Andvari - 01.01.1987, Side 120
118
GUNNAR KRISTJÁNS3QN
ANDVARI
séra Stefán byggir allt á eru biblíuleg viðhorf hinnar spámannlegu hefðar.
Lítið er getið um lesefni sýslumanns. Eitt sinn er þess þó getið að hann er að
lesa Also sprach Zaraþústra eftir Nietzsche, hið mikla tímamótaverk undir
lok síðustu aldar um tómhyggjuna, þegar honum gefst hlé frá réttarhöldum
(bls. 203-4). Hvers vegna les sýslumaðurinn þetta höfuðrit tómhyggjunnar?
Var hann ekki maður formsins, maður laga og réttar, þar sem allt var á
hreinu, þar sem veröldin var í röð og reglu svo lengi sem dæmt væri eftir
sönnunargögnum? Er þessi lestur hans vísbending um að lög og regla
nái skammt og séu takmörkunum háð, jafnvel blekking? Ekki skal þeim
spurningum fylgt lengra eftir. Sýslumaður les raunar ekki aðeins um tóm-
hyggjuna í riti Nietzsches heldur líka í Prédikaranum í Gamla testamentinu
(bls. 213-214).
Lokaspurningin gæti verið á þessa leið: er séra Stefán endurspeglun ís-
lenskra presta undir lok nítjándu aldar þegar atburðir sögunnar gerast — en
þá ekki þeir prestar sem raunsæisskáldin tefldu fram? Eða endurvarpar hann
mynd prestsins á þeim tíma þegar sagan er samin? Svarið er ekki einhlítt.
Slíkir prestar hafa alltaf verið og verða áreiðanlega alltaf til. Þannig var séra
Brandur Ibsens á sinn hátt, svo dæmi sé tekið frá síðustu öld úr verkum
raunsæisskálds. Flæmsku prestarnir hjá Bernanosi voru nefndir sem dæmi
um nýrri erlendar bókmenntir. En mörg fleiri dæmi hefði auðvitað mátt
nefna. Hér á landi virðist tregðulögmálið hins vegar hafa viðhaldið fast-
mótaðri prestsímynd — með nokkrum tilbrigðum að vísu. Slíkar fastmótaðar
myndir af mönnum og málefnum geta orðið býsna lífseigar í bókmenntum,
jafnvel svo að skáldin virðast ekki frekar leiða hugann að því að breyta þeim
en landslaginu.
í Grámosanum hefur Thor Vilhjálmsson troðið nýja slóð með því að virða
að vettugi úr sér gengna ímynd prestsins með sjálfstæðri umfjöllun. Eins og
fram hefur komið í þessari ritgerð hafa fleiri rithöfundar gert tilraunir á þessu
sviði (einkum Halldór Laxness og Ólafur Jóhann Sigurðsson af þeim sem hér
hefur verið fjallað um). En samt er verulegur munur á. Munurinn felst
einkum í því að Thor Vilhjálmsson hirðir ekki um að brjóta niður hina
viðteknu ímynd heldur lætur hann eins og hún sé ekki til. Hann býr til nýja
ímynd af þeim presti sem hvað harðasta útreið hefur fengið í bókmenntum
okkar, prest ofanverðrar nítjándu aldar. Til ferskrar umfjöllunar af því tagi
þarf vissulega góðar forsendur. í»ær hefur höfundur nægar, t.d. koma þær
fram í þeim biblíutilvitnunum sem getið hefur verið um. Þær setja prestinn í
hugmyndafræðilegt samhengi ef svo má að orði komast. En án þess að
höfundur skilji þetta samhengi og taki af ráðnum huga afstöðu til þess, duga
forsendurnar skammt til að breyta ftnynd prestsins. Sú endurnýjun var löngu
orðin tímabær.