Menntamál - 01.12.1958, Page 36
88
MENNTAMÁL
skólans og tilhögun. Hversu víStækar eða gagngerar þær
breytingar verða, er ekki hægt að segja að svo stöddu.
En þær eru óhjákvæmilegar. Breytt viðhorf og breyttar
þarfir krefjast þeirra. Og svo mun alltaf verða. Það er
skólanum lífsskilyrði, að hann hafi svigrúm og sveigjan-
leika til þess að laga sig alltaf eftir kröfum tímans, að
hann verði aldrei felldur í stokk vanans og kyrrstöðunnar,
sem hamlar vexti hans og viðgangi.
Það er lítill vandi að halda öllu í gamla horfinu. En
það þarf bæði vit og víðsýni og framsýni til þess að breyta
um stefnu, án þess að leiðast afvega.
Það er því ósk mín skólanum til handa í framtíðinni,
að þeir, sem ráðum hans ráða, geri það af forsjá og fyrir-
hyggju og fullum skilningi á því hlutverki, sem hann á að
gegna og hvernig það má sem bezt og farsællegast af hönd-
um inna.
Ég óska skólanum þess, að mannleg máttarvöld verði
honum ávallt hliðholl og styðji hann í þjóðnýtu starfi.
Til þess heiti ég á alla til einhuga samvinnu, forráða
menn hans, kennara hans og nemendur. Við höfum í því
efni ekki eftir neinu að bíða. Við getum sýnt það strax
með starfi okkar nú í vetur, að okkur sé það full alvara
að vinna saman að öllu því, sem skólanum má til velfarn-
aðar verða, enda þótt við verðum enn um sinn að búa
við þau kröppu kjör, sem flestum eða öllum framförum
hamla.
En fullvel veit ég það, að allri mannlegri viðleitni eru
takmörk sett, mannlegur vilji er hvorki einráður né al-
ráður, öll mannleg ráð geta brugðizt til beggja vona.
„Mannsins hjarta upphugsar veg hans, en Drottinn stýrir
gangi hans.“ Sá ævaforni sannleikur er enn í fullu gildi.
Enn sem fyrr er okkur dauðlegum mönnum hin fyllsta
þörf og brýnasta nauðsyn að leita trausts og styrks til
þeirra máttarvalda, sem ofar eru og æðri öllum mannleg-
um mætti, allri mannlegri viðleitni og fyrirætlun.