Jörð - 01.09.1946, Síða 39
Hinn tólfti maí
Og þá niun drjúpa rósaregn
aí runnum þeim,
sem greru við þitt brúnablik, —
ég ber þær heim
og strái þeim í kjöltu þína
og kringum þig.
Og svo mun alltaf angan þeirra
minna á mig.
Já, þó að vetri og klakinn kreisti
hvað, sem er,
mun eftir verða angan sú
og ylja þér
og vefjast að þér, hjúfra,
vekja minnismál
um hita í blóði, birtu í augum, —
breyska sál.
ís. '34.
Jónas Guðlaugsson, skáld
Hann sigldi til sólhlýrri landa,
særður að lijartarótum.
Og þar voru ljóð hans launuð
lofi og vinahótum.
Þar auðnan bauð honum yndi
og ástanna blómvönd rauðan,
en hann orti um þá eldbrunnu móður,
sem hann elskaði fram í dauðann.
En móðir, sem átt þér auðnir
með angangrundum og hraunum,
þú gazt ekki gefið honum
gröf að skáldalaunum.
Að baki er vetur, vina mín,
en vor og blóm
er fram undan — með fegurð, gleði
og fuglahljóm.
í dag ég vildi rauðar rósir
rétta þér,
sem anganbikar bjartra vona
bæru þér.
En engar rósir, engan gróður
á ég til,
rn það, sem greri, það, sem var,
ég þakka vil.
• • ■ Og kannski vorið færi mér
í faðmi sér
þann yl, það ljós, þann unað,
sem ég óska mér.
Rvík. 1918.