Heima er bezt - 01.12.1965, Blaðsíða 46
HEIMA_______________
BEZT BÓKAH 1 LLAN
Skáldið frá Fagraskógi. Reykjavík 1965. Kvöldvöku-
litgáfan.
í bók þessa er safnað 17 minningargreinum um Davíð Stefáns-
son, sem vinir hans hafa um hann skráð. Davíð var svo sérstæður
persónuleiki fyrir utan skáldskap sinn, að maðurinn ekki síður en
skáldið hlýtur að verða hugstæður, hverjum sem kynntist honum
og því meir sem kynnin voru nánari. Vinsældir skáldsins með
þjóðinni eru slíkar, að vafalítið verður þessum minningaþáttum
tekið með fögnuði. Margir munu hugsa til þess, hvílíkur fengur
það hefði verið, ef safnað hefði verið til slíkra bóka um aðra ást-
megi þjóðarinnar, meðan minningin um þá var fersk og fátt
gleymt frá samverustundunum við þá. Annars gildir það sama um
þessa bók sem aðrar, sem líkt er til stofnað, að frásagnirnar verða
misjafnar og sundurleitar, bæði að efni og meðferð, og stundum
er hætt við, að þær fái nokkurn keim af glansmyndum. En allt um
það eru greinarnar allar betur skráðar en óskráðar, og að sumum
þeirra er mikill fengur til skilnings á skáldinu og manninum, og
þess vegna mun bók þessi geymast í bókmenntunum. Beztar grein-
anna þykja mér greinar þeirra Björns O. Björnssonar, Huldu Á.
Stefánsdóttur og Ríkharðs Jónssonar. Góður fengur er i bréfköfl-
um þeim frá Davíð, sem Sigurður Nordal birtir, og hefðu margir
kosið meira af því tæi. Skemmtileg er hin litla og látlausa grein
Helgu Valtýsdóttur, og þær fáu setningar, sem hún hermir þar
eftir Davíð, segja meira um hann en langar greinar. Bókin er af-
burðafallega út gefin, og verður því bæði að efni og útliti metfé
þeirra, sem bókum unna og mundi Davíð hafa kunnað því vel.
Þeir Arni Kristjánsson og Andrés Björnsson hafa séð um útgáfuna.
Villa Gather: Hún Antonía mín. Reykjavík 1965.
Almenna bókafélagið.
Saga þessi lýsir lífi landnema vestur í Nebraska. Þótt sögusviðið
sé oss fjarlægt, og tíminn löngu liðinn, sagan er frá síðustu áratug-
um 19. aldar, þá snertir hún samt taugar vorar, því að ýmislegt
líkt gæti hafa hent íslenzku landnemana, sem voru að flytjast til
Ameríku um þær sömu mundir. Sagan er í senn raunsæ og róman-
tísk. Viðhorf unglinganna, sem eru aðalsöguhetjurnar, eru sxendur-
tekin vandamál mannlegs lífs. Sagan er því góður lestur bæði
gömlum og ungum. Þýðandinn er sr. Friðrik A. Friðriksson, og
hafa kynni hans af lífi landnemanna vestra gert honum kleift að
gera frásögnina lífrænni en ella.
Guðinundur Daníelsson: Þjóð í önn. Reykjavík 1965.
ísafoldarprentsmiðja h.f.
Þetta er þriðja bindið af viðtalsþáttum Guðmundar Daníelsson-
ar, sem hann endurprentar úr blaði sínu Suðurlandi. Fylgir þessu
bindi nafnaskrá yfir öll bindin þrjú, og er að því góður bókar-
auki. Eins og í fyrri viðtalsbókunum ræðir höf. þar við fólk úr
hinum ólíkustu störfum og stéttum og af misjöfnum aldri. All-
flestir eru viðmælendur hans þó úr Árnessýslu. En það, hve víða
er leitað til fanga, gerir þessar viðtalsbækur lífrænar bókmenntir.
Höfundi tekst að bregða þar upp svipmyndum úr íslenzku þjóð-
lífi, bæði samtíðar og liðins tíma, sumt af því er nú flestum gleymt
og annað er óðum á förum, og eru myndir þær því betur geymdar
hér en ekki. Þá kynnir hann lesendum smáþætti úr örlögum og
sögu einstaklinga og bregður upp mörgum furðu skýrum mannlýs-
ingum i stuttu máli. Hinu er hins vegar ekki að neita, að mörg
viðtölin eru hvert öðru lík, og sum þeirra fremur efnislítil. Hefði
höfundur að skaðlausu getað haft bókina nokkru styttri.
Þá er ísafoldarprentsmiðja nú að gefa út heildarsafn af skáldrit-
um Guðmundar Daníelssonar, og er þriðja bindið, Ilmur daganna
nú nýlega komið út. Er ekki að efa að þessar sögur höf. frá yngri
árum hans muni njóta vinsælda, því að á þeim öllum er ferskur
blær, og höfundur hefur fágað frásögnina í hinni nýju útgáfu.
Halldór Laxness: Upphaf mannúðarstefnu. Reykjavík
1965. Helgafell.
Nóbelsskáldið hefur safnað hér á bók ýmsum greinum, sem það
hefur skrifað á síðustu árum. Margar þeirra eru skrifaðar fyrir er-
lend blöð og tímarit, sem sækjast mjög eftir efni frá svo kunnum
rithöfundi, og hafa þær ekki birzt fyrr á íslenzku. Aðrar eru tæki-
færisgreinar og ræður samið hér heima í ýmsu tilefni. Svo ólíkt er
til greina þessara stofnað, að þær hljóta að vera býsna sundurleit-
ar, þótt þær allar beri mark höfundar síns. Sumar eru efnislitlar,
aðrar koma víða við, allar eru þær skemmtilegar aflestrar, en oft
eru þær hlaðnar þversögnum og fullyrðingum eins og höfundar er
siður. Höfundur gerir hér að nokkru leyti upp við fortíð sína og
kommúnismann líkt og í Skáldatíma, enda hefur hann lítið lof
hlotið fyrir bókina hjá fyrri aðdáendum sínum úr þeim flokki. At-
hyglisverðastar greinar eru: Upphaf mannúðarstefnu og Bastofu-
hjal í Jerúsalem. Þá er og góð hin stutta minningargrein um Davxð
Stefánsson. En nú eins og ætíð, þegar Halldór Laxness sendir frá
sér nýja bók, verður hún lesin.
Elinborg Lárusdóttir: Svipmyndir. Hafnarfirði 1965.
Skuggsjá.
Hin góðkunna skáldkona, Elinborg Lárusdóttir, sendir að þessu
sinni frá sér safn smásagna, 12 alls, sem hún kallar Svlpmyndir.
Er það rétt nefni að því leyti, að margar sögtirnar eru skyndi-
myndir, sem brugðið er upp, af lífi og örlögum einstaklinga, en
aðrar grípa víðar yfir og taka til meðferðar dýpri vandamál þjóð-
félagsins. Sögurnar eru vel sagðar, hnitmiðaðar að efni og frásögn,
og sýna, að höf. kann ekki síður að fara með smásagnaformið en
hina löngu sögu. Allar gefa þær lesandanum nokkurt umhugsun-
arefni, og skilja eftir hjá honum viðfangsefni að glíma við. Yfir-
leitt fjalla þær um alvarleg efni og árekstra í mannlegu lífi, en
470 Heima er bezt