Andvari - 01.01.2006, Síða 174
172
ÁRMANN JAKOBSSON
ANDVARI
meira til um hann en aðra menn. Óvenjuleg glæsimennska réð miklu um, en hann
skorti ekki heldur hörku, þegar á þurfti að halda. Hannes hafði umfram allt þor og vilja,
hæfileikann til að taka ákvörðun og dug til að fylgja henni fram, þótt á móti blési. Hann
ávann sér traust þeirra, sem hann hafði samskipti við ...58
Bjarni var sjálfur ekki orðlagður fyrir glæsimennsku en að öðru leyti er engu
líkara en honum sjálfum sé lýst: foringjahæfileikar, aðdáun fylgismannanna,
harka, þor, vilji, hæfileiki til að taka ákvörðun, dugur til að standa fast með
henni, traust í samskiptum.
Hjá Sigurði A. Magnússyni verður Hannes hetja úr klassískum harm-
leik. Þó að hann hafi verið yfirburðamaður í stjórnmálum hafi skáldið orðið
stjórnmálamanninum yfirsterkara: „skáldlegt næmi hans og þau heilindi sem
mörgum skáldum eru eiginleg gerðu honum óljúft og jafnvel ófært að eiga
náið samneyti við eða gengi sitt undir smásálum sem fyrst og fremst sköruðu
eld að eigin köku eða létu stjórnast af persónulegum metnaði framar öðru“.59
Þessi Hannes og sá sem Bjarni lýsir eru næstum jafn ólíkir og sagnaritararnir
sjálfir.
Davíð Oddsson lýsir manni sem ólst upp við gott atlæti og átti þó erfitt
vegna föður sem átti við vanda að stríða. Þó að Hannes læri lög í háskóla
eru þau honum ekki að skapi og hann verður „lagatossi“. Davíð lýsir Hannesi
svo þegar hann verður ráðherra, raunar á sama aldri og Davíð varð sjálfur
forsætisráðherra: „Hannes gengur til hins nýja starfs eftirvæntingarfullur og
kappsamur þótt hann kunni sér hóf. Hann er tilfinningaríkur og örgeðja en
stillir sig oftast vel og þolir ódrengilegar árásir úr launsátri betur en vænta
mætti“.60 Hannes Davíðs Oddssonar er þannig kappsamur, tilfinningaríkur
og örgeðja. Hannes Sigurðar A. Magnússonar er heilsteypt og næmt skáld.
Hannes Bjarna Benediktssonar er viljasterkur og fastur foringi. Hannes
Tómasar Guðmundssonar er eins og útlagi í stríðum straumi öfga úr báðum
áttum. Hannes Bernharðs Stefánssonar er frjálslyndur umbótamaður.
Þannig hefur sagnaritun um Hannes Hafstein ekki verið jafn einsleit og
ætla mætti í fljótu bragði. Hannes Hafstein er alltaf sama karlmennið og
glæsimennið, foringinn sem hrífur alla með sér og kemur miklu í verk. En
þar fyrir utan má túlka hann á marga vegu og iðulega eru Hannesi eignaðir
þeir eiginleikar sem sagnaritaranum sjálfum finnast mest um verðir. Er það
sjálfsagt ekki einsdæmi í ævisögum.
V
Nú er rétt að víkja sögunni aftur að Guðjóni Friðrikssyni og hinni nýju bók
hans. Eg elska þig stormur verður að teljast mikilvægt framlag til sögu heima-
stjórnartímabilsins og verður að hafa í huga að þegar eru komnar út mjög