Andvari - 01.01.2006, Side 108
106
SIGURBORG HILMARSDÓTTIR
ANDVARI
Sendibréf frá Sandströnd hlaut nokkuð misjafna dóma. Flestir ritdómarar
töldu þar margt vel gert en sumir hverjir töldu forsöguna megingalla á bygg-
ingu sögunnar. Ein af þeim persónum sem Þorvaldur kynnist á Sandströnd er
tíu ára drengur, Palli litli, sonur húsráðenda sem Þorvaldur leigir hjá. Ymsir
létu þess getið að lýsing drengsins væri með því sem best heppnaðist í sögunni
og sannaði það enn að Stefáni léti best að skrifa um börn.
4
Vegurinn að brúnni kom út 1962. Stefán Jónsson lagði gríðarlega vinnu og
metnað í þá sögu og vonaðist til að hún færði mönnum heim sanninn um
ágæti hans sem skáldsagnahöfundar. Hann vann að sögunni öllum lausum
stundum í fjögur ár og var eitt þeirra í leyfi frá kennslustörfum. Handrit
Stefáns að sögunni eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns.15 Af þeim
sést að hann hefur skrifað margar gerðir af sögunni, flestar af síðasta hluta
hennar og breytt bæði efnisþræði og frásagnaraðferð. Sagan er í þremur hlut-
um og hugmynd Stefáns var að hún kæmi út í þremur bindum en útgefendur
réðu því að sagan kom út í einu bindi, tæplega 600 síður.
Efnislegir burðarásar sögunnar eru tveir. Sagan er þroskasaga Snorra
Péturssonar, sagan af baráttu hans við það sem býr í hans eigin hugskoti, við
að greiða úr sálarflækjum sínum sem rót eiga að rekja til uppeldisáhrifa. En
viðfangsefni sögunnar eru einnig átökin í íslenskum stjórnmálum um og eftir
1930, lífið í íslenskri sveit fram að þeim tíma og Reykjavíkurlífið á fjórða
áratugnum.
Fyrsti hlutinn, bernsku- og æskusaga Snorra gerist í borgfirskri sveit á
árunum fyrir 1930. Sögusvið tveggja seinni hlutanna er Reykjavík kreppuár-
anna.
Sagan er skrifuð í þriðju persónu en sjónarhornið er þó lengst af hjá aðal-
söguhetjunni, Snorra. Persónur og atburðir sögunnar eru séðir með hans
augum. Stöku sinnum heyrist þó rödd annars sögumanns sem gægist yfir öxl
Snorra og dæmir atburði sögunnar, og þá fyrst og fremst orð og gerðir hans
sjálfs, af dýpra skilningi en Snorri hefur yfir að ráða:
Hann vissi ekki, að svo góð, sem hún varð í frásögn hans, gat enginn verið.16
Hið neikvæða varð jákvætt og hljómaði í eyrum Snorra sem lofsöngur um þennan
furðulega mann. Ekki kom honum til hugar, að til þess hefði verið ætlazt.17
Sögumaður kemur nokkrum sinnum fram í fyrsta hluta sögunnar en er fyr-
irferðarmestur í öðrum hluta. í þriðja hluta gætir hans lítið. Þetta er í samræmi
við gang sögunnar og þroskaferil Snorra. í öðrum hluta eru umbrotin í sál