Tímarit lögfræðinga - 01.10.1983, Page 13
hugsjónaveldi. Þá stefna valdhafarnir að fyrirframgefnu marki, sem
þeir telja þegnunum fyrir bestu og til bjargar mannkyninu, en gera
það svo harkalega, að fárra lífsgæða verður notið í samfélaginu.
Þvingunarvald það, sem ríkið hefur til þess að framfylgja ákvörðun-
um teknum í þess nafni, er talið nauðsynlegt, þegar menn gefa sér að
hinir ýmsu meðlimir samfélagsins hafi oft andstæð sjónarmið og hags-
muni sem rekast á. Ef þetta er gefið, (sem menn eru alls ekki sammála
um í heiminum í dag), þá verður ríkið að geta framfylgt ákvörðunum
sínum gegn vilja þess, sem fyrir verður. En þetta þýðir að ríkið verður
að hafa einkarétt á þvingunarvaldi í samfélaginu og getur ekki liðið
nokkrum öðrum valdbeitingu, nema með sérstöku leyfi ríkisins sjálfs.
Ríkið er þannig byggt upp á grundvallarreglum, og það notar líka
reglur sem stjórntæki. Þessar reglur kallast lög og réttur, og mynda
heilt kerfi, réttarkerfi, með löggjafarvaldi, dómstólum, stjórnarskrif-
stofum, lögreglu og mörgu fleiru. Handhafar ríkisvaldsins taka ákvarð-
anir í nafni laganna, veita leyfi, gefa fyrirmæli, kveða upp úrskurði,
setja lög og breyta þeim, og allt þetta verður að byggjast á lögum. Ef
mennirnir í samfélaginu fela ríkinu sem stjórnarstofnun vald til að
setja lög, breyta lögum, beita lögum og taka ákvarðanir í þeirra nafni,
og beita þvingunarvaldi í þeirra nafni, hvernig geta þeir þá tryggt sig
gegn því að þetta vald sé notað gegn frelsi þeirra og velferð og mann-
legri reisn?
2.
Hér kemur að hugmyndinni um réttarríki, hugmyndinni um það, að
ríkisvaldið sé bundið af fyrirframgerðum og ákveðnum reglum, sem
Garðar Gíslason lauk lagaprófi 1967. Hélt hann
þá til framhaldsnáms í réttarheimspeki í Ox-
ford, sem hann stundaði 2 ár í það sinn, en síð-
ar tvívegis um skeið. Lauk hann B. Litt. prófi
1971. Hann varð fulltrúi yfirborgardómara 1970,
var settur borgardómari 1974 og skipaður 1979.
Garðar hefur verið stundakennari í almennri
lögfræði við lagadeild síðan 1973. Af öðrum
störfum hans má nefna, að hann er nú í safn-
ráði Listasafns íslands. — Grein sú sem hér er
birt er samin eftir erindi höfundar á málþingi
um stjórnarskrá og stjórnskipunarhugmyndir,
sem Félag áhugamanna um heimspeki stóð
fyrir 10. apríl á þessu ári.
67