Rauðir pennar - 07.12.1935, Page 9
Og bylgjan hófst, svo stolt og sterk og há,
og steyptist yfir hraun og tindafjöll.
Um allar byggðir flæddi formlaus þrá,
— hún flaug sem eldur, rauk sem vetrarmjöll.
Og kallið glumdi forsetanum frá,
sem fylkti nýju liði á gamlan völl. —
Ó, frelsi, frelsi! þaut í þaki og skjá
og þjóðin söng í fyrsta skipti öll.
Og landið stórra vona, fagurt, frítt,
í faðmi ríkum vernd og gæði bauð.
Menn urðu hissa: Hér var nóg um auð,
því hafið, moldin, — allt var ferskt og nýtt.
Og vöxtur lífsins hljóp í karl og kot,
en kóngsins mekt var rekin heim í slot.
— Hver heiðabóndi færði sína fórn,
unz fyrsti sigur náðist, — íslenzk stjórn.
Og borg var smíðuð, — bæir risu á strönd
og bentu í fjarskann — þar var menning heims.
Og skrautleg hafskip lögðu út í lönd
og loftið skalf við töfra málms og eims.
Og daladrengir hurfu í órann yzt
og eldinn sóttu, nýja mennt og list,
og heima á Fróni hlógu brjóstin þá,
því hér var svalað margra alda þrá.
Ó, sjá! Þeir bundu í strigann lífsins lit,
í línur málsins tímans þunga straum,
í tónastrenginn storm og vængjaþyt,
í steininn sjálfan vorsins ástardraum. —
Nú varð hann, kotungsniðjinn, sigursæll.
Nú sást það bezt: Hann var ei Iengur þræll.