Andvari - 01.01.2006, Síða 134
132
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
meir á hug hans. Ófelía lætur hafa sig í að njósna um hug Hamlets og gengur
það til sem þeir faðir hennar og kóngur hafa að yfirskini, að komast fyrir um
angur prinsins. Það ærir Hamlet og uppfrá því skilur hún ekki hans látæði.
Loks verður það henni um megn.
Hóras er dreginn fáum en skýrum dráttum. Hann er tryggðatröll og hand-
genginn Hamlet frá fornu fari, leikfélagi fyrst, svo skólafélagi. Hann er jarð-
bundnari en prinsinn og minna gefinn fyrir heilabrot. Segja má að hann sé
akkerið í lífi Hamlets, Hórasi getur hann opnað hug sinn í stað þess að allt
slái inn og hann missi vitið í alvöru. Hóras er að sumu leyti fulltrúi áhorfenda,
hann sér leikinn að utan um leið og hann er þátttakandi í honum; því er það
hann sem getur dregið lærdómana nær leikslokum.
Rósinkranz og Gullinstjarni eru uppar og tækifærissinnar. Þeir eru eitthvað
eldri en Hamlet og hann hefur sennilega litið upp til þeirra sem foringja í leik-
um forðum tíð. Kóngur vill notfæra sér það. Þeir hafa væntanlega ekki verið í
innsta valdahringnum hjá Hamlet eldra, né þeirra forfeður; þeir eru að vinna
sig í álit. Viðbrögð þeirra eru blanda af framhleypni og þrælslund.
Leikarinn og félagar hans eru umfram allt listamenn: vanda sig til verka og
gera heilshugar að vilja Hamlets sem sýnir merkilegan skilning á sálarheimi
leiksviðsins og iðkenda þess. Leikararnir gera enga tilraun til að láta leikinn
líta „eðlilega“ út, þeir eru hégómlegir og mannlegir utansviðs og vilja vekja
athygli, en þegar komið er út í leikinn sjálfan, búa þeir yfir hæfni til að skapa
nýjan listrænan sannleik. Út af Hekúbu!
Ósrik er enn einn fuglinn sem er að vinna sig í álit. Hann er vel heima í
formsatriðum og hinum ytri hirðsiðum, en hlálegur heigull, þegar hann mætir
líkamlegri ógn eða vitsmunalegri ögrun.
Grafarinn er andríkur heimspekingur. Hold er mold.
Fortinbras er herforingi. Forsaga er að öllu hernaðarbrölti leiksins. Hamlet
eldri og Noregskonungur faðir Fortinbrass höfðu eldað grátt silfur og Hamlet
haft betur í þeim erjum. Nú er Fortinbras kominn á stúfana og heimtar aftur
þær lendur sem Danakonungur hafði unnið. Noregskonungur er nú „farlama
kararfauskur“ eins og Kládíus orðar það, frændi Fortinbrass. Honum skrifar
Kládíus og hvetur hann að taka í taumana og sendir með bréfið tvo dygga
hirðmenn til að fylgja efni þess eftir. Þegar við svo kynnumst Fortinbrasi,
er hann ekki sá herskái landaskelfir sem Kládíus hafði brugðið upp mynd
af; hann hefur beðið náðarsamlegast um leyfi til að fara yfir land Dana í átt