Kirkjuritið - 01.03.1960, Blaðsíða 12

Kirkjuritið - 01.03.1960, Blaðsíða 12
Borðbœnir, Þegar ég fékk tækifæri til að kynnast lífi kristinna þjóða í Evrópu og Ameríku, var eitt, sem ég tók fljótt eftir. Það voru borðbænir. Er fjölskyldan hafði safnazt saman við matborðið kvölds og morgna, lutu allir höfði og sögð var borðbæn. Annaðhvort sögu allir sama bænarversið eða einhver úr fjölskyldunni bað upphátt. Að því búnu hófst máltíðin. Fljótlega hafði ég vanizt þessum sið, og hann var mér kær- kominn. Ég vil benda öðrum á, að hann breiðir blessun sína yfir heimilið. Við lifum á tímum hraðans. Þessi öld þekkir lítið af hljóð- um stundum, kyrrlátum augnablikum. En þeirra er þörf fyrir manninn. Hætta er á, að hraðinn beri hann ofurliði. Vér þurf- um að geta numið staðar, lyft huganum í bæn til Guðs, sam- einazt í bæn fyrir augliti hans. Heimilisguðrækni er hverju kristnu heimili nauðsynleg. En hvað skyldi vera mesti Þrándur í Götu þeirrar iðju? Ekki andúð og meiningarmunur, heldur tímaleysi. Meðlimir fjölskyldunnar eru á þönum frá morgni til kvölds, einn í þessa áttina og annar í hina. Hvar er þá sameiginleg stund? Vér þurfum mótvægi gegn hraðanum. Það þarf átak, — Grettistak, liggur mér við að segja, — til þess að snúa dæminu við, að vér fáum tóm til þess að líta á oss, ekki í gegn um þann blekkingarhjúp, að vér séum eigendur og gerendur, heldur þiggjendur og það af náð. Maðurinn situr við borð hins Almáttka og þiggur af náð hvern munnbita, hverja mínútu. Hvað ætti að vera oss nær en að þakka? Vér þökkum „þjónunum“, en sneiðum fram hjá „veitandanum". Borðbænin er leiðin til að lækna það og koma á þeim friði, sem æskilegur er. Ég vil benda á eina borðbæn, sem er mjög vel til þess fallin, að heimilisfólkið segi um leið og það setzt að matborðinu. Hún er eftir Valdimar Briem: Gef oss í dag vort daglegt brauð, vor Drottin Guð af þínum auð. Vort líf og eign og bústað blessa, og blessa nú oss máltíð þessa. En gef vér aldrei gleymum þér, er gjafa þinna njótum vér. Pétur Sigurgeirsson.

x

Kirkjuritið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kirkjuritið
https://timarit.is/publication/443

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.