Gripla - 01.01.1982, Page 218
214
GRIPLA
finna þar Brynjólf frænda sinn, sem biskup hafði orðið 1639; Ólafur
hefur verið kunnugur honum, af því að árin 1629-31 sat Brynjólfur
heima í Holti hjá foreldrum sínum. Vera má að Ólafi hafi flogið í hug
að nefna við biskup að bartskeri gæti verið þarfur maður að ráða til
vistar í Skálholti. Guðbrandur biskup hafði haft bartskera á Hólum
(Kolbein Hjálmsson, Smæ I 487).
Þó að bréfaskipti hafi verið stopul eftir að Ólafur fjarlægðist, er ljóst
að honum hafa verið send fleiri bréf frá Holti en þau sem geymzt hafa.
Þaðan hefur hann fengið þau tíðindi að móðir hans hafði misst sjónina.
í Kvæðabók úr Vigur (sjá inngang bls. 59) er tekið upp lcvæði kallað
‘Grátbón’, sem Þorbjörg Guðmundsdóttir hefur ort sjálf eða fengið
annan til að yrkja í sinn stað; þar ákallar hún guð og biður hann að
gefa sér sjónina aftur:
Opna þitt augað klára
og eyrað hneig til skepnu þín,
álít mitt angrið sára,
athuga raust og beiðni mín!
Sjáðu eg ligg hér sjónlaus þér fyrir fótum.
So er eg leidd og borin um braut
síðan birtan þraut
sem villt frá veganna mótum.
Þóra Jónsdóttir hafði verið gift séra Snæbirni Torfasyni (fl607),
sonur þeirra var Björn Snæbjörnsson; hann var á vetrum skólameistari
í Skálholti, en sat þess á milli að búi sínu á Vestfjörðum, síðar prestur
á Staðarstað. Björn gekk árið eftir að bréf Ólafs var skrifað að eiga
systur hans, Þórunni (kaupöl í Holti 1643, brúðkaup 1644, Annálar
1400-1800 I 270, III 63).
Hvað orðið hefur um Ólaf eftir þetta veit enginn að segja. Líklega
hefur hann dáið skömmu síðar. Yfir moldum hans hefði vel átt við að
raula Enginn grætur íslending.
Ólafur hefur orðið fyrir því slysi sem sennilega mun fátítt svo seint á
öldum, að maður sem var sonur velmetins prests og náði fullorðinsaldri
týndist úr ættartölum. Jón Halldórsson nefnir aðeins tvö börn séra Jóns
Sveinssonar, Jón og Þórunni (Biskupasögur JHalld. I 317, Rask 55
bls. 473), og sama er að segja um Smæ. IV 592. En í Lbs. 199 4to,
‘ættartölubók með hendi séra Vigfúsar Jónssonar’, er nefndur séra Jón
Sveinsson, sem ‘á’ (í nútíð) Þorbjörgu Guðmundsdóttur, og talin börn