Gripla - 01.01.1982, Page 12
8
GRIPLA
útgáfu bókarinnar (Heimildaútgáfa Þjóðskjalasafns I, 1979). Sr. Jón á
Tjörn á þar bréf frá biskupi sem er prentað á bls. 14-17, frá árinu 1629,
og til hans er vafalaust einnig bréf á bls. 38-39 um kirkjugarðsleg konu
sem sér hafði orðið að skaða í sókninni. Það er í útgáfunni tímasett
1630 eða 1631. í Skarðsárannál árið 1631 er sagt frá konu í Svarfaðar-
dal sem missti mann sinn og skar sig á hálsinn til bana (Annálar 1400-
1800, I, bls. 234; sbr. einnig I, bls. 327), og er þar væntanlega um að
ræða sama atburð. Þess má geta að Þorlákur Markússon í Gröf á
Höfðaströnd (um 1692-1736) hefur þekkt bréfið í bréfabók biskups og
lætur hann atburðinn gerast í Stærra-Árskógssókn (Annálar 1400-1800,
IV, bls. 257), en það mun aðeins vera ályktun Þorláks, sem hefur ekki
vitað annað en sr. Jón Einarsson væri þá orðinn prestur í Stærra-Ár-
skógi og bréfið væri til hans. Sr. Jón Einarsson er nefndur í dóm á
prestastefnu að Hrafnagili 18. apríl 1631 (Bréfabók Þorláks, bls. 92-
94), og er ekki Ijóst hvor þeirra nafna það er, en talið er að sr. Jón á
Tjörn hafi látist á þessu ári eða ekki miklu síðar. (Páll Eggert Ólason,
íslenzkar œviskrár III, bls. 94.) Verður að ætla að það sé sr. Jón Ein-
arsson í Stærra-Árskógi sem nefndur er í bréfabók Þorláks eftir þetta.
Hann er á prestastefnu á Laugalandi 22. maí 1637 (bls. 86 og 88), á
Hrafnagili 30. ágúst 1641 (bls. 106), á Laugalandi 27. sept. 1644 (bls.
127), í Glæsibæ 4. sept. 1645 (bls. 132) og á Laugalandi 7. júní 1650
(bls. 173). í byggingarbréfi fyrir Urðum í Svarfaðardal, sem Þorlákur
biskup gefur Jóni Illugasyni 20. maí 1654, biður biskup sr. Jón Einars-
son í Staðarárskógi í umboði sínu að taka út jörðina og kúgildin í far-
dögum, skrifa allt upp greinilega og afhenda Jóni Illugasyni, bæði stað-
inn og svo líka kirkjuna með sínum ornamentum. (Bréfabók, bls. 253.)
Þá voru teknir vitnisburðir um ítak og beit Vallakirkju á Sökkubökk-
um á árunum 1648-49, og er sr. Jón meðal votta, og einnig skrifar hann
undir skoðunargerð 10. júní 1650. (Kirknaskjöl. Vaðlaþing. K XXV í
Þjóðskjalasafni.) Árið 1649 skrifar sr. Jón undir skjal um hyllingu við
Friðrik konung þriðja með öðrum prestum í Eyjafjarðarsýslu. (Skjöl
um hylling íslendinga 1649 við Friðrik konung þriðja, 1914, bls. 69.)
Þorlákur biskup Skúlason lést snemma á ári 1656, og var Gísli sonur
hans kosinn til biskups á prestastefnu á Flugumýri 21. apríl 1656. Hann
vígðist 10. maí 1657 og var biskup til æviloka 1684. í prestastefnubók
Gísla biskups (Bps. B IV. 1; væntanleg í Heimildaútgáfu Þjóðskjalasafns
II) er sr. Jóns Einarssonar getið á prestastefnu á Hrafnagili 7. maí 1658
(bls. 7-11), á Grýtubakka í Höfðahverfi 13. maí 1659 (bls. 13-16), á