Uppeldi og menntun - 01.01.2003, Page 7
FRÁ RITSTJÓRA
Tólfti árgangur Uppeldis og menntunar lítur nú dagsins ljós. Hann hefur að geyma níu
fræðigreinar, allfjölbreytilegar að efni sem skírskotar væntanlega til ólíkra hópa
kennara og annarra sem fást við mennta- og uppeldismál.
Þessi árgangur er nokkuð mjóslegnari en hinir næstu á undan. Það stafar ekki svo
mjög af því að minna framboð hafi verið á efni til birtingar sem hinu að ný ritnefnd
hafði fullan hug á að breyta nokkuð útliti tímaritsins og efnislegum áherslum. Hefur
hún lagt hugmyndir sínar fyrir Vísindaráð Kennararaháskóla Islands og forstöðu-
mann Rannsóknarstofnunar skólans og fengið góðar undirtektir.
í fyrsta lagi stefnir ritnefnd að því að gefa út tvö tölublöð á ári sem verði hvort um
sig nálægt tíu örkum að stærð.
í öðru lagi verður stefnt að því að gera efni ritsins fjölbreyttara en verið hefur í
síðustu árgöngum en þeir hafa, rétt eins og þessi árgangur, einvörðungu haft að
geyma eiginlegar fræðigreinar. Ritnefndin telur eftirsóknarvert að tímaritið verði
jafnframt vettvangur fyrir upplýsta umræðu og skoðanaskipti um álitaefni varðandi
stefnumótun fyrir mennta- og uppeldisstofnanir sem og varðandi framkvæmd í
mennta- og uppeldismálum almennt. I þessu tímariti ætti slík umræða að geta notið
góðs m.a. af niðurstöðum rannsókna sem birtast jafnaðarlega á síðum þess. Þetta ætti
að geta þjónað því markmiði, sem verður að teljast mikilvægt, að styrkja tengsl kenn-
inga og framkvæmda í þessum málafokki. Undir þennan flokk umræðu- og kynn-
ingarefnis geta jafnframt fallið greinar sem skýra frá og/eða leggja mat á nýmæli í
uppeldis- og kennslustarfi.
í þriðja lagi hyggst ritnefndin vinna að því að jafnaðarlega birtist umsagnir um
nýlega útkomnar bækur sem fjalla um kennslu, uppeldi og menntun. Þessi efnis-
flokkur hefur verið á dagskrá tímaritsins en erfitt hefur reynst áð halda honum úti; er
þó varla fullreynt.
Við undirbúning að útgáfu næsta árgangs Uppeldis og menntunar vinnur ritnefndin
eftir þeim nótum sem raktar eru að ofan. Hvernig til tekst er öðru fremur komið
undir viðbrögðum áskrifenda og annarra lesenda.
Tekið skal fram að á næstunni mun ritnefnd birta á vefsíðu Rannsóknarstofnunar
KHÍ (http://rannsokn.khi.is) ítarlegar leiðbeiningar um frágang fræðigreina og
annars efnis sem tímaritið er vettvangur fyrir.
Ritnefnd þakkar samstarfið sem hún hefur átt við marga aðila í sambandi við útgáfu
þessa árgangs, ekki síst ritrýnendum og Margréti Friðriksdóttur sem annaðist um-
brot og uppsetningu.
5