Andvari - 01.01.1987, Qupperneq 10
8
INGVAR GÍSLASON
ANDVARI
Brenniási og víðar, föður Jakobs, og Jóns Jóakimssonar á Þverá, föður
Benedikts á Auðnum. Sigurður Jóakimsson, langafi Ólafs, bjó á
Vatnsenda í Eyjafirði, og þar var afi Ólafs, Jón á Illugastöðum, fæddur
1854, þótt hann bærist norður í Fljót og byggi þar og yrði þar sveitar-
höfðingi. Guðfinna, móðurmóðir Ólafs, kona Jóns á Illugastöðum, var
dóttir Gunnlaugs Magnússonar og Guðrúnar Jónsdóttur, búandi hjóna
í Garði í Ólafsfirði, af „þrekmiklu dugnaðarfólki“, svo notuð séu orð
Kristins Pálssonar, sem ritað hefur þátt um Jón á Illugastöðum og
Guðfinnu konu hans í Skagfirskar æviskrár. Má ljóst vera að Ólafur
Jóhannesson átti til góðra að telja.
Foreldrar Ólafs þótti fyrirmyndarfólk í hvívetna. Jóhannes Frið-
bjarnarson var lengi barnakennari í Austur-Fljótum, en stundaði auk
þess búskap, ævinlega sem leiguliði og skipti alloft um jarðnæði, en bú
hans aldrei stórt fremur en yfirleitt gerðist í Fljótum á þeirri tíð. Hann
var eigi að síður vel bjargálna maður og naut trausts sveitunga sinna,
gegndi á þeirra vegum mikilvægum trúnaðarstörfum, var m.a. hrepps-
nefndaroddviti um árabil og tók við því starfi af Jóni tengdaföður
sínum. Hins vegar var enginn auður í garði þeirra hjóna og umsvifum
þeirra takmörk sett. Fékk Ólafur Jóhannesson að kynnast því sem barn
og unglingur að lífsbaráttan var hörð, ekki endilega á sínu eigin heimili
miðað við það sem annars staðar var í sveitinni, þar sem ómegð var
meiri og búin jafnvel enn minni. Fljótamenn sóttu þó einnig til sjávar,
því að þeir voru m.a. kunnir hákarlaveiðimenn meðan sú atvinna gaf
nokkuð í aðra hönd, enda allt bjargræði nýtt eins og það gafst. Ekki gat
talist ómegð á heimili þeirra Kristrúnar og Jóhannesar, því að börnin
voru aðeins tvö, Ólafur og Sigríður, sem var fimm árum eldri, og ein
fósturdóttir, frænka Kristrúnar, sem þar ólst upp. Sigríður Jóhannes-
dóttir giftist Jóni Arngrímssyni og bjuggu þau á Brúnastöðum í
Fljótum, og þar býr nú sonur þeirra, Ríkarður Jónsson. Lengi átti
Ólafur Jóhannesson sumarbústað á Brúnastöðum, dvaldist þar á
sumrum með konu sinni og börnum og hélt þannig tengslum við
æskusveit sína.