Samvinnan - 01.02.1971, Page 24

Samvinnan - 01.02.1971, Page 24
Sigurður Guðjónsson HIPPA OG FLEIRA NOKKUR ORÐ UM Snemma í fyrravetur sýndi sjónvarpið fréttamynd af því er lögreglan í London fjarlægði hóp hippa, er leitað höfðu skjóls í stóru, en auðu húsi í borginni. Við horfð- um á það, að einkennisklæddir lögreglu- menn leiddu á brott unga menn með mikið skegg og hár niður á herðar og klædda í hinar furðulegustu flíkur. Auðvitað þarf ekki að taka það fram, að tónn fréttalesar- ans var mjög óvinsamlegur í garð þessa fólks. Sjónvarpið okkar er nefnilega, því miður, hlutdrægasta sjónvarp í víðri veröld, ekki aðeins í pólitískum sökum, heldur í öllum hugmyndafræðilegum efnum. Og menn fylltust óskaplegri vandlætingu yfir siðleysi ungu kynslóðarinnar sem á að „erfa landið“. Þetta er nú meiri andskotans skríllinn, sem gerzt hefur svo óguðlega djarfur að henda út í horn eða gefa fátæk- um hinn venjubundna klæðnað almennilegs og siðprúðs fólks. Þá þykir það heldur en ekki dónaskapur að spara sér nokkrar krón- ur með því að láta ekki skera hár sitt né skegg. Fyrst fer þó skörin að færast upp í bekkinn þegar það vitnast, að þetta unga fólk er svo hroðalega óforskammað að gefa langt nef heilögustu hugmyndum borgar- anna um lög og skyldur og skellihlær að frómustu skoðunum manna um helgi eignar- réttarins og „guð og föðurlandið". En út yfir tekur þó ósvífnin þegar sumt af þessu fólki harðneitar að gegna herþjónustu og láta drepa sig fyrir „lýðræðið". Það er ein- hver agalegasta frekja sem hugsazt getur. Og sjónvarpsáhorfendur voru sannfærðir um að hippalýðurinn væri smánarblettur á okk- ar góða þjóðfélagi. Svo dundu yfir Sharon Tate morðin. Höfuðpaurinn í því illvirki var sagður hippi. En hann bað guð að hjálpa sér og frábað sér að vera bendlaður við slíkt óþverra- pakk. En það skiptir engu máli. Úr því að sagan er einu sinni komin á kreik, verður henni á loft haldið til næstu ísaldar eða lengur, þó það komi í ljós með hestburði af sönnunum, að Manson þessi sé ekki og hafi aldrei verið hippi. Þvert á móti munu menn hrópa: „Þarna er helvítis hippunum rétt lýst. Þetta eru allt saman aumingjar eða glæpamcnn". Það hvarflar að sjálfsögðu aldrei að þessu fólki að hallmæla verkalýð eða ráðherrum, þó að menn úr þessum stéttum hafi framið ógrynni glæpaverka um aldirnar. Hvað er hippi? En hafa þessir vandlætarar nokkurn tíma spurt sjálfa sig: Hvað er hippi? Af hverju gerast menn hippar? Nei, nei, nei, nei! Að komast að sannleikanum í þessum efnum er svo hlægilegt hégómamál, að engum al- mennilegum manni dettur í hug að leggja sig niður við slíkan ósóma. Þess í stað æða menn út á götur og torg og hrópa: Úlfur! Úlfur! Og það skrýtna er að fólk verður alltaf jafn hrætt, þó aldrei komi neinn úlfur. Arnold Toynbee, sem kynnti sér hippa- hreyfinguna í San Francisco, segir að meiri- hluti þess fólks, er gerist hippar, sé frá efnuðum heimilum, sem séu þess megnug að veita því flest þau gæði, er keypt verði fyrir peninga, og kosta það til þeirrar menntunar sem hugur þess girnist, er aftur opni því leiðir til feitra embætta, auðs, valda og metorða. En þetta fólk kærir sig bara ekkert