Andvari - 01.01.1987, Side 162
160
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
ANDVARI
Sigurður í Ystafelli náði örugglega kjöri og Ágúst í Birtingaholti féll naum-
lega í baráttusætinu. Bændaflokkurinn fékk aðeins 7,5% atkvæða á móti
rúmlega 22% Óháðra bænda og var fjarri því að koma að manni. Þarna
virtust kjósendur hafa gert upp hug sinn býsna ótvírætt um það, hverjir væru
réttir málsvarar bændastéttarinnar í stjórnmálum.
í kjördæmakosningunum um haustið snerust hins vegar styrkleikahlutföll
bændafylkinganna rækilega við. Óháðir bændur buðu aðeins fram í þremur
kjördæmum og komu einum manni að, Sveini Ólafssyni í Firði, en Gestur á
Hæli féll naumlega í Árnessýslu. Bændaflokkurinn fékk hins vegar fimm
menn kjördæmakjörna. Þetta ójafna hlutfall, fimm þingmenn á móti einum,
sýnir þó ekki styrkleika bændaflokkanna meðal kjósenda. Fjórir af þing-
mönnum Bændaflokksins sátu á þingi fyrir og hafa notið persónufylgis frem-
ur en endilega flokksfylgis; aðeins einn vann nýtt þingsæti, Einar Árnason á
Eyrarlandi í Eyjafirði. Og í tvímenningskjördæmum hlaut flokkurinn hvergi
nema annað þingsætið, sem líka var veikleikamerki. Eftir kosningarnar var
augljóst að hvorug fylkingin hafði styrk til að hunsa hina, enda sameinuðust
þær strax og þing kom saman. Bættist flokknum þá líka áttundi þingmaður-
inn, Þorsteinn M. Jónsson, sem kosinn hafði verið í Norður-Múlasýslu sem
„óháður sjálfstæðismaður“; hann var ungur kennari og mun hafa tilheyrt
„vinstri manna flokki“ Jónasar frá Hriflu. Jörundur Brynjólfsson var líka í
samstarfi við Framsóknarflokkinn og ekki annað en tillitssemi við Alþýðu-
flokkinn sem hamlaði að hann gerðist formlega flokksmaður.
VI
Hér var Framsóknarflokkurinn sem sagt orðinn til, en að hve miklu leyti
var hann runninn undan rif jum Jónasar frá Hriflu? Vissulega var hann þáttur
í því flokkakerfi sem Jónas hafði boðað. En hann var um leið rökrétt, jafnvel
óhjákvæmilegt, framhald af því flokksstarfi sem þegar var hafið meðal bænda
á þingi. Ákvörðun Bændaflokksins 1915 um sjálfstætt framboð árið eftir
hefur tæplega verið tekin vegna neinna áhrifa frá Jónasi, þótt hann virðist
hins vegar hafa gert árangurslausa tilraun til að hafa áhrif á uppstillingu
flokksins.
Síðan var Jónas með í ráðum um framboð Óháðra bænda. Aðalheimildin
um hlut hans að því máli er stuttorð frásögn sjálfs hans áratugum síðar, og
verður ekki ráðið af henni í neinum smáatriðum hve mikinn þátt Jónas átti í
því að mynda hreyfinguna um þetta framboð. Einkum virðist hann hafa haft
áhrif sem persónulegur ráðunautur Gests á Hæli, sem var ótvírætt aðalmað-
urinn í framboðshreyfingunni. Það var hugmynd Jónasar sem farið var eftir
um skipun Sigurðar í Ystafelli í efsta sæti landskjörslistans, og hann studdi