Andvari - 01.01.1987, Blaðsíða 161
ANDVARI
JÓNAS FRÁ hriflu og upphaf framsóknarflokksins
159
arboði tilgangurinn „að koma á kosningabandalagi við hina landsfjórð-
ungana.“ Þar voru í rauninni tveir möguleikar. Annars vegar samráð við
ákveðna hópa úr öðrum landshlutum — eins og þegar hafði verið haft við
Þingeyinga um framboð Sigurðar í Ystafelli; hins vegar bandalag við Bænda-
flokkinn sjálfan.
Það var Bændaflokkurinn sem að fyrra bragði leitaði slíks bandalags þegar
á næstu vikum. Hann hélt fundi í höfuðvígjum sínum, Húnavatnssýslum og
Skagafirði. Þremur Húnvetningum var falið að vinna að sameiningu listanna.
Þegar einn þeirra, Jónatan J.Líndal áHoltastöðum, skrifar Ágústi í Birtinga-
holti 27. febrúar, voru þeir þegar búnir að tala við Gest á Hæli, en með litlum
árangri. Enda eru það ekki glæsilegir kostir sem Jónatan hefur umboð til að
bjóða Ágústi. Bændaflokkurinn sé búinn að festa fyrsta og þriðja sætið.
(Vigfús Guðmundsson í Engey var í því þriðja, en hann hafði verið fulltrúi og
nefndarmaður á fundinum við Þjórsárbrú.) Heimastjórnarmenn eigi annað
og fjórða sætið (og hefði Sigurður í Ystafelli verið gjaldgengur þar, án þess að
Jónatan nefni hann á nafn). Svo geti Ágúst fengið hið fimmta, og telur
Jónatan það ekki vonlaust. Listinn kunni að fá þrjá menn kjörna, og kannski
muni svo margir Sunnlendingar breyta listanum Ágústi í vil að hann nái kjöri.
I þessu þófi stóð fram á vor, því að 20. apríl skrifar Gestur Ágústi og hafði
enn talað við Bændaflokksmenn (Norðlendinga eins og hann kallar þá):
>,Eg gaf þeim engan kost á að við breyttum til með röðun á tveim efstu
mönnum okkar, en úr því gætu þeir raðað sér í hin ágætu sæti sem þeir hafa
viljað ætla okkur. Annars munum við heyra þeirra „ultimatum“ á fundinum
27. þ.m.“ Samkvæmt þessu hefur það ekki verið skilyrði af Gests hálfu að
enginn þingmaður væri á listanum, heldur hefur ágreiningurinn verið um tvö
til þrjú efstu sætin.
A aprílfundinum hefur endanlega slitnað upp úr, og gengu hvorir frá sínum
jista. Hjá Óháðum bændum voru, ásamt Þingeyingnum í efsta sæti, Eyfirð-
•ngar í tveim neðstu sætum: Ingimar Eydal, þá ritstjóri íslendings, en síðar
fyrsti ritstjóri Dags, og þarf þá ekki framar vitna við að hann var einn af
>,vinstri mönnum“ Jónasar frá Hriflu; og Hallgrímur Kristinsson, verðandi
forstjóri Sambandsins. Hallgrími hafði strax um haustið verið boðið sæti á
lista Bændaflokksins, talið það mikinn heiður „og veit ekki hvort ég játa eða
neita,“ skrifaði hann 7. október,8 en neitaði fáum dögum síðar.
V
Kosningaaldur við landskjör var 35 ár — Jónas frá Hriflu var t.d. ekki
ntkvæðisbær — þannig að pólitísk nýjungagirni var ólíkleg til að ráða þar
Urslitum. En framboð Óháðra bænda fann hljómgrunn í kosningabaráttunni;