Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1968, Blaðsíða 21
19
en verið hefir, ef þjóðfélagið á ekki að staðna og dragast aftur
úr, og er þó skylt að minnast þess, að framlög til Háskólans
hafa stórhækkað á síðustu árum. Vísindalegar framfarir munu
sjálfsagt auðkenna þennan aldarþriðjung öðru fremur, og Is-
lendingar geta ekki eignazt hlutdeild í þeim framförum og því
síður verið veitendur, nema aðstaðan til rannsókna og kennslu
sé stórbætt. Fylgja verður eftir þeirri uppbyggingu Háskólans,
sem nú er hafin, og þar duga engir smámunir, að því er fjár-
veitingar varðar, ef viðhlítandi úrlausn á að fást. tJtvegun hús-
næðis fyrir læknadeild til kennslu og rannsókna er mál, sem
þolir enga bið. Um húsnæði fyrir bókasafn og lestrarsali var
áður rætt. Brýn þörf er á byggingu fyrir þjóðfélagsvísindin til
kennslu og rannsókna, bæði þau, sem nú er fengizt við, og þau,
sem bætt verður við vonandi á næstunni. Verður með þeim
hætti skapað rannsóknarumhverfi, sem verður til stórbóta fyrir
þessi veigamiklu vísindi, sem Islendingar hafa því miður ekki
búið að sem skyldi. Stefnt er að því, að verkfræðideild verði
almenn raunvísinda- og verkfræðideild, og getur það ekki orð-
ið, nema með stórkostlegu átaki í byggingarmálum, m. a. í
þarfir náttúruvísinda, og grípa inn í það mál tengsl Náttúru-
fræðistofnunar og tengsl rannsóknarstofnana, sérstaklega í
jarðvísindum, við Háskólann. Hér minni ég enn á það mikla
átak, sem til þarf að koma, í sambandi við félagsstofnanir í
þágu stúdenta. Ég skal ekki nefna neinar fjárhæðir í dag, en
Háskólinn mun á næstunni setja fram miklar og rökstuddar
óskir um stórfelldar fjárveitingar, svo að nemur hundruðum
milljóna, sem verða hlutfallslega svipaðar og sú fyrirgreiðsla,
er allir háskólar á Norðurlöndum hafa fengið síðustu árin.
Heitir Háskólinn á íslenzka þjóð til fulltingis við þá upp-
byggingu, sem nú er hafin, og ég fulltreysti því, að allur al-
menningur skilji vel þarfir Háskólans og sé reiðubúinn að tak-
ast á hendur þær miklu fjárgreiðslur, sem vikið var að og
einar geta stuðlað að því að gera Háskólann hlutgengan meðal
annarra háskóla á Norðurlöndum.
Eitt af því, sem stendur eflingu vísindastofnana fyrir þrif-
um hér á landi, er, að okkur vantar hér samræmda vísinda-