Iðunn : nýr flokkur - 01.10.1925, Blaðsíða 34
256
Einar H. Kvaran:
IÐUNN
Og við þetta atriði bænarinnar hnýtir hann þessum um-
mælum: »Ef þér fyrirgefið mönnunum misgerðir þeirra,
þá mun yðar himneski faðir einnig fyrirgefa yður. En ef
þér fyrirgefið ekki mönnunum þeirra misgerðir, mun
faðir yðar ekki heldur fyrirgefa yðar misgerðir* (Matt.
6, 14—15). Hann varar alvarlega við hörðu dómunum,
af því að þeir eru af sömu rótum runnir sem fyrirgefn-
ingarleysið. »Dæmið ekki, til þess að þér verðið ekki
dæmdir; því að með þeim dómi, sem þér dæmið, verðið
þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, verður
yður mælt. (Matt. 7, 1—2).
Hafi nokkur lifað samkvæmt þessari hugsun, þá er það
hann, sem boðaði bersyndugu konunni fyrirgefning, »því
að hún elskaði mikið* — hann, sem sakfeldi ekki hór-
seku konuna, er átti að grýta eftir skýlausu lögmáli
Móse, af því að allir væru syndarar — hann, sem
í kvölunum á krossinum mælti orðin: »Faðir, fyrirgef
þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gera«. Eftir hans
kenningu er hefndarhugurinn ekki til í guði, og þar af
leiðandi ókleift um tíma og eilífð að komast í samræmi
við guð, nema hefndin upprætist úr hugum mannanna,
og fyrirgefningarfúsleikinn komi í staðinn. Þetta er
því eftirtektarverðara, sem þessi kenning fer mjög í bág
við hugmyndir Gyðinga á dögurn ]esú um rétt og rangt.
Ein af þeirra grundvallarsetningum var: »Auga fyrir auga
og tönn fyrir tönn«.
Það getur þá ekki verið nokkur vafi á því, að ef það
er nokkur einn, sem ber ábyrgð á því, að fyrirgefning-
unni er haldið að mönnunum, hvort sem það er gert af
mér eða öðrum, þá er það Jesús frá Nazaret. Eg geri
ráð fyrir, að hann sé fær um að rísa undir þeirri ábyrgð
— hvað þungan áfellisdóm sem hann fær fyrir það hjá
Sigurði Nordal. Og svo fjarri er það mér sem austrið