um þetta. Þess í stað dregur það sig út úr hinu borgaralega lífi og lifir fábreyttu og frjálsu lífi í samfélagi hippa, þar sem allur lífsmáti og viðhorf til um- heimsins er gjörólíkt því, sem við eigum að venjast. Til að skilja þennan „flótta frá mannlífinu" verðum við að athuga uppeldi og mótun einstaklinganna í þjóðfélagi okkar. Uppeldi okkar er í stuttu máli þannig hagað, að strax í frumbernsku er okkur rækilega innrætt ákveðin afstaða til um- heimsins og mannlífsins. Þetta viðhorf er þó í yfirgnæfandi tilfellum ekki byggt á neinu hagrænu eða skynsamlegu viti. Þvert á móti gengur það oft og einatt harkalega í bága við þau lögmál, sem líf okkar virðist hvíla á. Okkur er nefnilega kennt, að allir menn séu vondir og eigingjarnir, sem aðeins hugsi og eigi að hugsa um það eitt að koma ár sinni sem bezt fyrir borð, oftast á kostnað náungans. Eigingirni, samkeppni, ótti og hlýðni eru þeir pólar, sem líf okkar sveiflast um. Við erum ekki fyrr borin í þennan heim en byrjað er að ala á síngirni okkar með því að innræta okkur „heilbrigðan metnað'*. Við erum ákaft hvött til að keppa við hin börnin, verða stærri og sterkari, hlýðnari við pabba og mömmu og duglegri í skólan- um. Við erum áminnt um það sí og æ að berjast og hatast vægðarlaust um hversdags- legustu smámuni jafnt sem hærri markmið. Við eigum að „komast áfram“, græða mikla peninga, eignast flott hús og gott heimili, komast í fína stöðu og verða virtir og mikils metnir borgarar. Skólarnir Svo taka skólarnir við. Þeir veita nem- endunum enga vizku og enga speki. Þeir láta sér nægja að troða í þá fánýtu fróð- leikshrafli, sem bætir ekki hársbreidd við skilning þeirra á lífinu. Öll kennslan er mið- uð við það eitt, að veslings lærisveinarnir séu sem hæfastir að takast á hendur hin ýmsu og girnilegu embætti, sem þjóðfélagið er grundvallað á og þar með öll sú rangs- leitni, kúgun, ofbeldi, styrjaldir og sálar- morð, sem eru afleiðing þess. Og þegar við komum út úr skólunum, erum við enn vesalli og fáfróðari en þegar við stigum þar inn fyrir þröskuldinn. Okkur hefur ekkert farið fram. En við höfum glatað ýmsum upp- runalegum eigindum í fari okkar, sem öllum mönnum er nauðsynlegt að varðveita til að bíða ekki tjón á sálu sinni. Við erum aum- ingjar! Við botnum hvorki upp né niður í sjálfum okkur. Við erum ófær um að hugsa að gagni. Við erum skíthrædd við lífið og tilveruna. Margir okkar fremja sjálfsmorð, en aðrir missa vitið. Við svífumst einskis til að ná markmiðum okkar, sem glýjan fyrir augum okkar hefur vélt okkur til að halda að sé tindur fjallsins, en reynist eftir allt saman vera lítil hundaþúfa. Við ljúgum og hræsnum. Við erum fölsk og undirförul. Við höfum ekki áhuga á nokkrum sköpuðum hlut. Okkur dettur aldrei í hug að berjast fyrir „háleitum hugsjónum“. Og loks blómstrar í hugum okkar grimmd og mann- vonzka eins og illgresi í vanhirtum garði. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Það stafar af því, að við erum þegnar þjóð- félags, sem er grundvallað á samkeppni og eigingirni, en samhjálp og vinátta er álitið þjóðfélaginu skaðlegt. 20

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.