Eimreiðin - 01.07.1951, Side 140
EIMREIÐIN
Til lesendanna.
Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur
og lúka þessum árangri Eimreiðarinnar með útskýringu
og afsökun til lesenda hennar fjær og nær. Skal sú
greinargerð vera stutt og án allra málalenginga. Eins og
allir vita, hefur það gerzt á þessu ári, að prentpappír hækk-
aði stórkostlega í verði þegar í byrjun þessa árs og hefur
haldið áfram að hækka fram til þessa. Við þetta hefur svo
bæzt annað verra: að miklum örðugleikum hefur verið
bundið að fá prentpappír af þeirri gerð og gæðum, sem
notaður hefur verið í Eimreiðina undanfarin þrjátíu ár.
Þegar það kom í ljós, að pappírsverksmiðja sú í Bretlandi,
sem framleitt hefur allan pappír í Eimreiðina síðan árið
1923, varð snemma á þessu ári að tilkynna, að hún gæti ekki
lengur framleitt pappír til útflutnings, var leitað til Finn-
lands um samskonar pappír, og fór í þetta meiri tími en
oss gat órað fyrir í fyrstu. Drógst af þessum ástæðum út-
koma 3. heftis Eimreiðarinnar, svo að þegar pappírinn frá
Finnlandi loks kom til landsins nú í byrjun nóvembermán-
aðar, var orðið svo langt liðið á árið, að ekki reyndist fært
annað en að láta bæði síðari hefti ársins, 3. og 4. heftið,
koma út saman í einu lagi. Því með þessu móti verður ár-
gangurinn allur kominn í hendur kaupenda fyrir næstu
áramót. Um leið og lesendur eru beðnir að afsaka þessar
tafir, sem, eins og skýrt er frá, hafa í rauninni verið óvið-
ráðanlegar, viljum vér láta þess getið, að pappír er nú
tryggður fyrir næsta ár, svo að útkoma ritsins ætti ekki að
þurfa að dragast vegna pappírsskorts. Er það von vor, að
Eimreiðin haldi áætlun framvegis og komi út reglulega á
hverjum ársfjórðungi eins og áður, þó að brygðist í ár af
áðurgreindum orsökum.
Eimreiðin þakkar svo öllum útsölumönnum sínum, áskrif-
endum og lesendum, f jær og nær, góða og ánægjulega sam-
vinnu á liðnum árum, óskar þeim öllum gleðilegra jóla og
farsæls komandi árs.