Menntamál - 01.12.1958, Page 37
MENNTAMÁL
89
Því vil ég nú að lokum fela allar framtíðaróskir í þeirri
einu ósk og bæn, að guð megi enn sem jafnan áður halda
sinni almáttugu verndarhendi yfir þessum skóla og blessa
starf hans allt í þágu lands og þjóðar á komandi tímum.
Með þeirri afmælisósk segi ég Kennaraskólann settan
í fimmtugasta sinn.
Ræða Gylfa Þ. Gíslasonar mennta-
málaráðherra.
Á hálfrar aldar afmæli Kennaraskóla íslands er mér
það mikil ánægja að flytja skólanum, skólastjóra hans,
kennurum og nemendum hugheilar árnaðaróskir og kærar
þakkir fyrir hið mikla menningarstarf, sem hann hefur
unnið, fyrir hina dýrmætu þjónustu, sem hann hefur innt
af hendi í þágu þjóðarinnar í fimm áratugi, þau fimmtíu
ár, þegar framsókn þjóðarinnar hefur orðið hröðust í
sögu hennar. Ég minnist með sérstakri ánægju afbragðs-
mannsins, sem fyrstur valdist til þess að stýra þessum
skóla, séra Magnúsar Helgasonar. 1 hálfa öld hefur skól-
inn búið að vitsmunum hans og mannkostum, og ég vona,
að hann geri það um alla framtíð. Mér er líka ljúft að
geta af heilum hug þakkað eftirmanni séra Magnúsar
Helgasonar, núverandi skólastjóra, Freysteini Gunnars-
syni, ágætt starf hans. Það var mikils virði fyrir skólann
og íslenzka kennarastétt, að í fótspor séra Magnúsar
skyldi feta maður, sem einnig var í blóð borið það, sem
bezt er í íslenzkri menningu, og reynzt hefur vammlaus og
vítalaus í orðum sínum og gerðum.