Andvari - 01.01.2006, Page 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
sem þó brenna á þeim. Yfirleitt virtist kröfuharkan gagnvart kirkjunni vera
langmest hjá því fólki sem ekki er vitað til að hafi látið sér títt um hennar
mál fram að þessu. Það fólk sem studdi málstað biskups mátti þola aðkast í
blöðum og jafnvel persónulegar slettur af hálfu samkynhneigðra og stuðnings-
manna þeirra.
Þannig stendur þetta mál núna. Þjóðkirkjan stefnir að því að afgreiða það
frá sér á næsta ári. Málamiðlun virðist ekki í augsýn. Það hefur verið nefnt
að leiðin úr þessum ógöngum kunni að vera sú að afhelga, „sekúlarísera",
hjónabandið sem þjóðfélagslegan gjörning eingöngu. Veraldleg yfirvöld eins
og sýslumenn á hverjum stað myndu þannig staðfesta hjúskap fólks með
formlegum hætti, en kirkjan veitti síðan blessun þeim brúðhjónum sem það
kjósa. Þessa skoðun tók að minnsta kosti einn prestur undir í sjónvarpsviðtali
og benti líka á hve virðing fólks er nú lítil oft á tíðum gagnvart kirkjubrúð-
kaupi, þar sem presturinn sé jafnvel kominn í hlutverk einhvers konar trúðs
í uppákomu sem fólk setur á svið sér til skemmtunar. Það væri kirkjunni til
styrktar að losna undan slíku fargani.
Kirkjulegt hjónaband samkynhneigðra er viðkvæmt mál sem ber að ræða
af stillingu og virðingu jafnt fyrir hefðum og trúarkenningum sem tilfinn-
ingalífi fólks. Þess hefur ekki verið gætt og einkum hefur ofstopi stuðnings-
manna samkynhneigðra valdið því. Það hefur oft virst sem aðeins ein skoðun
sé leyfileg í málinu, að fallast skilyrðislaust á kröfu samkynhneigðra, aðrar
eigi að berja niður af fyllstu hörku. Slík rétthugsun er ekki sæmandi í opnu
lýðræðisþjóðfélagi.
*
Þegar þetta er ritað er aðeins lítill hluti af útgáfubókum ársins kominn út. Þó
þykist ég þess fullviss að „bók ársins" hafi komið á markaðinn í vor. Þetta
er Draumalandið. Sjálfshjálparbók handa hrœddri þjóð eftir Andra Snæ
Magnason. Bókin tekur á heitasta deilumáli í landinu á síðustu misserum,
afstöðunni til virkjanastefnunnar, einkum Kárahnjúkavirkjunar, andspænis
þeirri kröfu sem verður æ þyngri að ómetanlegar náttúruperlur íslands verði
varðveittar handa komandi kynslóðum, þeim ekki fórnað á altari skammtíma-
hagsmuna.
Enginn sá sem hefur alist upp á landsbyggðinni er ónæmur fyrir þeim mál-
flutningi að nauðsyn beri til átaks til að efla atvinnulíf þar svo að fólk vilji
búa í hinum dreifðu byggðum. Það er ekki æskilegt að mestöll þjóðin safnist
á suðvesturhornið og aðrir landshlutar verði fyrst og fremst frístundaathvarf
höfuðborgarbúa. Vissulega er ekki unnt að krefjast þess af landsbyggð-
arfólki að það uni við lakari kjör en þeir. Hins vegar er ekki sama hvaða
stefna er tekin í þessum málum. Stóriðjustefnan sem allt hefur miðast við
er nauðhyggja, drifin áfram af ógnunum: Annaðhvort fáið þið virkjanir sem