Kirkjuritið - 01.04.1952, Page 14

Kirkjuritið - 01.04.1952, Page 14
78 KIRKJURITIÐ til Guðs ríkis. Og af móður vörum og föður var okkur fyrst kennt það, sem hann hafði boðið, og að biðja hann og föðurinn á himnum — já, biðja með bæninni hans. Þannig barst til okkar sama kallið sem af vörum Jesú til Filippusar: Fylg þú mér. Bernskuárin liðu. Okkur var kennt meira og meira um Jesú Krist, ævi hans og störf. Við lærðum orð hans. Við sáum hann að vísu ekki með sama hætti og Filippus. En við fengum að líta guðlegar myndir. Með þeim hætti sáum við kærleiksverk hans og kraftaverk, heyrðum hann tala líknarorð og huggunar, tókum undir játningu Péturs: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Hétum honum ævi- tryggðum við fermingu okkar. Gengum að borði hans eins og hinir tólf, þágum brauðið og vínið, er minnti okkur á líkama hans og blóð, sem fyrir okkur væri gefið, og gerðum þetta í hans minningu. Já, við fengum jafnvel meira að sjá en Filippus hafði enn séð við skilnaðarmáltíðina. Við horfðum á hetju Guðs deyja á krossi. Við litum morgunroðann yfir gröf hans í garði Jósefs frá Arímaþeu hinn fyrsta kristna páskadag og sáum páskasólina renna upp og skrifa geislum sínum um loft og láð og lög dýrðarkveðjuna frá Kristi sjálfum: Ég lifi og þér munuð lifa. En þrátt fyrir allt þetta hefir fylgd okkar við Krist orðið grátlega aum. Hversu oft höfum við brugðizt hon- um, hrasað, fallið? Hversu oft höfum við tekið stundar- nautn og stundarhag fram yfir hann? Hversu oft hefir hreinleikinn í lífi okkar, fegurðin og kærleikinn orðið að lúta í lægra haldi? Og það, sem er ef til vill sárast af öllu: Dáðlítil eða dáðlaus göngum við eins og í svefni og draumi um leiðir þessa lífs um heilaga jörð, sem á í raun og sannleika að verða Guðs rki. Vissuna vantar, festuna, öryggið, grundvöll starfanna, þróttinn, kjarkinn, djörfung- ina til að horfa glöð á viðfangsefni og ráðgátur lífs og dauða. Ljósið í okkur hefir oft verið myrkur, tóm í hjart- anu, þar sem Kristur skyldi vera.

x

Kirkjuritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Kirkjuritið
https://timarit.is/publication/443

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.