Heima er bezt - 01.12.1965, Blaðsíða 16

Heima er bezt - 01.12.1965, Blaðsíða 16
öld, og kann þá margt að hafa skolast og sumt tekið á sig þjóðsagna-blæ, þótt jafnan megi grilla í kjarnann. Var það happaverk að skrá þessar sögur þá, því að heita má að það sé hið eina, sem vitað er um Eyvind á heimaslóðum, ásamt því er Þorsteinn Þorsteinsson smið- ur frá Upsum hefir að nokkru rakið. Saga er til af Eyvindi ungum, í baðstofunni í Sauða- koti eða á Karlsá. Þar starir hann soltnum augum á sauðarlegg, sem faðir hans hafði hengt upp í rjáfur baðstofunnar og enginn mátti snerta á Föstunni. Ekki gat hann náð til leggsins, þótt hann dauðlangaði til þess. En ráðalaus dó hann ekki þótt ungur væri. Hann smíð- ar sér egghvassa ör, tekur bogann sinn og skýtur sund- ur bandið, sem hélt kjötleggnum uppi, svo að hann féll niður og í höfuð föður hans og meiddi hann eitthvað.En karl snerist þannig við, að hann hendir leggnum í haus Eyvindar, svo að hann hálf féll við, og kvað fara bezt á því að hann hefði hann svo þokkalega sem hann væri að honum kominn. Hafði Eyvindur þannig sitt fram, þótt ekki væri með góðu, og mun svo oftar hafa verið. Önnur saga er til um það, hvernig faðir Eyvindar snerist við framtakssemi og vaknandi verkkunnáttu og snilli sonar síns. Hefir Eyvind sjálfsagt sárlangað til að fá að reyna sig við smíðar, sem faðir hans vann mjög að. Og þar kölluðu meðfæddir hæfileikar hann til verks. En líklega hefir faðir hans lítið kært sig um vinnu hans hjá sér, enda Eyvindur ungur þá. Hann tekur sig þá til og býr um sig í skógarrjóðri einu, sem enn var þá í Karlsárhlíð, og felur vandlega smíðastöð sína þar. Og þarna smíðar hann bát við sitt hæfi, hnuplar efni frá föður sínum, smíðar sjálfur sauminn í smiðjunni heima, en fer að öllu svo laumulega að faðir hans kemst ekki að því hvað hann hefst að. Og svo er það einn daginn, er faðir hans stendur við smíðar við Karlsárnaust, að hann sér bátkríli koma þar utan með fjörunni, rær því einn maður og ekki stór- vaxinn. Er þar kominn Eyvindur sonur hans á nýja bátnum, er hann hafði smíðað á laun í skóginum. Verð- ur karl fár við, starir um stund á þessa frumsmíð sonar síns og ekki hýr á svip. Og í staðinn fyrir að gleðjast yfir þessu framtaki drengsins, sem birti ótvíræða hæfi- leika hans, mölbrýtur hann þessa frumsmíð fyrir aug- um Eyvindar með þeim ummælum, að ekki skuli hann drepa sig á slíkri fleytu. En Eyvindur varð að lötra heim sárhryggur og reiður. Þannig mun fátt hafa orðið til þess að milda hrjúft hugarfar og örva til drengilegra samskipta. Innan við tvítugsaldur er Eyvindur orðinn formaður á fiskibát föður síns, sækir fast sjóinn og þykir aflasæll, fífldjarfur og einráður, en sækist mjög eftir ungum há- setum. Stoðar ekki þótt faðir hans áminni hann um meiri gætni. Þvert á móti virðist hann hafa yndi af að storka honum og ganga fram af honum. Er um slíkt saga ein, sem lifað hefir á vörum Svarfdæla fram til síðustu tíma og Þorsteinn Þorsteinsson hefir skráð. Hún er um það, er Karlsárbáturinn hreppti foraðsveður og stórbrim í sjóferð einni, og Eyvindi þótti ólendandi við Karlsárnaust, sem það og líka var, en ætlaði inn að Hóls- naustum, sem eru skammt innar, og er betri vör. En er hann sér föður sinn koma skálmandi ofan frá bænum og gefa merki um að ólendandi sé, þolir hann ekki þá að- vörun. Hann skipar mönnum sínum, nauðugum þó, að snúa við og upp í brimgarðinn við Karlsárnaust, hvað sem tautar. Og með lagi og harðfylgi tókst honum að koma mönnum lifandi á land og báti lítið brotnum. En svo mjög gekk þá fram af karli föður hans, að mælt var að hann hefði aldrei síðar skipt sér af tiltektum Eyvind- ar, hverju sem fram fór. En þótt svo væri, að Eyvindur þætti einráður og léti engan segja sér fyrir verkum, má þó ætla að þeir feðgar hafi unnið saman við bátasmíðar á unglingsárum Ey- vindar og að hann hafi eitt og annað af föður sínum numið í þeirri grein, þótt hann yrði þar slyngari og stigi feti framar. Og líklega hefir Eyvindur orðið að mestu einn um þessa skipasmíði á Karlsá er að aldamótunum kom og heilsu föður hans tók að hnigna. Kemur það þá líka brátt í ljós, að skipin stækka sem Eyvindur smíð- ar og allt mjög miðað við ganghraðann, bæði skipslagið og seglbúnaður. Eitt þeirra var áttróinn knör, mikill og 'násigldur, sem búinn er til hákarlaveiða. Honum stýr- ir Eyvindur sjálfur með úrvalskempum af yngri kyn- slóðinni, sækir sjóinn af kappi og þykir fara óvarlega. Spannst um þetta skip sú saga, að eitt sinn er það var að veiðum á hafi úti og illviðri gerði og stórsjó, hafi hvalfiskur lagt að því í þann mund að upp var dregið segl og menn komnir undir árar. Hófst nú æðisgeng- inn flótti undan illhvelinu, sem elti stípið, albúið að granda því. En svo hraðskreiður var þessi knör Eyvind- ar að hann komst heilu og höldnu í Karlsárvör, en hval- fiskurinn sprakk af mæði við Sauðanes! Þótti slíkt vissu- lega í frásögur færandi. Nefndi Eyvindur skip þetta „Hafrenning" af þessu tilefni, og hétu svo sum stíp við Eyjafjörð á 19. öld, og eflaust til lofsællar minningar um þessa frægu fleytu Eyvindar duggusmiðs. Tóku nú að ganga miklar sögur af athafnasemi Ey- vindar og skipasmíðum hans. Má ætla að margir hafi viljað eignast bát úr höndum hans og sennilega all marg- ir átt þess kost. Hins vegar þurfti enginn að ætla sér að hann smíðaði bát, sem næði meiri hraða en Karlsárbát- urinn! Hann skyldi þó jafnan vera fremstur, hvað sem tautaði. Og í því sambandi er sagan um Arnamesbátinn sögð. Þar hefir búið bóndi, sem líklega hefir illa unað því að Karlsárbáturinn skyldi eiga hraðametið. Biður hann Eyvind að smíða fyrir sig bát, sem sé að öllu vel búinn og um fram allt svo hraðskreiður að enginn bát- ur við Eyjafjörð komist til jafns við hann. Mun bóndi að sjálfsögðu hafa heitið því, að smíðalaunin skyldu ekki við nögl skorin, ef vel tækist, og skipið af líkri gerð og Hafrenningur. Þessu lofar Eyvindur, en þó með því skilyrði, að slíkt skip freisti þess aldrei að reyna kappróður við Haf- renning sinn, og heitir bóndi því. 440 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.