Menntamál - 01.12.1958, Side 40
92
MENNTAMÁL
í hinum menntaskóladeildunum. Ég skal láta ósagt, hvort
hægt væri að láta þá menntun, sem slíkt stúdentspróf
veitti, vera jafnframt nægilega sérhæfða til þess að geta
veitt almenn kennararéttindi eða hvort nauðsynlegt væri
að krefjast einhverrar viðbótar til kennaraprófs. En þetta
nýja stúdentspróf ætti að veita aðgang að háskólum með
sama hætti og hin eldri, og jafnframt ætti þá að endur-
skipuleggja menntun framhaldsskólakennara í Háskóla fs-
lands og skapa skilyrði til framhaldsmenntunar barna- og
unglingakennara í háskólanum, enda hefðu þeir þá allir
almennt stúdentspróf. Kostur þessarar nýskipunar yrði sá,
að menntun allra kennara ykist, þar eð krafizt yrði a.
m. k. stúdentsprófs af þeim öllum, — jafnframt því, sem
menn búa sig undir kennarastarf, öðlast menn réttindi til
háskólanáms og geta horfið að því, ef hugurinn hneigist
fremur í þá átt með auknu námi, og síðast en ekki sízt:
Það er hægt að koma menntun framhaldsskólakennara og
framhaldsmenntun almennra kennara í eðlilegt samband
við sjálfa kennaramenntunina.
Sú rödd hefur heyrzt, að með þessu móti yrði gildi
stúdentsmenntunar rýrt. Sú hugsun virðist liggja að baki,
að gildi prófs hljóti að hraka, eftir því sem fleiri ganga
undir það. Ef eitthvað væri til í þessu, ætti stúdentspróf
hjá stórþjóðum að vera talsvert ómerkilegra en hjá smá-
þjóðum. Sannleikurinn er auðvitað sá, að gildi prófs fer
ekki eftir þeim fjölda, sem stundar nám undir það, held-
ur eftir þeim kröfum, sem gerðar eru, og mér hefur aldrei
komið til hugar, að gera ætti minni kröfu til menntunar
í þeirri nýju tegund stúdentsnáms, sem ég hef rætt um
og miðað yrði við þarfir kennara, en nú er gert í hinum
öðrum þrem tegundum stúdentsnáms.
Nefnd, sem nú um þessar mundir starfar að athugun
á fræðslumálum þjóðarinnar, hefur m. a. verið falið að
fjalla um þetta mál. Það er einlæg von mín, að breytingar
í þessa átt nái fram að ganga, því að ég er viss um, að