna-
bólgu og talgetan var verulega skert.
Þrátt fyrir það var glampinn í aug-
unum og glettnislegt brosið á sínum
stað, þegar slegið var á létta strengi.
Skopskyninu hélt hann til síðasta
dags.
Á sínum yngri árum, áður en
heilsubrestur tók sinn toll af þreki
Björns, var hann glæsilegur á velli,
hár, grannvaxinn og léttur í fasi.
Hann var skarpgreindur húmoristi
með góða nærveru. Við hjónin áttum
því láni að fagna að eiga vináttu
þeirra Svanýjar um áratugaskeið.
Eigum við margar dýrmætar minn-
ingar frá samverustundum með
þeim. Þau áttu sér m.a. unaðsreit við
Hreðavatn í sumarbústaðnum Lind-
arbrekku. Þangað var notalegt að
koma frá amstri hversdagsins,
bregða sér á bát út á vatnið, renna
fyrir silung, grilla á veröndinni og
setjast síðan út á pall og hlusta á
kvöldkyrrðina, sem ekkert rauf nema
söngur smáfuglanna í náttúrunni.
Björn var félagslyndur mjög og
gleðimaður á mannamótum. En það
var ekki bara fullorðna fólkið sem
naut samvista við hann, heldur var
hann mikill barnavinur. Eiga börnin
okkar margar góðar minningar frá
sínum yngri árum, þegar Björn brá á
leik við þau. Meðal annars átti hann
það til að bregða sér í kóngulóarlíki
og elta þau um allt hús á leifturhraða,
smáfólkinu til ómældrar ánægju.
Björn var vel máli farinn, bæði í
ræðu og riti. Í starfi sínu við Háskóla
Íslands var hann afar vel liðinn af
nemendum sínum og áttu þeir jafnan
greiðan aðgang að honum, ef á þurfti
að halda. Mynduðust þar milli hans
og margra þeirra varanleg vináttu-
bönd.
En lífið er fallvalt og fóru þau
Svaný og Björn ekki varhluta af því.
Fyrir réttum tveimur árum urðu þau
fyrir þeirri þungbæru raun að missa
einkason sinn, Sigurð, aðeins 45 ára
gamlan. Nokkrum mánuðum síðar
lést yngri systir Svanýjar, og nú má
hún sjá á bak eiginmanni sínum og
lífsförunaut til hálfrar aldar.
Í veikindum Björns var Svaný
kletturinn, sem hann treysti á. Hann
tók styrk sinn frá henni og trúum við
því, að það hafi gefið honum þrek til
að horfast í augu við það, sem fram-
undan var.
Við hjónin sendum Svanýju vin-
konu okkar, einkadótturinni Ingi-
björgu Elsu, og tengdabörnunum
Kristínu og Valgeiri, ásamt öðrum
ástvinum Björns, okkar innilegustu
samúðarkveðjur, um leið og við biðj-
um Birni Guðs blessunar á nýjum
slóðum.
Sigríður Ólafsdóttir.
Páll Sigurðsson.
Ég sé þær enn í huga mér hvítar
bleyjur á snúru í garði við Ægisíðuna
og sjávargolan leikur við þær og þen-
ur þær út. Það var sumardagur og
frændfólk mitt sagði mér að ungi
guðfræðineminn í næsta húsi væri
búinn að eignast son og hefði hengt
upp bleyjur í garðinum og það gætti
aðdáunar og viðurkenningar í rödd-
inni. Þessi athöfn bar þess merki að
hér væri á ferð ungur maður sem ætl-
aði að taka þátt í uppeldi sonar síns.
Þetta er fyrsta minning mín um
Björn Björnsson.
