Gripla - 01.01.1982, Side 167
SAGNIR í SKÁLDSKAP GRÍMS THOMSENS
163
hefða. Hann bar saman skosku skáldin Allan Ramsay og Robert Burns
og komst að þeirri skoðun, að skáldskapur hins síðarnefnda sé miklu
víðfeðmari og tekur hann svo til orða um Burns: ‘Hans poetiske Rige
naaer fra den skotske Overtroes Fantasiverdens yderste og inderste
Grændser til — Kjpkkenet; han besynger Alfer og Kjpdbuddinger,
Trolde, Hexe, 01krus o.s.v.’5
Eins og við mátti búast af skáldi, lét Grímur ekki þar við sitja að
fjalla um þjóðleg sérkenni bókmennta á fræðilegan hátt. Hann sótti
yrkisefni margra kvæða sinna í þjóðsögur, þjóðkvæði og þjóðtrú, enda
var honum fullljós þáttur þeirra í þjóðlegum bókmenntum. I þessari
grein verður freistað að rekja þræðina milli þjóðfræða 19. aldar og
skáldskapar hans sjálfs.
Sumar þjóðsagnanna hafa ekki fundist eða eru komnar í glatkistuna
gaflalausu. Þetta eru sagnirnar, sem ætla má að hafi verið að baki
kvæðanna Jósephsdalur, Sveinn Pálsson og Kópur og Jólanóttin á
Hafnarskeiði.6 Þá eru skiptar skoðanir um það, hvort sögnin um svaðil-
för Skúla fógeta hafi nokkru sinni verið til. Jón Jónsson Aðils telur, að
Grímur hafi stuðst við slíka sögn í kvæðinu Skúli fógeti, en Sveinbjörn
Sigurjónsson er mjög svo efablandinn um tilvist hennar.7
Ekkert áhlaupaverk er að tímasetja kvæði Gríms með sæmilegri
nákvæmni, vegna þess að frumrit kvæða hans hafa glatast.8 Sem betur
fer má styðjast við athugasemdir Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar
í Ljóðmælum 1906. Nokkur kvæðanna voru einnig prentuð fyrst í
blöðum og tímaritum.9 Eru þessar heimildir mikilsverðar, því að þær
gefa oft veigamiklar ábendingar um þróun í efnisvali.
Ekki gekk Grímur beina braut á vit íslenskra þjóðfræða, og virðist
leiðin hafa legið að nokkru um þýðingar á þjóðsagnakvæðum. Opin-
5 Om Lord Byron. Udgivet for Magistergraden af Grímur Thorgrímsson
Thomsen. Kjpbenhavn 1845, bls. 35.
6 Sjá Grímur Thomsen: Ljóðmœli. Sigurður Nordal gaf út. Reykjavík 1969. Þar
eru þessi kvæði prentuð á bls. 213-214, 218-220 og 369-370.
7 Jón Jónsson: Skúli Magnússon landfógeti. Reykjavík 1911, bls. 320. Svein-
björn Sigurjónsson: Skýringar við íslenzka lestrarbók 1750-1930. Reykjavík 1948,
bls. 46.
8 Ljóðrnœli 1969, bls. 41.
9 í Ljóðmœlum 1906 getur útgefandinn, dr. Jón Þorkelsson, aldurs nokkurra
kvæða Gríms Thomsens, og má fullvíst telja, að Jón hafi þar stuðst við handrit
Gríms sjálfs. í heildarútgáfu ljóðmæla Gríms (Reykjavík 1934) er getið frumprent-
ana kvæða Gríms í blöðum og tímaritum.