Menntamál - 01.12.1958, Page 46
98
MENNTAMÁL
vögnum og ljósavitum rafstýrt frá sérstöku mælaborði.
Vagnar námu staðar við rauð ljós eða viku inn á hliðarspor
með slíkri nákvæmni, að undrun vekur þeim, er ekkert
þekkja til slíkrar starfsemi.
Fjölbreytni þessa viðfangsefnis virðast engin takmörk
sett. Leggja þarf nýjar brautir, byggja ný hús og nýja
vagna, fjölga eða breyta ljósavitum, breyta landslagi,
byggja nýjar brýr og grafa jarðgöng — og er þá margt
ótalið.
í tómstundaheimilum eru oft myndaðir smáhópar utan
um slíka starfsemi, er bera sameiginlega kostnaðinn, en
verkum er skipt eftir hæfileikum og getu einstaklinganna.
Tómstundaheimilin greiða oft fyrir efniviðinn gegn því
að verkið sé eign heimilanna og geymt þar.
Já, þannig voru margar greinar tómstundaiðju sýndar
í verki. Og væri eigi gerlegt — á handavinnusýningum
skólanna — að kynna handavinnu í verki, þeim eldri til
fróðleiks, en þeim yngri til hvatningar?
Uppsetningu verkstæða og störf á þeim önnuðust hópar
æskufólks frá ýmsum tómstundaheimilum og klúbbum,
sem eru í tveim landssamböndum: „Ungdomsringen" og
„Landsforeningen af Ungdomsklubber.“
Á veggjum tveggja vinnustofa var letrað stórum stöf-
um P.U.K. Við spurningu minni um þýðingu stafanna,
fékk ég þetta svar: Politiets Ungdoms Klubber. Forvitni
mín var vakin. Hver var upphafsmaður þeirrar nýjungar,
að lögreglan færi að reka á eigin reikning tómstunda
og æskulýðsheimili ?
Maðurinn heitir Svend Gredsted og er lögregluerindreki
og lögfræðingur að menntun. Var um árabil kennari við
lögregluskólann í Höfn. Eldheitur æskulýðsleiðtogi, ósér-
hlífinn og sístarfandi að málefnum æskunnar. Undir hand-
leiðslu Gredsteds skoðaði ég betur vinnustofur P.U.K. á
sýningunni og síðar tómstundaheimilin á Vesterbro og
Nörrebro.