Ég sá Björn á samkomu Íslend-
inga í Edinborg, þar sem hann var við
doktorsnám. Hann var mjög grann-
vaxinn og hárið dökkt og mikið en
gránaði snemma. Árið 1970 settist ég
í barnaverndarnefnd Reykjavíkur
fyrir Framsóknarflokkinn, en Björn
var formaður hennar. Þá átti hann að
baki glæsilegan námsferil og hafði
verið skipaður prófessor í guðfræði
ári áður, aðeins 32 ára að aldri. Sér-
svið hans var siðfræði. Björn hafði
verið lærisveinn Þóris Kr. Þórðar-
sonar prófessors, sem var mikill
áhrifavaldur í lífi hans. Þórir Kr.
hafði verið borgarfulltrúi Sjálfstæð-
isflokksins í Reykjavík og höfundur
að skipulagi Félagsmálastofnunar.
Þeir höfðu báðir þá sýn að guðfræð-
ingar ættu að taka virkan þátt í sam-
félaginu, starfa úti á akrinum.
Að doktorsnámi loknu gerðist
Björn yfirmaður fjölskyldudeildar
Félagsmálastofnunar og síðan fram-
kvæmdastjóri barnaverndarnefndar
þar til hann var skipaður prófessor.
Við Björn sátum í félagsmálaráði í
tólf ár. Sem félagsmálamaður var
Björn málefnalegur og réttsýnn, í
umgengni einstaklega þægilegur,
léttur í máli og skemmtilegur. Hann
hafði góða og hlýja nærveru. Margir
sóttust því eftir að fá hann til starfa.
Hann var mjög handgenginn bisk-
upnum, séra Sigurbirni Einarssyni,
og sat í mörgum nefndum á vegum
þjóðkirkjunnar. Síðasta nefndin sem
við Björn sátum saman í var Svæð-
isstjórn um málefni fatlaðra. Bæði
tengdumst við málaflokknum.
Björn var ekki margorður um
einkahagi sína en þó komst ég ekki
hjá því að verða þess vör hversu
þungt sjúkdómur Sigurðar sonar
hans lagðist á hann. Um 1990 bjó ég
ásamt fjölskyldu minni í Uppsölum.
Björn átti stundum leið þangað til að
heimsækja Ingibjörgu dóttur sína,
sem þar var við nám, og fara á nor-
ræna kirkjufundi. Þá leit hann einnig
við á Frödingsgötunni þar sem við
bjuggum. Það urðu ávallt fagnaðar-
fundir. Eftir heimkomuna frá Svíþjóð
sá ég Björn sjaldan. Það var einn dag
að ég var að koma fyrir kvikmynda-
vél á háskólalóðinni þegar Björn
gekk fram hjá. Af fölu og svipbrigða-
lausu andlitinu sá ég að hann var al-
varlega veikur. Þunglyndi hafði náð
tökum á honum, viðkvæmir stengir í
sálarlífinu brostið. Ég sá Björn í síð-
asta sinn í haust í Þjóðminjasafninu.
Hann var í hópi fólks sem komið var
til að skoða Dómsdagsmynd undir
leiðsögn Péturs Péturssonar, guð-
fræðiprófessors og nemanda Björns.
Hann virtist glaður og reifur, eins og
sólin brosti á ný undir hausthimni.
Blessuð sé minning Björns Björns-
sonar.
Svanhildi og Ingibjörgu, svo og
öðrum í fjölskyldu hans, votta ég
innilega samúð.
Gerður Steinþórsdóttir.
Það var mikið Guðslán að eiga
Björn sem vin og bróður og læri-
meistara. Ég kom í guðfræðideildina
úr þeim áhyggjum að vita ekki hvað
ég vildi verða. Það var mikil ham-
ingja að finna loksins hvað manni
passar; guðfræðin, drottning fræð-
anna var þá þarna eftir allt saman.
Björn var einn þeirra góðu manna
þar sem tóku manni opnum örmum.
Hann var ekki aðeins frábær kenn-
ari, heldur líka eins og fóstri. Undir
eins varð hann vinur. Það þótti mér
sjálfsagt þá; en það er ekki svo einfalt
að vera bæði kennari og vinur. Þetta
gat hann og hafði ávallt skýran mun á
vináttu og sínum akademísku reglum.
Enginn nemi græddi né galt vegna
samskipta við hann. Margt kenndi
hann sem enn er minnistætt og
kannski var það aðferðin. Að greina á
milli, finna kjarnann, láta hismið eiga
sig – um þetta snýst háskólauppeldi.
