Gripla - 01.01.1982, Page 120
116
GRIPLA
í fljótu bragði getur verið örðugt að gera skarpan greinarmun á þeim
orðskviðum, sem eru forn norrænn arfur, og hinum, sem eru þýðingar
úr latínu eða öðrum tungum. Þó verða oft nokkur atriði til leiðbein-
ingar. I fyrsta lagi hafa heimafengnir málshættir venjulega stuðlasetn-
ingu, en hana skortir stundum í hina þýddu orðskviði. í öðru lagi eru
fornir norrænir málshættir yfirleitt svo fastir í sniðum, að þeir breytast
lítt eða ekki í meðförunum, en hins vegar eru ýmsir orðskviðir af
latneskum uppruna sundurleitir að gerð og orðalag þeirra á reiki. Og
í þriðja lagi fela sumir aðfengnu málshættirnir í sér hugmyndir, sem
munu lítt hafa tíðkazt hér norðurfrá í heiðnum sið, og mega þeir því
teljast þáttur í útlendum lærdómi norskra og íslenzkra bókmennta á
miðöldum. Rannsóknir á spakmælum krefjast þess, að þrjú svið séu
könnuð: uppruni þeirra og ferill; form og gerð; merking og hlutverk.
Um uppruna spakmæla er það skemmst að segja, að leitin að latn-
eskum fyrirmyndum er vitaskuld ekkert vandamál, þegar þau koma
fyrir í þýddurn ritum, þar sem latneska textanum er trúlega fylgt, en
hins verður þó að geta, að þýðingar hafa stundum önnur spakmæli en
beitt var í frumriti. í þessu sambandi má minna á Alexanders sögu',
Brandur Jónsson hikar ekki við að nota íslenzkan málshátt, þegar svo
býður við að horfa, í stað þess að þýða latneskan orðskvið í Alex-
andreis. Hins vegar sýnir hinn norski þýðandi gamanleiksins Pamphilus
de amore merkilega natni og nákvæmni við að snara spakmælum á
sína tungu. Báðum þessum þýðendum tekst starfið býsna vel, þótt
þýðingarnar séu mjög hvor með sínu móti, enda eru frumritin næsta
ólík að stíl. Hér norður á hjara veraldar kynntust forfeður okkar í önd-
verðri kristni ekki ýkja mörgum spakmælum með því að lesa rit frá
sjálfri gullöld Rómverja, þótt nefna megi þær bækur eftir Sallúst og
Lúkanus, sem snarað var á íslenzku á 13. öld. Hitt virðist hafa verið
öllu algengara, að rómversk fornyrði slæddust til Norðurlanda í bókum
kristinna höfunda, sem lögðu öllu meiri stund á að kynna sér klassískar
bókmenntir en íslendingar og Norðmenn. Ýmis spakmæli eru komin
frá Disticha Catonis de moribus (sbr. Hugsvinnsmál) og öðrum skóla-
bókum; mörg bárust hingað með hómilíum, heilagra manna sögum og
ýmsum öðrum þýddum ritum; þá má einnig gera ráð fyrir því, að
Norðmenn og íslendingar hafi notað sér florilegia í því skyni að auðga
spakmælaforðann. Sumir útlendu orðskviðirnir koma einungis einu
sinni fyrir í fornritum, en aðrir nokkrum sinnum, t. a. m. sá sem hér
verður fjallað um. Vafasamt er að staðhæfa mikið um feril slíkra