Gripla - 01.01.1982, Side 75
UM ÞORMÓÐ SKÁLD OG UNNUSTURNAR TVÆR 71
maður á fagra unnustu sem hann heimsækir oft. Hann verður fyrir reiði
móður hennar eða eiginmanns. Hann fer brott á skipi með förunautum
sínum, Tristram landflótta, en Þormóður að leita sér skemmtunar. Ungi
maðurinn kemur þar sem er ung heimasæta og er honum boðið að
dveljast þar. Unga stúlkan er að vísu ekki svo fögur sem unnusta hans,
en hún er bæði kurteis og hyggin. Á meðan ungi maðurinn dvelst þar
yrkir hann mansöngva (mansöngsvísur) eða lofkvæði, Tristram um
unnustu sína, ísond, en Þormóður um hina nýju vinkonu sína, Þor-
björgu. Og báðir flytja kvæðið (kvæðin) í margra manna áheyrn. Kon-
urnar tvær heita mjög líkum nöfnum í frásögn Tristrams sögu, og
sökum þess að Tristram nefnir oft þetta nafn í kvæðum sínum heldur
stúlkan og allt hennar fólk að hann sé að kveða um hana. Hins vegar
stendur svo á um Þormóð að hann yrkir í rauninni um síðari vinkon-
una, Þorbjörgu, og þegar hann kemur heim aftur og fer enn að heim-
sækja unnustu sína, Þórdísi, þá kemur í ljós að hún hefur frétt þetta
og er honum reið og ásakar hann fyrir að hafa fengið sér nýja unnustu.
Þormóður skrökvar því þá að henni að hann hafi ort um hana lofkvæði
þá er hann var í Arnardal. En sögunni lýkur með því að síðari vin-
konan, Þorbjörg, refsar honum grimmlega og hótar honum verra nema
hann breyti kvæðinu í sama horf.
Það var yfirleitt háttur þeirra manna sem sömdu íslendingasögur að
þeir nýttu á listrænan hátt það söguefni sem þeir sóttu í aðrar sögur.
Svo virðist því og vera farið í þessu tilfelli. Umhverfi er gjörólíkt, en
höfuðdrættir svipaðir og sjálfur sögukjarninn hinn sami samkvæmt
skýringu Þormóðar á athæfi sínu í Arnardal. í stuttu máli: 1. Unnust-
urnar eru tvær; 2. söguhetjan yrkir mansöngva/lofkvæði þar sem hann
dvelst hjá unnustu nr. 2; 3. í Tristrams sögu yrkir söguhetjan raunveru-
lega um unnustu nr. 1, þó að unnusta nr. 2 og aðrir áheyrendur haldi
að hann yrki um unnustu nr. 2 (af því að nöfnin eru lík). En í Fóstbr.
s. yrkir söguhetjan raunverulega um unnustu nr. 2, en skrökvar því
seinna að unnustu nr. 1 að hann hafi ort lofkvæði sitt um hana, — og
eru sögurnar þar með orðnar samhljóða: söguhetjan yrkir um unnustu
nr. 1 á meðan hann dvelst hjá unnustu nr. 2, en kvæðið er talið vera
um eða eignað unnustu nr. 2. Þar við bætist að unnusta nr. 2 refsar
söguhetjunni í báðum sögum fyrir ást hans á unnustu nr. 1.
Um draum Þormóðar er þess að geta að ekki er ólíklegt að höfundur
Fóstbræðra sögu hafi þekkt frásögn í Rómverja sögum af óhugnanlegri
draumvitrun Pompeiusar, þar sem framliðin kona hans vitjar hans full