Aldrei taka neitt sem gefið.
Árin í deildinni voru góð. Þar varð
til samheldinn hópur fólks sem naut
þess að læra og fara um undralendur
fræðanna. Um það leyti byggðu
Björn og Svaný á Aragötunni, með
Þóri og Bíbi. Þessi tvö heimili voru
eins og eitt. Þar bjó höfðingskapur og
rausn. Margar voru samverurnar og
veislurnar, alltaf opið hús; glatt hús
og gjöfult.
Síðan urðum við Björn samverka-
menn á biskupsstofu. Þar var margt
að gera og hann lagði gott til. Hann
var auðugur af hugmyndum, glögg-
skyggn og tillögugóður. Við fórum
oft um landið með fræðslufundi fyrir
sóknarnefndir og kirkjufólk. Það var
sannarlega gefandi og lærdómsríkt,
og einu sinni fengu við þá einkunn frá
sóknarnefndarformanni í Þingeyjar-
sýslu, er hann sleit fundi og þakkaði
okkur komuna, að heimsókn þessara
háæruverðugu kirkjuhöfðingja úr
Reykjavík skildi mikið eftir. Senni-
lega höfum við aldrei verið titlaðir
jafn lofsamlega. Þetta voru góðir og
gjöfulir tímar. Iðulega vorum við
saman á fundum í útlöndum. Allt
gekk það vel. Að vinna með Birni var
einstakt. Einhvern veginn vissum við
alltaf hvað hinn myndi segja; fund-
armaður var hann frábær. Hann var
líka virtur og vinsæll í hinu útlenda
kirkjusamfélagi.
Í samfélaginu, hvort það var í guð-
fræðideildinni, á prestastefnu, á
kirkjuþingi, hvar sem hann átti að-
komu í margvíslegum trúnaðarstörf-
um og lét til sín taka, nutu sín vel
beittar gáfur hans sem eins og skáru í
gegn um óreiðuna. Oft var þessi
spurning uppi: Hvað segir Björn ? Og
þegar hann sagði sitt opnuðust nýjar
leiðir.
Í Birni bærðist margt. Hugsi var
hann alltaf, stundum dimmur í sál-
inni, oftar þó bjartur, glaður og reifur
og fagnandi.
Heitt hjarta átti Björn og vinátta
hans og tryggð var einstök. Hann er
nú farinn, horfinn. Allt hefur sinn
tíma. Guð geymi hann og varðveiti, í
nýjum himni og nýrri jörð. Ég mun
sakna hans svo lengi sem ég lifi.
Þorbjörn Hlynur Árnason.
Dr. Björn Björnsson er mér eft-
irminnilegur lærifaðir frá námsárum
mínum í HÍ. Nokkrum árum síðar
urðum við samstarfsmenn á Biskups-
stofu þar sem dr. Björn gegndi emb-
ætti fræðslustjóra kirkjunnar. Við
bundumst góðum vináttuböndum á
þessum árum sem héldu alla tíð.
Oft ræddum við guðfræði og þá
helst tengsl kirkju og þjóðmála. Eng-
inn kom að tómum kofanum hjá dr.
Birni í þeim efnum. Hann hafði djúp-
an skilning á hinni þjóðfélagslegu
vídd trúarinnar. Mér er minnisstætt
samtal sem við áttum fyrir nokkrum
misserum um boðskap páskanna.
Hann færði mér þá að gjöf bók eftir
þekktan erlendan guðfræðing um
upprisu Krists. Hann var vel lesinn
og fróður, guðfræði hans gegnheil. Í
hugsun hans þótti mér fagnaðarer-
indi og lögmál jafnan vega salt í him-
nesku jafnvægi. Í 1. kafla bréfs Páls
til Filippímanna eru orð sem hann
vitnaði oft til og eru mér ofarlega í
huga þegar ég kveð hann nú með
virðingu og þökk: „Og þess bið ég að
elska ykkar aukist enn þá meir að
þekkingu og dómgreind svo að þið
getið metið þá hluti rétt sem máli
skipta og verðið hrein og ámælislaus
til dags Krists, auðug að þeim rétt-
lætisávexti sem Jesús Kristur kemur
til leiðar Guði til lofs og dýrðar.“
Þessi orð tjá með mjög skýrum hætti
hvernig kristnum manni ber að lifa.
