Gripla - 01.01.1982, Page 119
HERMANN PÁLSSON
MALUM NON VITATUR,
NISI COGNITUM*
Örlög latneskra spakmæla í norskum og íslenzkum fornritum ultu á
ýmsar lundir, enda virðast þau nú vera flestum dauðlegum mönnum
hulin. Yfirleitt munu fáir gera sér grein fyrir því, hve margir norrænir
orðskviðir eiga rætur sínar að rekja til útlends lærdóms og munu ekki
hafa borizt til Norðurlanda fyrr en á 11., 12. eða jafnvel 13. öld. Skipu-
leg rannsókn á uppruna norrænna spakmæla verður að sjálfsögðu ekki
leyst af hendi fyrr en heildarsöfnun þeirra er lokið, en slíkt er ekkert
áhlaupaverk. Þótt þeir Finnur Jónsson og Hugo Gering hafi á sínum
tíma birt allmiklar skrár yfir málshætti í fornritunum, þá eru þær engan
veginn tæmandi.1 Og hvorugur þessara mætu fræðimanna leggur neina
sérstaka áherzlu á uppruna, enda láta þeir þess örsjaldan getið, að farið
sé eftir latneskum fyrirmyndum. Auk þess verður að minnast þess, að
orðið ‘spakmæli’ hefur miklu víðtækari merkingu en ‘málsháttur’.2 Ný-
lega hef ég fjallað um nokkur latnesk spakmæli í íslenzkum fornritum,
en þar er einungis um að ræða lítið brot af öllum þeim orðskviðum, sem
þegnir voru sunnan úr álfu eftir að íslendingar og Norðmenn kynntust
við kristinn sið og komust í hóp menningarþjóða.3
* Mér er ljúft að þakka Jakobi Benediktssyni og Ólafi Halldórssyni þann vinar-
greiða að lesa frumdrög að þessari grein í handriti og benda mér á ýmsa agnúa á
henni.
1 Finnur Jónsson, ‘Oldnordiske ordsprog og talemaader,’ Arkiv för nordisk
filologi XXX, 1914, bls. 61-111; 170-217. — Hugo Gering, ‘Altnordische Sprich-
wörter und sprichwörtliche Redensarten’, sama rit XXXII, 1916, bls. 1-31. — Auk
þessara tveggja fræðimanna má nefna Andreas Heusler, ‘Sprichwörter in den eddi-
schen Sittengedichten’, Zeitschrift des Vereins fiir Volkskunde, 1916 og 1917, en
ritgerð hans hef ég ekki lesið.
2 Orðið ‘spakmæli’ tekur ekki einungis yfir málshætti (proverbia), heldur einnig
yfir þær spöku setningar, sem latínumenn kalla sententiae. Heilræði heyra einnig
undir spakmæli.
3 Sjá Studia Islandica 39, 1981, og greinar, sem þar er vitnað til.