Vaka - 01.11.1928, Side 113
Lvaka] FERÐABRÉF. 367
drauminum, og sú und varð aldrei bundin. Eftir það
naut hann ekki ástar hennar. En þegar hann stóð á
stúfinn, löngu seinna, í snjónum uppi á Kili, og horfði
á Gunnlaug, hvar hann kom með vatn í hjálmi s'ínum,
þá sá hann þó ekki það, sem hann horfði á; hann sá
Helgu, unga og fagra, hvítklædda í rekkjunni, grátandi
beizklega af ást til annars manns. Þá rétti Hrafn vinstri
höndina eftir svaladrykknum, en hjó hinni hægri.
Þegar hallar vestur af, verður landið naktara. Hér
blása hrákaldir vestanvindar, og þeir eru öllum gróðri
lakari en staðviðrin, þó að vetrarkuldi sé, en einkum
skóginum. Hér er kræklubjörk, útslitin og uppgefin á
að halda sér beinni undir heljarfargi áfreðans.
Svíar eiga hér land langt vestur fyrir vatnaskil. Það
er mikið farið að halla vestur af, þegar kemur að
síðustu sænsku stöðinni, Stóruhlíð. Þar stendnr norsk
lest á teinunum til þess að taka við okkur. Norðmenn
koma hér og tala til okkar á sinni hvellu, snöggorðu
tungu. Það hlymur í norskunni, eins og sverð ríði að
stálhjálmum. Það er silfurhreimur í sænskunni, eins
og hún er fegurst töluð, en í norskunni er stál og
sverðaldiður.
Ég færði pjönkur mínar inn í norsku lestina, sem
þarna beið, og valdi mér sæti úti við gluggann í einum
klefanum. Það er engin ös. Ég sá engan samferðamann.
En vagninn er gamall og Ijótur og óþægilegur. Það
hattar alstaðar fyrir við landamæri Noregs og Svíþjóð-
ar. Noregsmegin er allt frumbýlingslegra og lakara, en
þó eins dýrt eða vel það.
Ung kona, móeyg og dökkhærð, kom inn i vagn-
klefann og settist á móti mér. Ég var búinn að sitja
einsamall með hugsanir mínar allan morguninn, og
mér var yndi að því að sjá laglega konu. Hún sat gegnt
mér og lézt ekki sjá mig, eins og góðir siðir bjóða. En
lestin rann á stað, og við vorum tvö ein i klefanum.