Rauðir pennar - 07.12.1935, Page 10
Ó, frelsi, frelsi! Hversu örðugt er
að yfirfæra rétt þitt dýra pund
og vaka yfir veg þess alla stund,
unz veitist hverjum það, sem honum ber.
Því ef það hóf, sem tryggir tilgang þinn,
af tönn og kló hins sterka er lítilsvirt,
og Grótti fær að leika laus um sinn,
er lítt um óskir bróðurþelsins hirt.
Sé tæknin öll af gróðans jötnum gleypt,
er glatað vopnið sjálft úr starfsins hönd,
og þjóðin hefir hlekki í sekknum keypt,
— hin heimaunnu, gullnu þrælabönd.
En slíka leið vor unga framsókn fór,
— hinn frjálsi vegur reyndist allt of mjór.
Er bolmagn nóg var fengið, fannst það brátt,
að fleiri en Danir kunnu að leika grátt.
Með lagavernd var rekið arðsins rán,
unz ráðin brugðust — þá var tekið lán.
Á bóndans viðreisn lagðist kreppukross,
— við kvíðann slóst hann, þögull eins og steinn.
En börnin flýðu. Eftir stóð hann, einn,
— í okurvexti týndust fé og hross.
Og verkamaður, frjórrar sveitar son,
í sultarkengnum stóð á borgarmöl
og beið þar svars í lítillátri von,
og loksins kom það, — engin vinna föl!
Og blikan óx við bleika sjónarrönd,
— hið brezka lán það reyndist ólán hér.
Og bankastjóri lagði út í lönd
með ljóta sögu um fjarlægt hungursker . . .
Og Hambro mælti: Þú skalt þjóna mér!
Og því var játað — fyrir íslands hönd.
10