Andvari - 01.01.1991, Síða 150
148
EYSTEINN ÞORVALDSSON
ANDVARI
Þetta er leiðin til að skynja hina vingjarnlegu ásýnd mannheims. Þú
„skyggnist í hug þér, /eygir hið sama: himin og jörð,/heimkynni þitt -“10 Pað
er semsagt mikilvægt að átta sig á verðmætum þessa heims, þ.e. hins mann-
lega alheims, makrokosmos.
Eins og áður getur, vísar skáldið oft til fornrar menningar á fjarlægum
slóðum, til grískrar, rómverskrar, indverskrar og egypskrar sögu og goð-
sagna og einnig til trúarsiða indjána í Suður-Ameríku fyrr á tímum. Skáldið
er vel heima í báðum hlutum Biblíunnar; vísanir til hennar og minni úr henni
eru algeng í ljóðunum. Nokkrum sinnum er t.d. vísað til Opinberunarbókar-
innar enda er í henni gnægð skáldlegra átaka, litríkra sviptinga og gróteskra
mynda. Engillinn í ljóðinum Ný jörð, sem vitnað er í hér á eftir, virðist þaðan
kominn og fyrsta ljóð Hringhendu endar á þessari skörulegu fyrirskipun sem
líka er þaðan ættuð: „Tak þessa bók og et hana eins og hún er“ en þessi orð
mælti hortugur engill til Jóhannesar sem hafði falað bókina af englinum sam-
kvæmt boðum af himni. E.t.v. er það kaldhæðin tilætlunarsemi skáldsins að
lesendur þekki framhald skipunarinnar frá englinum: „hún mun verða beisk
í kviði þínum, en í munni þér mun hún vera sæt sem hunang.“ í Hringhendu
er einnig í tvígang vísað til fyrra Korintubréfs, m.a. um talsmáta, hugsun og
ályktanir barna og heimfært til nútímans með stuðningi vísana í söguna 1984
eftir George Orwell. Skáldið virðist nota biblíutextana til sjálfskönnunar og
prófunar á innræti mannsins og örlögum hans. Ekki verður vart trúhneigðar,
heldur er Biblían lesin og endurspegluð sem mikilvægar bókmenntir en ekki
trúarrit. Það má t.d. glöggt sjá í nokkrum ljóðum í Leikvangi. í Giorgio de
Chirico blasir Babelsturninn við í litríkum táknum, og í Turninum er þetta
fræga mannvirki orðið að uppreisnartákni mannsins gegn guði því að eftir
syndafallið gerðist það að „hægt -/ hægt reis turninn / í manninum“.n Ljóðið
Uppstytta er ort um eld, en ekki þann sem frá guðunum er kominn, svo sem
kennt er í grískri goðafræði, heldur um ófriðareldinn. í kröftugum myndum
sést hinn sigraði stríðsforingi skríða sótstokkinn úr rústunum til að hefja ný
áform, því að:
(Andskotinn gleymir engum.
Hann gefur
öllum þjóðum náð til að þekkja sig
og þann sem hann sendir.)
(Leikvangur, bls. 38)
Andspænis þessum fjölmörgu vísunum í fjarlæga goðafræði og sagnir,
einkum grískar, hlýtur það að vekja furðu að hvergi er minnsti vottur hinnar
norrænu goðafræði í ljóðunum. Sú spurning hlýtur að vakna hvort skáldið
sniðgangi af ásetningi hinn fornnorræna menningarheim. Ætla mætti að sá