Gripla - 01.01.1982, Page 168
164
GRIPLA
beran skáldferil sinn hóf Grímur með birtingu á þýðingu á Alpaskytt-
unni eftir Friedrich Schiller í Fjölni árið 1838, og sex árum síðar er
þýðingin á Fiskimanninum eftir Johann Wolfgang von Goethe prentuð
í Nýjum Félagsritum. Þá er einnig rétt að geta þess, að Grímur þýddi
Sólarljóð — Caricthura — úr Ossíanskviðum árið 1858 eða fyrr. í
Ljóðmælum 1880 stendur ‘eftir Ossian’,10 og bendir það að öllum líkind-
um til, að Grímur hafi ekki borið brigður á uppruna Ossíanskviðna og
talið þær ófalsaðar. En eins og alkunnugt hefur orðið, setti skoska
skáldið James Macpherson þær saman eftir fornum gelískum þjóð-
kvæðum að nokkru leyti.
‘1845 eða fyrri’ orti Grímur Vísuna um Æru-Tobba,n en það var
ekki fyrr en hann var kominn á miðjan aldur, að íslenskra þjóðsagna
og -kvæða tók að gæta verulega í kvæðum hans. Elsta kvæði Gríms af
því tagi er Á Sprengisandi.12 í fyrsta erindinu setur skáldið fram al-
menna staðhæfingu:
hér á reiki er margur óhreinn andinn,
úr því fer að skyggja á jökulsvell.
Verið getur, að Grímur hafi haft drauga í huga, en tröllin voru
hundheiðin líka. Að baki ljóðlínunnar
útilegumenn í Ódáðahraun
eru kannske að smala fé á laun
standa margfrægar útilegumannasögur. Reyndar var það nú svo, að
margir landsmenn hafa verið farnir að efast um tilvist útilegumanna,
þegar kvæðið var ort, svo að Grímur hefur talið tryggara að vera örlítið
efablandinn líka.
í síðasta erindi kvæðisins kemur fyrir álfadrottning, sem ‘er að beizla
gandinn’, á heldur grunsamlegum slóðum, því að í íslenskum þjóð-
sögum hylltust álfadrottningar til að ríða gandreið á jólanótt til fornra
heimkynna sinna.13 í Álfareiðinni eftir Heinrich Heine hittir skáldið
10 Bls. 2.
11 Sbr. Ljóðmœli I (1934), bls. 22. Kvæðið er prentað í Ljóðmœlum 1969, bls.
75-76.
12 Ljóðmœli 1969, bls. 76-77. Kvæðið er ort í ágúst 1861 skv. athugasemd í
Ljóðmælum 1906, bls. 22.
13 Islenzkar þjóðsögur og œvintýri. Safnað hefur Jón Arnason. Ný útgáfa.
Arni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. I,—VI. bindi. Reykjavík
1954-1961. I. bindi, bls. 105-109. Skammstafað JÁ.