Eimreiðin - 01.07.1951, Síða 126
238
FRÁ BORÐI RITSTJÓRANS
EIMREIÐIN
á kaupum, sem alls ekki er víst. Nokkur fleiri dæmi eru þess, að erlend
félög’ og einstaklingar hafi undanfarna áratugi eignazt hér á landi
hlunnindi og ýms fríðindi, sem íslenzka ríkið eða innlendir aðilar
aðrir hafa svo orðið að kaupa — stundum dýru verði. Sem betur fer
hafa jafnan verið og eru enn uppi þjóðhollir menn, sem hafa varað
við slíkri verzlun með innlend fríðindi í hendur erlendra einstaklinga
og félaga. Og yfirleitt hafa landsmenn verið vel á verði um meöferð
þjóðlegra verðmæta, síðan þeir vöknuðu upp við þann vonda draum, að
mörgum þeirra höfðu þeir glatað í hendur útlendinga. Sum þessi verð-
mæti eru slík, að þau verða ekki metin til fjár. Onnur eru þess eðlis,
að þau koma ekki að notum nema að miklu fé sé varið til að hagnýta
þau. Stundum nemur það fé meiru en svo, að þjóðin sjálf hafi tök á
að leggja það fram. En þá er betra að bíða og sjá hverju fram vindur
en að selja dýrmæt réttindi landsins erlendum þjóðum, eins og persneska
stjórnin gerði á sínum tíma.
* * *
SÍÐAN vér gengum í Bernarsambandið, til þess að bjarga lista-
mönnum vorum frá því að vera rændir erlendis réttinum til að krefj-
ast greiðslu fyrir afrek sín í myndlist, tónlist, bókmenntum o. s. frv.
og koma í veg fyrir, að gráðugir íslenzkir útgefendur rændu erlend
skáld verkum þeirra með því að þýða þau á íslenzku bótalaust, hefur
fjölgað þýðingum á vissum erlendum metsölubókum. Aftur á móti er
lítið um þýðingar á sígildum ritum erlendra afburðahöfunda. Nú er
skylt að greiða fyrir þýðingarrétt á hverjum reifara, ekki síður en
á öndvegisritum. Það skyldi þó ekki vera, að reifararnir seljist betur
en öndvegisritin og freistingin sé því meiri nú að kaupa þýðingarrétt
á reifurunum en öðrum tegundum erlendra bóka? Annars eru met-
sölubækur og mat á þeim fróðlegt viðfangsefni. Og fjærri fer því, að
sumar þær metsölubækur erlendar, sem mest eru auglýstar, séu eftir-
sóknarverðar íslenzkum lesendum. Æsandi sögur um allskonar glæpa-
hneigðir fljúga út í fólkið á fjölda tungumála, séu þær nógu sniðug-
lega auglýstar. Því „sadistiske og erotomane instinkter tilfredsstilles
sável som religiöse eller nationale, man fár hvad man har betalt for“,
eins og Nic Stang, ritstjóri tímaritsins „Vinduet" í Osló, kemst nýlega
að orði í grein um metsölubækur. Trúarlegar og þjóðlegar dyggðir
dafna að jafnaði bezt við lestur sígildra, innlendra og þjóðlegra bók-
mennta. Metsölubækurnar eru ekki nærri alltaf úr þeirra flokki. Öllu
oftar glæða þær og lífga „de sadistiske og erotomane instinkter", sem
Stang ritstjóri nefnir svo. Og fyrir það er margur fús að greiða bæði
þýðingarrétt og bókarverð. Annars er fjarri því, að rétt sé að gera
lítið úr gildi góðra þýðinga, og mörg metsölubókin á erlendum bóka-
markaði er jafnframt úrvalsbók, þó að hvergi nærri fari þetta tvennt
alltaf saman.