Tímarit lögfræðinga - 01.04.1994, Blaðsíða 49
sem ekkert eftir atviki því sem hann var dæmdur fyrir, svo langt var um liðið
og margt gerst í millitíðinni. Hann hafði meira og minna verið undir áhrifum
vímuefna á tímabilinu.
Til þess að skilvirkni geti orðið sem mest í þeim málum síbrotamanna þar
sem játningar eða sannanir liggja fyrir um sök, þarf rannsókn í málum þeirra
að geta gengið vel og vandlega fyrir sig, það á að vera hægt að gefa út ákæru
svo til í beinu framhaldi af rannsókn, þau mál segja dómarar að eigi að vera
hægt að dómtaka með stuttum fyrirvara og ekki síst; úrræði þurfa að vera
fyrir hendi varðandi möguleika á „refsingu“. Dómarar eiga í þeim málum sem
og í málum ungra afbrotamanna að hafa miklu rýmri úrræðamöguleika en
þeir hafa í dag, með hæfilegri samhæfingu þó. „Refsingin“ á m.a. að taka
mið af því ástandi sem afbrotamaðurinn er í, hvemig hún megi verða til þess
að auka líkur á að hann komist inn á rétt spor aftur, hvernig draga megi úr
líkum á að hann haldi afbrotum áfram að lokinni „refsingu", hve verðskulduð
refsingin á að vera miðað við framið afbrot og hvernig er hægt að halda
honum frá þátttöku í þjóðfélaginu á meðan ekki er sýnt að hann láti af afbrota-
ferli og aðstoðar er þöif honum til handa. Allt of algengt er að þeir sem einu
sinni hafa þurft að afplána fangelsisvist fremji hliðstæð eða alvarlegri afbrot
eftir að henni er lokið.
í dag líta margir svo á, að dómar yfir afbrotamönnum komi seint og þegar
þeir koma séu þeir úr takt við raunveruleikaskyn fólks. Kannski að vægir
dómar endurspegli þá skoðun dómara að fangelsi miðað við núverandi aðstæð-
ur sé ekki sú refsing, sem telja má farsæla afbrotamanninum til handa. Önnur
úrræði þurfi að koma til. Ekki virðist þó hægt að kenna lengur dómskerfinu
að jafnaði um nefndan seinagang mála ef marka má nýjustu fréttir.
Flýta þarf rannsókn, útgáfu ákæru og dómsmeðferð í málum síbrotamanna.
í dag er það þó almennt viðhorf meðal rannsóknarlögreglumanna að ekkert
þýði að senda mál áfram til útgáfu ákæru eða til ríkissaksóknara nema hlé
verði á brotaferli viðkomandi. Hér er annað hvort um að ræða rangt mat,
rangt viðhorf eða röng vinnubrögð lögreglumannanna er mótast hafa af
hefðum, eða um er að ræða fyrirmæli frá einhverjum í kerfinu. Þessu þarf að
breyta í málum þeirra einstaklinga, sem sýnt er að hafi ekki látið eða vilji
ekki láta af afbrotaferli sínum. Um er að ræða tiltölulega fáa einstaklinga er
valda heiðarlegu fólki miklum skaða. Oft eru afbrotin vímuefnatengd.
Til þess að auka megi skilvirknina og til að mál geti gengið eðlilega fyrir
sig, þarf að vera mögulegt að taka þegar í stað fyrir einstök mál afbrotamanna,
s.s. þegar þeir eru staðnir að verki, gefa út ákæru og dómtaka málin á mjög
skömmum tíma, helst á meðan viðkomandi er enn í höndum lögreglu. Þannig
væri fyrst hægt að tengja ferlið afbrot - viðurlög með áhrifaríkum hætti.
Ríkissaksóknari virðist ekki, þrátt fyrir mikla nauðsyn, hafa reynt að bregðast
við þeirri þörf að sinna þessum tilteknu málum, þ.e. málum síbrotamanna,
betur en raun ber vitni. Því það er ekki síst hans að reyna að skilvirkja það
kerfi sem hann stendur fyrir og það er ekki síst hans að beina athygli ráðuneytis
43