Andvari - 01.01.2006, Side 171
ANDVARI
GÖFUGUR OG STÓRBROTINN MAÐUR
169
sig þó báðir hlutlæga. Öllu hófstilltari í framsetningu eru Árni Pálsson og
Davíð Oddsson en þó sannfærðir Hannesarmenn.
Davíð Oddsson er raunar ekki eini forsætisráðherra Islands sem hefur sett
saman grein um Hannes Hafstein. Bjarni Benediktsson (1908-1970) minntist
Hannesar á aldarafmæli hans árið 1961 og er sú grein fróðleg, ekki síst þar
sem Bjarni var í þversagnakenndri stöðu. Hann var á sinn hátt stjórnmála-
legur arftaki Hannesar þar sem íslenskir hægrimenn hafa einkum haldið
honum á lofti. Á hinn bóginn var hann sonur Benedikts Sveinssonar sem var
einn gallharðasti andstæðingur uppkastsins og Hannesar alla tíð. Bjarni lýsir
enda í grein sinni löngun til að líta Hannes „hlutlausum augum, ekki skoða
hann sem goð á stalli, heldur mann sem barðist harðri baráttu, þar sem rök
mátti færa á báða bóga, og meta síðan, hver staða hans er meðal íslenzkra
stjórnmálamanna á þessari öld“.49 Segja má því að Bjarni Benediktsson sé
undanfari Guðjóns en arftaki Þorsteins Gíslasonar í yfirvegaðri sagnaritun
um Hannes Hafstein.
Þrátt fyrir þessa ætlun Bjarna er greinilegt að hann tekur goðsögnina um
Hannes Hafstein að flestu leyti gilda. í grein hans má finna lykilorð eins og
karlmennska, röskleiki og glœsibragur. Annars hefur hann einkum áhuga
á verklegum framkvæmdum hans, réttarbótum og mikilli löggjöf almennt.
Niðurstaða Bjarna er að Hannes hafi haft ótvíræða foringjahæfileika, verið
fljótur til ákvarðana en um leið fastur fyrir og óvæginn. Glæsileiki hans hafi
skipt miklu í því samhengi.50 Bjarni er ekki jafn sannfærður um það og aðrir
að Hannes hafi alltaf haft málstaðinn sín megin en andstæðingarnir aldrei. Þó
telur Bjarni að Hannes hafi náð miklum árangri og meiri en aðrir leiðtogar
sjálfstæðisbaráttunnar frá dögum Jóns Sigurðssonar, einkum í því að fá Dani
til að fallast á aukinn rétt Islendinga.
Sú mynd sem Bjarni dregur upp af Hannesi er í góðu samræmi við skrif t.d.
Kristjáns Albertssonar. Rökstuðningur hans hefur þó meiri sannfæringarkraft
en aðdáunarskrifin þar sem hann afgreiðir ekki andstæðinga Hannesar sem
öfundarmenn eða kjána. Grein Bjarna er best heppnaða lofgreinin um Hannes
Hafstein einmitt vegna þess að hún er rituð af mestri sanngirni í garð annarra
stjórnmálamanna heimastjórnartímabilsins.
Fimm binda ritröð Þorsteins Thorarensen (f. 1927) um heimastjórnartíma-
bilið er nokkuð á skjön við flestöll önnur skrif sem hér hafa verið rædd
enda skrifuð í skemmtilega óhátíðlegum stíl. Hún náði talsverðri hylli meðal
almennra lesenda á sínum tíma enda Þorsteinn fimur penni. Aldrei naut hann
sömu viðurkenningar meðal sagnfræðinga eða í bókmenntastofnuninni og
Guðjóni Friðrikssyni hlotnaðist síðar, ef til vill vegna léttúðar sinnar og vegna
þess að hann hirti lítt um að geta heimilda. Sem frásagnarsagnfræði eru hins
vegar bækur hans prýðisvel heppnaðar.
Skrif Þorsteins um Hannes Hafstein eru ekki í minningargreinastíl. Hann