Gripla - 01.01.1982, Page 317
SAMTÍNINGUR
313
hafði sent honum. Skallagrímur tók við öxinni, hélt upp og sá á um
hríð og ræddi ekki um; festi upp hjá rúmi sínu. Það var um haustið
einn hvern dag að Borg, að Skallagrímur lét reka heim yxn mjög marga,
er hann ætlaði til höggs. Hann lét leiða tvo yxn saman undir húsvegg
og leiða á víxl. Hann tók hellustein vel mikinn og skaut niður undir
hálsana. Síðan gekk hann til með öxina konungsnaut og hjó yxnina
báða senn, svo að höfuðið tók af hvorumtveggja, en öxin hljóp niður í
steininn, svo að munnurinn brast úr allur og rifnaði upp í gegnum herð-
una. Skallagrímur sá í eggina og ræddi ekki um; gekk síðan inn í elda-
hús og steig síðan á stokk upp og skaut öxinni upp á hurðása. Lá hún
þar um veturinn.’ Um vorið kveður Skallagrímur magnaða vísu um
öxina og seldi hana síðan í hendur Þórólfi, sem kastaði öxinni fyrir borð
á djúpi, svo að hún kom ekki upp síðan.
Meðferð Skallagríms á öxi þeirri, sem Eiríkur blóðöx sendi honum
að gjöf, og var það næsta veglegt vopn, sýnir glögglega að hún hefur
átt að verða samnefnd gefanda; með því að nota hana til að höggva
tvo uxa gerir Skallagrímur hana að raunverulegri blóðöxi, samkvæmt
þeim skilningi sem Ólafur Halldórsson leggur í orðið, en með því er
ekki sagt, að Skallagrímur hafi verið sérstaklega góður blóðöxar.
H.P.
HEILLAVÍSA BJARNA
Á fremstu síðu í AM 68 fol., sem er handrit af Ólafs sögu helga frá
öndverðri 14. öld, er dregin upp mynd af Ólafi konungi helga, og hafa
síðar verið skrifaðar tvær vísur utanmáls, önnur um Ólaf konung til
hliðar við myndina, í hinni sem stendur undir myndinni eru heillaóskir
til Bjarna, sem kynni að hafa verið eigandi bókarinnar. Báðar vísurnar
eru prentaðar í útgáfu Jóns Helgasonar, Den store saga om Olav den
hellige, Oslo 1941, bls. 893-94, sú síðarnefnda þó með eyðum, þar sem
skinnið er dökkt og skrift torlesin. í útgáfunni er talið sennilegt að
vísurnar séu skrifaðar ‘i 15. árhundres siste halvdel eller begynnelsen
av det 16. árhundre’, og er að minnsta kosti trúlegt að vísan um Ólaf
konung sé skrifuð um það leyti. Á heillaóskunum til Bjarna er ellilegri
hönd, og virðist líklegt að hún sé frá síðari hluta 14. eða upphafi 15.
aldar. Letrið er máð á köflum, en skýrist ef bókinni er brugðið undir
útfjólublátt ljós, og má þannig fylla í eyður sem áður voru: