Kirkjuritið - 01.02.1956, Blaðsíða 42
88
KIRK JURITIÐ
tveggja innlendra höfðingja, er hann heilsaði þeim. „Það var að
vísu,“ sagði hann, „eflaust til þess ætlazt, að ég gerði þetta rétt
til málamynda. En ég gerði það alveg svikalaust, enda alveg
skapaður til þess.“
Hispursleysið, góðvildin og glettnin vekur dr. Fisher hvar-
vetna mannheill og góðfýsi. Haft er eftir kyndara á Queen Mary,
að erkibiskupinn hafi haft ólíkt meiri áhrif með kynnisferðum
sínum um skipið, heldur en predikun sinni á skipsfjöl. „Hann
er nefnilega laus við alla ofmenntun," bætti hann við. Dr. Fisher
sagðist vilja, að þetta yrði sett á legstein sinn.
Erkibiskupinn er kvæntur, og á sex syni. Þau hjónin búa spar-
lega hversdagslega, að sagt er, en halda að sjálfsögðu uppi mik-
illi risnu. Hjónaband þeirra er hið bezta, enda er frúin ekki að-
eins mikil húsmóðir, heldur góður félagi manns síns á ferðum
hans. Biskup leggur ríka áherzlu á helgi hjónabandsins, og er
mjög andvígur hjónaskilnaði. Hjúskaparmál Margrétar prins-
essu og Towsends höfuðsmanns voru eitthvert vandasamasta og
viðkvæmasta viðfangsefni, sem dr. Fisher hefir orðið um að
fjalla. En einnig þá komst hann klaklaust milli skers og báru.
Dr. Fisher mun meiri framkvæmdamaður en guðfræðingur,
frekar af flokki dómaranna en spámannanna. En honum er gef-
ið mikið af heilbrigðri skynsemi, og hann hefir bæði vilja og
þrek til að ráða vel fram úr því, sem bíður úrlausnar. Hann er
farsæll maður og giftudrjúgur, sem farizt hefir vel að stjórna
sínu kirkjuskipi í villum og ósjóum, kirkjuhöfðingi, sem gengur
ekki úr minni, að honum ber að þjóna.
G. Á.
Himinninn.
Þú spyrð hvers sál mín leiti á himni. —
Ég brosi í anda, en get engu svarað þér.
Því líkt og ferskjublómið lætur berast með straumnum,
berst ég til heims, sem þú hefir ekki hugmynd um.
— Li Po. — (G. Á.).