Hann á að láta trú og þekkingu vinna
saman svo að dómgreind hans sé tær
á hverri tíð og breytnin beri réttlæt-
inu vott. Í anda þessara góðu orða
postulans minnist ég hans með þakk-
læti fyrir það sem Guð gaf honum af
þekkingu og visku, kærleika og vin-
arþeli.
Guð blessi minningu dr. Björns
Björnssonar og styrki fólkið hans.
Örn Bárður Jónsson.
✝
Elskulegur faðir minn, tengdafaðir og vinur,
JOCK KIM TAN
(Jimmý),
andaðist 14. maí.
Minningarathöfn fer fram í Bústaðakirkju
föstudaginn 23. maí kl. 15.00.
Júlía Tan Kimsdóttir,
Alex Tan Kimsson,
Kristján Arnar
og aðrir aðstandendur.
✝
Sonur minn, bróðir okkar, mágur og vinur,
BJARNI SIGURÐSSON,
Mýrarási 2,
Reykjavík,
sem lést miðvikudaginn 14. maí á Landspítalanum
við Hringbraut, verður jarðsunginn frá Seljakirkju í
dag, fimmtudaginn 22. maí kl. 13.00.
Hildur Bjarnadóttir,
Svanhildur Sigurðardóttir, Markús Ívar Magnússon,
Jónas Sigurðsson, Elsa Nína Sigurðardóttir,
Ásta Sigurðardóttir, Gunnlaugur Jón Magnússon,
heimilisfólkið Mýrarási 2
og aðrir aðstandendur.
✝
Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð,
hlýju og vináttu við andlát og útför elskulegs eigin-
manns, föður, tengdaföður, afa og langafa,
HJALTA ÞÓRARINSSONAR
fyrrverandi yfirlæknis og prófessors,
Laugarásvegi 36,
Reykjavík.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki Sóltúns fyrir
góða umönnun.
Alma Anna Þórarinsson,
Þórarinn Hjaltason, Halla Halldórsdóttir,
Oddur Carl Hjaltason, Ingibjörg Jakobsdóttir,
Sigríður Hjaltadóttir, Þórir Ragnarsson,
Hrólfur Hjaltason,
Gunnlaug Hjaltadóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug
við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns,
föður, tengdaföður, afa og langafa,
LEÓS GUÐBRANDSSONAR
fyrrv. sparisjóðsstjóra í Ólafsvík,
Núpalind 2,
Kópavogi.
Sérstakar þakkir færum við starfsmönnum deildar 11e á Landspítala,
Agnesi lækni, starfsmönnum Karitas og starfsmönnum líknardeildar
Landspítala í Kópavogi.
Helga Kristín Lárusdóttir,
Ásta Lára Leósdóttir, Þorvarður Sæmundsson,
Guðbrandur R. Leósson, Gunnhildur Tryggvadóttir,
Erla Leósdóttir, Hjörtur Þorgilsson,
Ágúst H. Leósson, Sigrún Ellertsdóttir,
Þröstur Leósson, Steinunn Tómasdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi,
GUÐMUNDUR JÓNSSON
húsasmíðameistari
frá Guðnabæ, Akranesi,
Fáfnisnesi 4,
Reykjavík,
lést sunnudaginn 18. maí á líknardeild Land-
spítalans í Kópavogi.
Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni þriðjudaginn
27. maí kl. 15.00.
Ingunn Ívarsdóttir,
Matthildur Guðmundsdóttir, Vilhjálmur Arnar Aðalsteinsson,
Jón Guðmundsson, Ragnheiður Björk Hreinsdóttir,
Ívar Guðmundsson, Anna Lára Eðvarðsdóttir
og barnabörn.