Andvari - 01.01.1987, Page 32
30
INGVAR GÍSLASON
ANOVARl
stjórnartímabili, m.a. með þeirri áherslu sem lögð var á ,,hringveginn“
sem svo hefur verið nefndur. Þá var lokið brúargerð á Skeiðará, miklu
tímamótaverki í samgöngumálum hér á landi.
Landhelgismálið
Þeir flokkar sem stóðu að hinni fyrri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar
voru á einu máli um það að landhelgismálið, sú stefna að færa land-
helgina út í 50 sjómílur í næsta áfanga, væri forgangsmál, sem fylgja
yrði fast eftir. Enda fór svo að þetta stórmál sem það var í hugum allra
Islendinga varð fyrirferðarmest allra þeirra verkefna sem ríkisstjórnin
hafði á stefnuskrá sinni og átti eftir að gera ísland frægt og umtalað
víða um heim. Þetta mál mæddi að sjálfsögðu á allri ríkisstjórninni.
Sjávarútvegsráðherra, Lúðvík Jósepsson, fór með það vald að gefa út
reglugerð um útfærsluna og átti ómetanlegan hlut í stefnumótun í
landhelgismálinu af hálfu síns stjórnmálaflokks. Hins vegar kom það
mest til kasta Einars Ágústssonar utanríkisráðherra og Ólafs Jóhann-
essonar forsætis- og dómsmálaráðherra að annast framkvæmd stefn-
unnar, fyrst og fremst gerð milliríkjasamninga sem leiddi af þessari
ákvörðun og kynningu málsins og málsvörn út á við, að ekki sé minnst á
yfirstjórn landhelgisgæslunnar, sem heyrði undir dómsmálaráðherra.
Útfærsla landhelginnar í 50 sjómílur 1972 leiddi til endurnýjaðrar
og harðvítugrar deilu við Breta og varð hin mesta þolraun fyrir land-
helgisgæsluna, sem eigi að síður gegndi skyldu sinni af kostgæfni og
mikilli hugprýði. Án þeirrar mikilvægu forgöngu, sem ríkisstjórn Ólafs
Jóhannessonar 1971-1974 hafði í landhelgismálinu er augljóst að
lengra hefði liðið en raun ber vitni að náð yrði viðunandi lokaáfanga í
málinu, þeirri stöðu mála sem nú er.
Þegar þessar línur eru festar á blað í upphafi árs 1987 búa íslending-
ar við þann rétt, sem staðfestur hefur verið sem alþjóðalög og viður-
kenndur með milliríkjasamningum að auðlindalögsaga íslands sé 200
sjómílur. En hversu lengi hefur slík skipan staðið? Þegar þetta er ritað
vantar enn nokkra mánuði í 11 ár síðan utanríkisráðherra íslands,
Einar Ágústsson, undirritaði f.h. íslensku ríkisstjórnarinnar sam-
komulag við ríkisstjórn Stóra-Bretlands um lausn harðvítugrar og
langvinnrar deilu um landhelgismál. Með því samkomulagi (2. júní
1976) var núverandi skipan landhelgismála komið á.