Tímarit lögfræðinga - 01.04.1994, Page 25
vera bundnir við dómstóla, heldur skuli settar upp sáttastöðvar sveitarfélaga,
einkaaðila og ríkisins. Þá er lögð áhersla á að dómstólakerfið verði þannig
skipulagt að auðvelt sé að aðlaga það breyttum aðstæðum svo að það þjóni
sem best þeim þörfum sem fyrir hendi eru á hverjum tíma. Ennfremur er lögð
áhersla á fjárhagslegt sjálfstæði dómstólanna og lagt til að fjárlagatillögur séu
lagðar beint fyrir þingið, en ekki ríkisstjóra, eins og nú er. Dómstólarnir fái
heildarfjárveitingu, sem þeir ákveði sjálfir hvernig ráðstafað verði.
Tvennt finnst mér athyglisvert í tillögunum öðru fremur; það er sú áhersla
sem lögð er á fjárhagslegan stuðning við efnalitla, sem þurfa að leita réttar
síns og eins tillögur um fleiri valkosti við úrlausn á deilumálum. Hvorutveggja
þyrfti að taka til rækilegrar skoðunar hér á landi.
Greinarhöfundur í heimsókn hjá indjánum í Warm Springs, Oregon
VII. LOKAORÐ
Víst er að það var dýrmæt og skemmtileg reynsla að kynnast bandarískum
dómstólum. Sú reynsla er að vísu ekki mjög hagnýt þar sem réttarkerfi okkar
og hið bandaríska eru gagnólík, sem og stærð og gerð þjóðfélaganna tveggja.
Hér ræður mestu að mínum dómi kviðdómendakerfið, sem er í raun uppi-
staðan í aðalmeðferð allra veigameiri mála, hvort heldur einka- eða sakamála.
Jafn óvarlegt og okkur kann að finnast að leggja mat á sök í hendur hópi
ólöglærða manna, sem valdir eru af tiltölulega miklu handahófi, þá finnst
Bandaríkjamönnum fráleitt að leggja sama mat í hendur eins eða þriggja
dómara.
19